Friday, January 22, 2016

Það er erfiðara en þú heldur að vinna titil í NBA


Forkólfar NBA deildarinnar hafa um árabil stuðst við regluverk er miðar að því að halda einhvers konar jöfnuði í deildinni, svo minni klúbbarnir eigi möguleika á að ná árangri alveg eins og stórveldin.

Ekki eru allir sammála um ágæti þessa kommúnisma og reglufarganið sem fylgir nýjum kjarasamningum í NBA deildinni er nokkuð umdeilt. Þannig eru reglur um launastrúktúr og launaþak gjörólíkar því sem tíðkast í atvinnudeildum í flestum öðrum boltagreinum, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.

En þessi pistill rúllaði ekki af stað af því okkur langaði svo mikið að fara að skoða katalóga og regluverk. Ef við hefðum gaman af því, hefðum við gerst lögfræðingar og ef við hefðum gerst lögfræðingar, væri ekki til neitt sem héti NBA Ísland af því þá værum við mjög líklega dauð inni í okkur.

Hugmyndin að þessum pistli fæddist þegar við heyrðum ónefnda fjölmiðlamenn ræða átakanlega dökka nánustu framtíð Brooklyn Nets í hlaðvarpsþætti á dögunum.



Framtíð Nets er kolsvört, vegna þess að forráðamenn félagsins tóku þátt í stóru og miklu áhættuspili fyrir nokkrum árum og töpuðu mjög illa. Þeir standa nú uppi með mestmegnis gagnslausan mannskap og enga valrétti, en á sama tíma er framtíð félagsins sem átti við þá viðskipti - Boston Celtics - hin bjartasta.

Brooklyn er fast í skrúfstykki af eigin völdum langleiðina til 2020 og því sjá stuðningsmenn framtíðina fyrir sér eins og súludansmær í Norður-Kóreu - það er eitthvað lítið að fara að gerast þar á bæ.

En þessi pistill er heldur ekki um Brooklyn Nets, Guð forði okkur öllum. Hugmyndin sem vaknaði við þessa Brooklyn-pælingu var aftur á móti þessi: Hvað þarf að gerast svo félag í NBA deildinni geti ekki aðeins orðið samkeppnishæft, heldur unnið meistaratitil?

Og því meira sem við hugsuðum um það, því þunglyndari urðum við, því það liggur í augum uppi að það er nánast ekki séns í helvíti að vinna NBA meistaratitilinn. Trúið þið okkur ekki? Gott og vel, við skulum bara skoða gögnin sem liggja fyrir.

(Mynd: Bill Russell, ellefufaldur NBA meistari sem leikmaður og síðar spilandi þjálfari Boston Celtics og Red Auerbach, þjálfari Celtics, sem var sigursælasti þjálfari í sögu NBA deildarinnar með níu meistaratitla þangað til Phil Jackson sló honum við árið 2009).



Það eru undantekningar á öllum reglum auðvitað, en það sem þú þarft til að vinna meistaratitla í NBA deildinni er ekki bara frábærir körfuboltamenn. Þú þarft instant heiðurshallarmeðlimi, goðsagnir, helst bestu leikmenn sögunnar í einhverjum stöðum - og þú þarft fleiri en einn og stundum fleiri en tvo. Og þú þarft að vera með sögulega góðan þjálfara og staff, góða skrifstofu, nóg af metnaði og peningum - og síðast en ekki síst, þarftu að vera ógeðslega heppinn, lesandi góður.

Til að forðast það að þessi pistill verði þriggja vikna lestur og til að halda okkur sem næst nútímakörfuknattleik, skulum við kíkja á síðustu 25 ár eða þar um bil í deildinni og miða okkur við árið þegar Michael Jordan tók við lyklunum að NBA deildinni úr höndum Magic Johnson og Larry Bird - árið 1991.

Chicago Bulls lið 10. áratugarins ættu að vera mörgum sem lesa þetta vel kunnug, en þó allir titlarnir gefi það ef til vill til kynna að þetta lið hafi rokið beint á toppinn og verið þar í áratug, var þetta nú ekki alveg svona auðvelt hjá Jordan og félögum.

Fyrstu þrjú árin sem Bulls fór í úrslitakeppnina með Jordan, féll það út í fyrstu umferð (1985-87), þá annari (´88) og loks í úrslitum Austurdeildarinnar fyrir Detroit árin tvö sem Pistons vann titlana ´89 og ´90.

Árið 1991 var hinsvegar komið að Chicago og liðið átti eftir að vinna sex titla á árunum 1991-98.

Myndin hér til hægri er af fyrsta meistaraliði í sögu Chicago frá árinu 1991. Þetta lið lagði Magic Johnson og félaga í Lakers 4-1 í lokaúrslitum eftir að hafa lent undir 1-0 á heimavelli í einvíginu.

Þessi Chicago-lið, sérstaklega liðið sem vann seinni þrennuna af titlunum (´96-´98), er almennt álitið eitt besta lið allra tíma í NBA deildinni.

Bæði liðin áttu það sameiginlegt að vera þjálfuð af sigursælasta þjálfara allra tíma Phil Jackson og þá gegndi Scottie Pippen hlutverki Robins við hlið Leðurblökumannsins Michael Jordan, sem reyndar var oftar kallaður Ofurmennið (ekki var vitað til þess að Súpermann hefði verið með samkynhneigðan unglingspilt sem side-kick eins og Leðurblöku-pervertinn).

Síðari útgáfan af meistaraliði Chicago var með ljómandi góða aukaleikara og rulluspilara, sem sumir hverjir eru virtari í annálum deildarinnar en svo að þeir séu kallaðir rulluspilarar þar.

Dennis Rodman var t.d. rankaður tíundi besti kraftframherji sögunnar af ESPN á dögunum, en auk hans voru þarna menn eins og Tony Kukoc og Steve Kerr, sem í dag þjálfar Golden State Warriors.

Chicago hafði sem sagt á að skipa besta leikmanni heims á sínum tíma og líklega besta leikmanni allra tíma í Michael Jordan, einum besta þjálfara allra tíma í Phil Jackson, öðrum leikmanni sem var einn af 50 bestu leikmönnum allra tíma sem kjörnir voru í tilefni hálfrar aldar afmæli NBA deildarinnar árið 1996 (Scottie Pippen).

Það var líka með tíunda besta kraftframherja sögunnar að mati ESPN (Rodman), einn besta evrópska leikmanni sögunnar í NBA deildinni (Kukoc) og góðum slatta af ljómandi góðum rulluspilurum sem keyptu plan þjálfarans.

Eins og titlarnir sex bera með sér, var þetta Chicago-lið ekkert slor og auk allra þessara hæfileikamanna, hafði það líka heppnina með sér, sem er alltaf mikilvægur þáttur í öllu meistarasamhengi eins og við erum alltaf að segja ykkur.

Þannig átti þetta Chicago-lið sér engan ákveðinn sögufrægan mótherja sem það þurfti að berjast við ár eftir ár eins og Celtics og Lakers lið þeirra Bird og Magic höfðu gert áratuginn á undan og ekki má gleyma meiðslunum.

Chicago slapp við öll stór meiðsli á þessum árum sem gerði því kleift að vinna titla. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort Chicago hefði unnið t.d. Phoenix ´93 eða Utah bæði árin 1997 og 98 ef Michael Jordan hefði slitið krossbönd í annari umferð úrslitakeppninnar.

Liðið sem sópaði til sín titlunum tveimur sem í boði voru á milli-Jordans-árunum 1994 og 1995 (þegar Jordan tók þá yfirmáta fáránlegu ákvörðun að gerast atvinnumaður í boccia) var Houston Rockets.

Fyrirliði og stórstjarna þessara Houston-liða var Hakeem Olajuwon, einn besti miðherji í sögu NBA deildarinnar (5. besta miðherja sögunnar að mati ESPN í könnun sem birt var á dögunum).

Annað árið fékk hann til liðs við sig gamla liðsfélaga sinn úr háskóla Clyde Drexler (5 besta skotbakverði sögunnar skv. sömu ESPN könnunar) og í kring um þá var langur listi frábærra rulluspilara.

Á meðal þeirra má nefna Kenny Smith (sjónvarpsmaður á TNT í dag), Robert Horry (sjöfaldur NBA meistari - meira um hann síðar), Vernon Maxwell, Otis Thorpe, Sam Cassell og fleiri góðir.

Þetta lið var svo þjálfað af mjög góðum þjálfara í Rudy Tomjanovich, sem einhverra hluta vegna er ekki kominn inn í Heiðurshöllina, en pólitíkin á bak við inngöngu í það batterí er ekki einföld.

Nú erum við komin fram til ársins 1999 og þótt ótrúlegt megi virðast, dettur þar inn á blað hjá okkur maður sem er enn að spila meðal þeirra bestu í NBA deildinni.

San Antonio Spurs hafði verið liðið hans David Robinson allan tíunda áratuginn, en honum létti stórum þegar hann fékk hinn frábæra Tim Ducan við hliðina á sér árið 1997 eftir stórkostlegt tank-djobb San Antonio árið áður (þegar það tók sér góðan tíma í að endurheimta David Robinson úr erfiðum meiðslum).

Robinson hafði á sér það orð að vera fremur lítill inni i sér þegar kom fram á ögurstundu þó hann væri alltaf talinn á meðal allra bestu körfuboltamanna heims.

Hann vippaði sér því feginn í farþegasætið þegar Tim Duncan kom til Texas og samstarf þeirra og þjálfarans Gregg Popovich byrjaði að bera ávöxt strax á verkbannsárinu 1999 þegar San Antonio vann fyrsta meistaratitilinn í sögu félagsins eftir sigur á New York í lokaúrslitaeinvígi.

Auk rulluspilara eins og Mario Elie og jú, Steve Kerr, og fyrrum stjörnuleikmanns í Sean Elliott var San Antonio með þjálfara í Popovich sem í dag yrði ekki neðar en í fimmta sæti yfir bestu þjálfara allra tíma í NBA deildinni.

Þá ku Spurs hafa verið með sjöunda besta miðherja sögunnar (skv. ESPN) í Robinson og besta kraftframherja allra tíma (skv. ESPN) í Tim Duncan. Engin meðalmennska þarna eins og þið sjáið, en þarna er um að ræða sokkabandsár eins sigursælasta félags í sögu NBA deildarinnar.



Næsta stórveldi á dagskrá var Los Angeles Lakers, klúbbur sem hefur ekki lagt það í vana sinn að vera án titla í langan tíma í senn. Eftir nokkur vonbrigðaár með ofurstjörnurnar Kobe Bryant og Shaquille O´Neal í sínum röðum, small þetta loksins saman hjá Lakers árið 2000 þegar liðið vann sinn fyrsta titil síðan árið 1988.

Það var svo sem engin tilviljun að Lakers næði að vinna titilinn á aldamótaárinu, því þá var það ekki aðeins komið með tvo af betri körfuboltamönnum heims í sínar raðir, heldur hafði það einnig gengið frá samningi við heitasta þjálfara heims á þeim tíma, Phil Jackson.

Jackson kenndi þeim Kobe og Shaq að vinna saman og vinna körfuboltaleiki, en þeir tveir voru þvílíkar hamhleypur á þessum árum að þeir þurftu oft á tíðum ekki merkilegan mannskap í kring um sig.

Menn eins og téður Robert "Stórskota Stebbi" Horry, Derek Fisher, Rick Fox og fleiri áttu eftir að gera sitt til að koma Lakers-liðinu í gegn um sterka Vesturdeild þess tíma, en enginn af þremur mótherjum Lakers í lokaúrslitunum árin 2000-02 var verðugur þess að þvo af þeim pungbindin.

Indiana, Philadelphia og New Jersey unnu heldur ekki nema samtals þrjá leiki í rimmum sínum við Lakers í lokaúrslitunum 2000-02.

Ef við rýnum aftur í óvísindalegan styrkleika þessa Lakers-liðs með hjálp ESPN og sögulegs samhengis, var Shaquille O´Neal hrikalegasti körfuboltamaður jarðar á þessum árum. Aðeins Wilt Chamberlain getur státað af því að hafa aðra eins líkamlega yfirburði yfir andstæðinga sína þegar kemur að miðherjum í sögu NBA deildarinnar.

O´Neal er rankaður númer fjögur á lista ESPN yfir bestu miðherja allra tíma (á eftir Kareem, Wilt og Russell) og meðreiðarsveinn hans Kobe Bryant er settur í annað sætið yfir bestu skotbakverði allra tíma (á eftir Michael Jordan), svo það er ljóst að þessir tveir á hátindi ferils síns og einn besti þjálfari allra tíma væru strax orðnir ansi líklegir til afreka, enda stóðu þeir undir hluta af væntingunum með því að vinna þrjá meistaratitla í röð.

Við segjum hluta af væntingunum af því þetta Lakers-lið hefði að sjálfssögðu átt að vinna fleiri meistaratitla, en mannlegur breyskleiki var einna helsta ástæðan fyrir því að titlarnir urðu ekki fleiri.



Það var San Antonio sem hélt á meistarakeflinu í NBA deildinni áður en Lakers-stórveldi þeirra Kobe og Shaq tók við því um aldamótin og þegar dramað varð of mikið í Los Angeles, var San Antonio alveg tilbúið að taka við því aftur. Spurs-menn unnu titilinn aftur árið 2003 með þá Duncan og Robinson í miðjunni, en það var svanasöngur Robinson sem lykilmanns Spurs og menn eins og Tony Parker og Manu Ginobili að taka þar við. Meira um þá síðar.

Árið 2004 var mjög sérstakt ár í NBA deildinni, því þá mætti Lakers-liðið til leiks með tvo verðandi Heiðurshallarmeðlimi í viðbót, þá Gary Payton og Karl Malone. Mikið var skrifað um þetta stjörnum hlaðna lið á sínum tíma og auðvitað var ekkert annað en meistaratitill ásættanlegt.


En stundum fara hlutirnir ekki alveg eins og til er ætlast og þannig var það 2004. Þetta er nefnilega eitt af fáum árum sem er stjörnumerkt fyrir þær sakir að þar var liðið sem vann titilinn ekki hlaðið Heiðurshallarmeðlimum.

Hér erum við auðvitað að tala um varnarjálkana í Detroit Pistons, sem nokkuð óvænt náðu að vinna áðurnefnt Lakers-lið nokkuð örugglega í lokaúrslitum. Þetta Detroit-lið var ekki skipað sömu ofurstjörnunum og lið Lakers, en þar var hvergi veikan blett að finna og það var þjálfað af Larry Brown, sterkum manni í faginu, þó hann sé ekki allra.


Ekki misskilja okkur, þetta Detroit-lið var mjög sterkt, sem sést á því að það fór í úrslit Austurdeildarinnar sex ár í röð á árunum 2003-2008. Það var bara ekki með neina Kobe-a eða Shaq-a í sínum röðum - það var með Chauncey Billups, Rip Hamilton, Tyshaun Prince, Rasheed Wallace og "Big" Ben Wallace.

Rétt eins og tvöfalt meistaralið Pistons á árunum 1988-89 heillaði marga með ruslakarlaspilamennsku sinni og varnarleik, var 2004 lið Pistons mjög vinsælt hjá mörgum og við þekkjum nokkra sem halda með Detroit enn í dag eftir þetta skemmtilega skeið í sögu félagsins.

Árið 2005 var aftur komið af San Antonio, sem vann titilinn það árið eftir harða baráttu við áðurnefnt Detroit-lið og þessi útgáfa af San Antonio, sem nú var algjörlega knúin áfram af þeim Duncan, Parker og Ginobili, vann enn og aftur árið 2007.

Annað lið með goðsagnir í hverju rúmi vann meistaratitilinn árið 2006, en það var Miam Heat þeirra Shaquille O´Neal og Dwyane Wade, sem naut aðstoðar fleiri Heiðurshallarmeðlima sem komnir voru af léttasta skeiði, þeirra Gary Payton og Alonzo Mourning.


Þessi pakki var svo þjálfaður af Pat Riley, sem er mjög líklega topp fimm þjálfari allra tíma í NBA deildinni. Ef við vitnum aftur í skoðanakönnun ESPN frá því um daginn, sitja þeir O´Neal og Wade báðir í fjórða sæti á listunum yfir besta miðherjann og besta skotbakvörðinn í sögu deildarinnar.

Boston skaust nokkuð óvænt fram á sjónarsviðið árið 2008 eftir snilldarleg viðskipti sem færðu liðinu Kevin Garnett og Ray Allen til að hjálpa mönnum eins og Paul Pierce og Rajon Rondo. Boston var búið að vera drasl fram að þessu, en sá lottóvinningur sem félagaskiptin voru sem færðu þeim Garnett og Allen tryggðu að nú var gamla stórveldið komið til að vera á og við toppinn næstu árin.


Paul Pierce var neyðarkarl Boston-liðsins en hann kemst ekki inn á lista ESPN yfir bestu minni framherja NBA deildarinnar frá upphafi, en Kevin Garnett er í 5. sæti á lista fjarka og Ray Allen í 8. sæti á lista tvista. Bættu við þetta þeirri staðreynd að Rajon Rondo var á köflum besti maður liðsins og þú ert kominn með ansi þéttan hóp, sem var líka með ljómandi fína rulluspilara á bekknum og gott þjálfarateymi í Doc Rivers aðalþjálfara og Tom Thibodeau varnarþjálfara.

Það líður venjulega ekki langt á milli meistaratitla hjá Los Angeles Lakers og sérstaklega ekki ef Phil Jackson situr í þjálfarastólnum. Lakers hrifsaði titilinn til sín á ný árið 2009 og aftur árið 2010 undir stjórn Jackson og Kobe Bryant, en þá voru komnir þangað nokkrir vel brúklegir leikmenn þeim til aðstoðar.


Framlína Lakers var sérstaklega ekkert blávatn með menn eins og Pau Gasol (9. besta fjarka sögunnar að mati ESPN), Lamar Odom, Andrew Bynum og Heimsfrið Artest til að styðja við bakið á Kobe Bryant, sem vann sinn fjórða og fimmta titil með liðinu.

Við eigum eftir að sjá hvernig sagan meðhöndlar meistaralið Dallas Mavericks frá árinu 2011, en ljóst er að það verður aldrei kallað stórveldi. Titilinn var eins og kirsuberið sem vantaði á toppinn á glæsilegum ferli leikmanna eins og Dirk Nowitzki og Jason Kidd.



Þetta er eitt af fáum liðum sem við munum eftir í sögu NBA deildarinnar sem segja má að hafi hitnað á réttum tíma og skotið sig í gegn um úrslitakeppnina. Það er kannski nokkur einföldun á málinu, en okkur er í fersku minni hvernig skrifað var um þetta lið á sínum tíma.

Þetta Dallas-lið var samt sem áður það sem Charles Barkley kallar stökkskota lið, en það var óhemju vel skipað sterkum rulluspilurum sem þekktu hlutverk sín vel og framkvæmdu þau 100%. Þetta lið var þjálfað af Rick Carlisle, sem enn þjálfar Dallas, en hann er að okkar mati næstbesti þjálfarinn í NBA deildinni í dag á eftir Gregg Popovich.

Það var svo Dirk Nowitzki sem dró þetta lið á herðum sér í gegn um úrslitakeppnina og skaut það að langþráðum titli, eftir hörkueinvígi við "her hins illa" - Miami liðið sem LeBron James vogaði sér að semja við árið 2010.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Viðbót 22/1 ´16 -  eftir vinsamlegar Twitter-ábendingar:

Eftir á að hyggja, glossuðum við ef til vill of létt yfir þetta Dallas-lið, kannski af því það vann "bara" einn meistaratitil, en þetta lið var ekki skipað neinum skussum. Dirk Nowitzki var settur í þriðja sæti á lista bestu kraftframherja allra tíma hjá ESPN á dögunum, sem ef til vill er dálítið rausnarlegt, en breytir því ekki að hann er og var magnaður leikmaður.

Jason Kidd var löngu kominn af léttasta skeiði árið 2011, en átti samt stóran þátt í velgengni Dallas í seinna stoppinu sínu hjá liðinu. Kidd er rankaður sem áttundi besti leikstjórnandi allra tíma af ESPN og kannski má segja að styrkur hans hafi komið best í ljós í velgengni Knicks-liðsins sem hann var partur af á lokaspretti ferilsins nokkrum árum síðar. Þar hitti hann ekki úr skoti í marga mánuði en hjálpaði samt til við að koma liðinu í gegn um umferð í úrslitakeppninni sem er hlutur sem gerist á tuttugu ára fresti orðið.

Auk þeirra Dirk og Kidd má svo minnast á fleiri leikmenn sem í raun er ekki hægt að kalla rulluspilara, því þeir gegndu stærra hlutverki en svo. Miðherjinn Tyson Chandler var þarna að ná fullum þroska sem einn allra besti varnarmiðherji NBA deildarinnar, Jason Terry skoraði mörg og ekki síður mikilvæg stig fyrir liðið á ögurstundu, Shawn Marion dekkaði bæði miðherja og leikstjórnendur og allt þar á milli og meira að segja ólíkindatól eins og DeShawn Stevenson tókst að verða ódauðlegir með því að þenja munn og spila frábæran varnarleik.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------

Miami-liðið var þó ekki búið að segja sitt síðasta eins og þið munið eflaust og fór fjórar ferðir í röð í lokaúrslitaeinvígið meðan LeBron James spilaði með því árin 2011-14.

Miami Heat þeirra LeBron James, Dwyane Wade og Chris Bosh vann titilinn tvö ár í röð 2012-13 og er tvímælalaust eitt sterkari lið síðari ára í NBA deildinni. Þetta lið byggði á talsvert öðruvísi spilamennsku en meistarar áranna á undan, þar sem frábær varnarleikur og hraðaupphlaup voru ær þess og kýr.

ESPN-könnunin góða segir okkur að þarna hafi verið komnir saman besti minni framherji sögunnar (LeBron James), fjórði besti skotbakvörður sögunnar (Dwyane Wade, einn fjölhæfasti stóri maður NBA deildarinnar (Chris Bosh), áttundi besti skotbakvörður sögunnar (Ray Allen, sem spilaði stóra rullu í titlinum 2013 þó hann væri kominn af léttasta skeiði), ljómandi fínn þjálfari sem kom beint úr smiðju Pat Riley og ólseigir rulluspilarar.

Ef þið hefðuð ekki fylgst með NBA deildinni síðustu tuttugu árin og væruð bara að lesa þetta stutta sögulega yfirlit, mynduð þið halda að við værum bæði snældugeðveik og að ljúga ef við segðum ykkur að San Antonio hefði unnið meistaratitilinn AFTUR árið 2014 með sama lykilmann í miðjunni og dró liðið að fyrsta titlinum sínum undir lok síðustu aldar!


En við erum ekki að ljúga. San Antonio vann fokkíng aftur. Tim Duncan var orðinn gamall og meira að segja meðreiðarsveinar hans Tony Parker og Manu Ginobili líka. Þetta lið treysti á einhverja bestu liðsheild og heitasta sóknarleik sem sést hefur í sögu lokaúrslitanna þegar það gjörsamlega valtaði yfir Miami í úrslitaeinvíginu 2014 og hefndi þar með fyrir sárt tap sitt á sama vettvangi árið áður.

Og það sem er enn galnara er að Tim Duncan er enn að og hann er enn að hóta því að vinna einn titil í viðbót áður en hann leggur skó sína á hilluna og lýkur ferlinum sem einn besti körfuboltamaður allra tíma.

Það verður gaman að sjá hvernig Spurs tekst til í úrslitakeppninni á komandi vori með þetta nýjasta lið sitt, þar sem gömlu hetjurnar hafa fært sig aftur fyrir í röðinni og menn eins og Kawhi Leonard og LaMarcus Aldridge hafa verið spenntir fyrir vagninn. Það er nefnilega svo magnað að þó þetta San Antonio-lið sé ef til vill eitt það allra besta sem Duncan hefur verið partur af og sigurganga þess undanfarið sé mögnuð, er eitt lið í NBA deildinni sem er mögulega betra - og var það svo sannarlega á síðustu leiktíð.


Það er síðasta liðið á listanum okkar, meistarar Golden State Warriors. Þið þekkið þetta lið sennilega mætavel, en það er eins með Warriors og hin liðin sem hafa unnið titlana á síðustu árum, við erum ekki alveg dómbær á það strax hvaða stöðu þau eiga eftir að taka sér í sögunni.

Nokkra hluti varðandi Golden State getum við þó sagt okkur strax, án hjálpar sögunnar. Til dæmis að Golden State er eitt sterkasta og skemmtilegasta lið sem við höfum séð og að það er einn af aðalleikurunum í mikið breyttri spilamennsku í deildinni.

Sagan á svo eftir að sýna okkur hvort grunur okkar með þetta lið reynist réttur, að það sé sögulega gott, með sögulega góðan þjálfara og sögulega góða stórstjörnu í Stephen Curry. Síðasta atriðið er að verða ansi líklegt, eins og sést best á því að það er ekki á hverjum degi sem verið er að útnefna menn þá bestu í sögunni í einhverju áður en þeir verða 27 ára gamlir.

Þetta er búin að vera allt of löng úttekt hjá okkur og mjög óvísindaleg eins og allt sem skrifað er á þessa síðu, en ætlunin með henni var að sýna fram á að það er hunderfitt að vinna meistaratitil í NBA deildinni. Þú þarft að hafa alveg ógeðslega sterka leikmenn, helst frábæra þjálfara og svo helling af heppni ef þú átt að vinna titilinn.

Við þurfum ekki að leita lengra en til síðustu úrslitakeppni til að sýna fram á hvernig nauðsynlegt er að hafa heppnina með sér til að verða meistari. Þar hélt Golden State prýðilegri heilsu meðan allir mótherjar liðsins voru með hluta af liðum sínum á slysadeild.


En ef það er svona augljóst hvað lið þurfa að hafa til að geta orðið meistarar - er þá ekki hægt að nota þessa kenningu til að sjá hvaða lið í dag hafa á annað borð burði til að vinna titla í ár og á næstunni?

Jú, nokkurn veginn. Það eru ekki mörg lið í NBA deildinni sem eru kandídatar yfir höfuð, en þau sem á annað borð eiga erindi í úrslitin, eru sannarlega með hráefni ekki ósvipað liðunum sem við töldum upp hér fyrir ofan.

Golden State er auðvitað þegar búið að vinna titilinn og er, eins og þjálfari liðsins hótaði á síðustu leiktíð, enn betra í vetur en það var á síðustu leiktíð - sem er hryllileg tilhugsun fyrir mótherja þess.


San Antonio er San Antonio og eins og þið sjáið, hefur það hjálpað liðum gríðarlega mikið við að vinna titla á 21. öldinni ef þau eru San Antonio. Ofan á það er Spurs-liðið auðvitað með einn besta þjálfara allra tíma og óhemju sterkan mannskap sem er til alls líklegur, þó lykilmenn liðsins séu sumir hverjir komnir ansi langt fram yfir síðasta söludag.

Cleveland fór í úrslitin í fyrra og á eftir að fara í úrslitin í ár og á næsta ári, einfaldlega af því það á enga keppinauta í Austurdeildinni. En Cleveland er ekkert slor lið náttúrulega. Það hefur jú á að skipa einum allra besta leikmanni í sögu deildarinnar í LeBron James og tveimur öðrum Stjörnuleikmönnum + nokkrum ágætum rulluspilurum.


Sagan segir okkur að þú eigir ágætan séns á að keppa um titla ef þú ert með einn af tíu bestu körfuboltamönnum allra tíma í þínu liði og það sést líka svart á hvítu í því að LeBron James hefur spilað til úrslita í NBA deildinni á hverju einasta ári síðan árið 2011 - sem er með ólíkindum, hvort sem Austurdeildin er búin að vera rusl á þeim tíma eða ekki (og hún er reyndar búin að vera það).

Í okkar augum er bara eitt lið í viðbót sem á fræðilegan möguleika á að keppa um meistaratitilinn og það er Oklahoma City. Það á reyndar aðeins við ef þetta lið verður yfirnáttúrulega heppið og byrjar allt í einu að spila miklu, miklu, miklu betur en það er að gera akkúrat í dag.



En það er nefnilega svo skondið að við höfum þetta lið með á listanum einmitt út af sagnfræði eins og þeirri sem við höfum verið að skoða í þessum pistli - Oklahoma er með tvo af bestu leikmönnum sinnar kynslóðar í sínu liði og nokkuð fína aukaleikara til viðbótar. Það á eftir að koma í ljós hvort þjálfarinn nær árangri í NBA eins og hann gerði í háskóla, en að okkar mati eru bara tvær ástæður fyrir því að Oklahoma er enn ekki búið að vinna titil - óheppni og ekki nógu góðir þjálfarar.

Og þetta er nokkurn veginn allt sem við höfum að segja um það, eins og Forrest Gump sagði forðum.