Friday, January 29, 2016

Warriors-menn skora eins og Suns-lið Barkley


Metin hrannast upp hjá Golden State þessa dagana og reyndar San Antonio líka. Lætin í meisturunum eru eftirtektarverð, því í stað þess að spila eins og þeir séu saddir eftir titilinn, spila þeir eins og þeir séu á persónulegri vendettu gegn hverju einasta liði deildarinnar. Alltaf sömu krúttin, en spila eins og þeir séu brjálaðir. Eins og þeir séu í sjómann við gaurinn sem henti dúkku litlu systur þeirra í pollinn.

Ekki dettur okkur í hug að reyna að fiska upp öll metin sem þetta Warriors-lið er að slá um þessar mundir, en þó langar okkur að vekja athygli á nokkum skemmtilegum molum. Fyrsti molinn hefur með skemmtanagildið að gera og undirstrikar hvað Golden State er í senn sterkt og skemmtilegt lið.

Þið munið að helsta ástæðan fyrir því að Golden State er besta lið í heimi er að það spilar svo góða vörn. Liðið spilar frábæran sóknarleik, sem alltaf er að verða betri, en það er vörnin sem er grunnurinn og hún ræður. Golden State er best af því þeir gera allt rétt - og þeir sem gera rétt, sjá til þess að þétta varnarleikinn áður en þeir fara í sóknarkrúsídúllur.


Ókei, en nú er sóknarleikurinn hjá Golden State sem sagt að verða sama bomban og varnarleikurinn. Liðið virðist alltaf vera að skora meira og meira og þó hluta af því megi tengja tempóinu sem liðið spilar á (sem er náttla ansi hátt), er hraðinn ekki allt.

Golden State er nefnilega komið í óld skúl spilamennsku núna og farið að skora yfir 120 stig leik eftir leik, svona eins og liðið gerði hjá Don Nelson í kring um 1990. Og það var ekki leiðinlegt að horfa á það lið spila körfubolta.

Nú er svo komið að Golden State er búið að vinna fimm leiki í röð og er búið að skora 120+ stig í þeim öllum. Þetta gerist ekki á hverjum degi og liðið sem afrekaði síðast að skora svona hrikalega var heldur ekkert smálið. Það var Phoenix-liðið hans Charles Barkley frá árinu 1993.
Þetta Suns-lið vann fimm í röð í febrúar á fyrsta árinu hans Barkley með liðinu, þar sem það skoraði ekki undir 121 stigi í neinum þeirra og vann þá líka alla. Eins og þið sjáið á rándýru töflunni sem við klipptum út handa ykkur, var þetta Suns-lið þeirra Barkley, Kevin Johnson og Dan Majerle ekki í teljandi vandræðum með að skora og gerði það reyndar liða best í deildarkeppninni þennan veturinn (þó það hafi tapað fyrir Chicago í lokaúrslitunum sumarið á eftir).

Enn sjaldgæfara afrek hjá Warriors var að vinna þrjá af fjórum leikjum með 30+ stigum, en samkvæmt Íþróttastofu Elíasar hafði ekkert lið unnið svo hrikalega síðan ofurlið Los Angeles Lakers byrjaði almanaksárið 1987 með álíka látum.

Golden State er núna búið að vinna þrjá leiki í röð þar sem það hefur aldrei lent undir á neinum tímapunkti í leiknum og er alls búið að eiga tíu slíka leiki í vetur.

Það er helmingi oftar en liðin sem koma næst - Chicago, Boston og San Antonio.

Stephen Curry er líka að hóta því að slá enn eitt metið, því hann skoraði þriggja stiga körfu í 117. leiknum sínum í röð í gærkvöldi og nálgast því NBA met Kyle Korver, sem setti þrist í 127 leikjum í röð fyrir ekki löngu síðan.

Bæði Golden State og San Antonio eru að hóta því að setja met í heimasigrum í vetur. San Antonio er þegar búið að setja met yfir flesta sigra í röð á heimavelli í byrjun leiktíðar, en það hefur unnið 25 fyrstu heimaleikina sína í vetur.

Golden State er auðvitað ekki búið að tapa heima heldur, aðeins búið að spila færri heimaleiki (22-0). Warriors-liðið er hinsvegar á lengri sigurgöngu á heimavelli í heildina, því þegar það skellti Dallas í nótt sem leið, var það fertugasti sigur liðsins í röð á heimavelli - rispa sem nær nú yfir ár aftur í tímann.

Með 40. heimasigrinum í röð, jafnaði Golden State árangur Orlando Magic frá árunum 1994-96, sem er næstbesti árangur í sögu NBA. Það er Chicago Bulls frá árunum 1994-96 sem hefur unnið flesta heimaleiki í röð í sögunni - fjörutíu og fjóra.

Og er Golden State að fara að tæta það met í sig eins og öll önnur?

Það verður alveg að koma í ljós, en það gæti orðið nokkuð snúið, því andstæðingarnir í næstu fjórum heimaleikjum Warriors eru Oklahoma, Houston, Atlanta og Oklahoma aftur. Ef liðið lokar þessu, þarf það svo að vinna Orlando þann 7. mars til að hrifsa metið af Bulls.

Skiljanlega hefur metið yfir flesta sigra á tímabili verið mikið í umræðunni í ljósi þessarar frábæru byrjunar hjá Golden State í vetur. Margir veðja á að Warriors geti slegið 72 sigra met Chicago Bulls frá miðjum tíunda áratugnum.

Við ætlum ekki að spá mikið í það núna, en ef þið hafið áhuga á að velta því fyrir ykkur hvort Stephen Curry og félagar geta slegið met þjálfara síns (Steve Kerr, þjálfari Warriors, lék með Chicago-liðinu sem á metið), mælum við með því að þið fylgist vel með liðinu í febrúar. Það eru nefnilega nokkur hressandi ferðalög fram undan hjá Warriors á næstu vikum.