Tuesday, November 1, 2016

Ofurlið Warriors í vanda


Það gerist kannski seint orðið, en þó getið þið oftast bókað að þegar hausinn á ykkur er gjörsamlega að springa af áhyggjum yfir mönnum eða málefnum í NBA deildinni, kemur NBA Ísland til bjargar og greiðir úr flækjunni. Til þess er vefurinn. Meðal annars.

Og við værum ekki að gegna hlutverki okkar ef við færum ekki aðeins ofan í saumana á dramatíkinni sem er að eiga sér stað í Oakland núna - þar sem Besta Lið Ever er pínulítið að drulla á sig.

Sko...

Það sem við skulum hafa alveg á hreinu áður en lengra er haldið, er að ÞÚ SPÁÐIR ÞVÍ EKKI að Golden State myndi byrja svona! Þú skalt ekki einu sinni reyna að halda því fram. Þá verður þú bara að vera úti.

Og þú verður líka að vera úti ef þú heldur að við ætlum að koma með einhverja "heita töku" á Warriors-liðið eftir þrjá leiki og hoppa öskrandi "að þeeeeetta sé búúúiiið!" ofan af nærliggjandi húsþökum. Láttu ekki svona.

Staðreyndin er nú samt sú að Golden State er alveg óralangt frá því að vera að spila góðan körfubolta núna. Svo langt að það er eiginlega bara að spila frekar illa.

Þrjátíu stiga heimatap fyrir Spurs í fyrsta leik og tveir drulluskítugir og ósannfærandi sigrar á kjallaraliðum undirstrika þetta bersýnilega. Og við værum ekki starfi okkar vaxin ef við hefðum ekki skoðun á þessu. Þó það nú væri.

Ef við reynum að ná yfirsýn yfir vandamálið hjá Warriors, dettur okkur einna helst í hug að benda fingrinum á ólíklegan kandídat í þessu mengi - mann sem hefur ekki þurft að hlusta á mikla gagnrýni síðan hann tók við starfi sínu fyrir tveimur árum eða svo. Mann, sem hefur raunar þurft að ganga með sólgleraugu innanhúss til að blindast ekki af velgengni sinni.

Þessi maður er Steve Kerr...

Við áttum okkur á því að undanfarnir mánuðir hafa tekið gríðarlega á skrokkana á öllum starfsmönnum Warriors og enn meira á sálartetrið. Þetta lið kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum upp á stjörnuhimininn í NBA deildinni og fékk að hlusta á skít um það að það væri ekki nógu gott í eitt ár - og neikvæðnitalið og gagnrýnin magnaðist bara eftir að liðið vann titilinn 2015.

Öll þessi neikvæðni virkaði reyndar ljómandi vel á liðið fyrstu mánuðunum og það var þessari neikvæðni og hvatningunni sem hún hafði í för með sér að kenna að Golden State átti bestu deildarkeppni í sögu NBA deildarinnar á síðustu leiktíð.

En allt þetta líkamlega og ekki síður andlega álag sem fylgdi öllum þessum sigrum, tók sinn toll á liðinu og það hrasaði í endamarkinu, þegar það var gjörsamlega búið á sál og líkama og var svo óheppið að lenda í krumlunum á einum besta körfuboltamanni allra tíma í jötunmóð í síðustu þremur leikjum vertíðarinnar.

Það er ekkert auðvelt að safna liði og arka út í stríð á ný eftir svona spennufall, en það er gerlegt, vissulega.

En þá kemur annað babb í bátinn. Í stað þess að sumarið fari í að sleikja sárin, peppa mannskapinn og hyggja á hefndir, fýkur allt prógrammið til Hollywood í handtösku þegar forráðamönnum félagsins dettur það í hug að láta slag standa þegar þeim býðst að fá til sín einu bestu skyttuna í heimi sem er ekki þegar fyrir í liðinu þeirra... - ef það meikar sens....

Þetta er auðvitað alhæfing og einföldun, en sumarið og haustið hjá Warriors fór allt í að sitja fyrir á myndum og svara spurningum um hvort væri nóg að þeir spiluðu með einn bolta á næstu leiktíð, hvort þeir væru með meiddi í egóinu sínu og hvort þeir héldu að þeir myndu tapa fleiri en einum leik á næstu leiktíð.

Lið með sterka karaktera, reynslubolta og leiðtoga léti svona skrum ekki slá sig út af laginu og auðvitað eru allar líkur á því að Warriors-piltar rétti skútuna af fljótlega. Annað er hreinlega óhugsandi. En það er skrekkur í liðinu núna, stærri en sést hefur hjá því síðan það byrjaði að vinna körfuboltaleiki oftar en einu sinni í viku.

Auðvitað er það kannski leikmönnunum sjálfum að kenna ef þeir mæta ekki klárir þegar flautað er til leiks og Draymond Green hefði til dæmis alveg getað sleppt því að vera alltaf á fylleríi, leggjandi hendur á fólk og setjandi myndir af beinlausa bitanum á sér á internetið! Það eru ekkert fyrstu þrjú atriðin í liðsandafræðunum!

En Draymond er dálítill vitleysingur þó að snillingurinn í honum vegi það oftast upp og strákarnir sem bera liðið uppi eru engin vélmenni þó þeir séu hæfileikaríkari en flestir. Það er enginn blóði borinn alfa-karlmaður í Warriors-liðinu og enginn sýkópati með sigurfíkn (MJ, Kobe) og þess vegna endar keflið hjá Steve Kerr í okkar bókum.

Það var Steve Kerr sem átti að grípa strax í taumana, koma mannskapnum niður á jörðina (það er nær ógerningur með klefa fullan af NBA súperstjörnum, við vitum það, en samt) og byrja strax að plana, byggja og gera.

Við sjáum alveg að stór hluti af því sem er að Warriors-liðinu í fyrstu leikjum vetrarins hefur 100% með strategíu að gera, en ekki endilega andlega hluti. Við sjáum, ekki bara hikandann í sóknarleiknum, heldur alla múrsteinana sem allir leikmenn sem ekki heita Curry eða Durant eru búnir að kasta í áttina að saklausu fólki úr galopnum færum undanfarna daga. Og við sjáum líka hvað varnarleikurinn hjá liðinu hefur á tíðum verið... nánast asnalega lélegur - nokkuð sem hefði verið gjörsamlega óhugsandi fyrir sex mánuðum.

Margt af þessu á sér ofur eðlilegar skýringar, eins og þær að það urðu talsverðar breytingar á liðinu í sumar og maðurinn sem er búinn að vera akkerið í varnarleik þess undanfarin guðmávitahvaðmörgár er farinn til Dallas til að deyja eins og fílarnir í Namibíu. Það tekur tíma að slípa þetta til og svo má ekki gleyma því að Golden State kemur alls ekki til með að geta fyllt skarð manna eins og Bogut með þeim mannskap sem það hefur. Það verður bara að gera hlutina öðruvísi.

En þessi vandræðagangur í leikfræðunum segir ekki hálfa söguna. Ef allt er eðlilegt, er Golden State er með næga hæfileika til að skjóta lágmark 25 lið í deildinni í kaf á hvaða degi vikunnar sem er þó það spili ekki nema miðlungsvörn. Gallinn er bara að enn sem komið er - og við vitum að þetta eru bara þrír leikir, sem jafngilda þremur mínútum í Domino´s deildinni - er bara ekkert eðlilegt við leik Warriors.

Þeir Stephen Curry og (sérstaklega) Kevin Durant eru búnir að klára tvo af þessum þremur leikjum liðsins út á það eitt að þeir eru tveir bestu sóknarmenn heims í körfubolta (and it´s not even close) og ekki út af neinu öðru. Draymond Green hjálpaði reyndar til við að klára Phoenix á dögunum með því að sýna skyndilega sitt rétta andlit í vörninni í fjórða leikhluta eftir að hafa verið eins og trúður megnið af fyrstu þremur leikhlutunum. Hann getur þetta ennþá.

Þegar eitthvað fer úrskeiðis, er dásamlegt að kasta til hendinni og finna blóraböggla. Ekki síst ef fólk getur gert það úr nokkuð þúsund kílómetra fjarlægð á bak við skrifborð - án þess að bakka það upp eða bera nokkra ábyrgð á því og jafnvel án þess að hafa hundsvit á umræðuefninu eins og við erum að gera núna.

En við ætlum nú samt að klína óförum Golden State Warriors á fyrstu vikunni á leiktíðinni 2016-17 á þjálfara ársins í fyrra og þann þjálfara sem hefur byrjað best allra þjálfara í sögu NBA deildarinnar, herra Steve Kerr.

Af hverju ekki?