Tuesday, November 1, 2016

Frá ritstjórn


Við munum vel hvað við blótuðum Bill Simmons ekki í hljóði hérna forðum þegar hann hætti að nenna að skrifa pistla á ESPN og gerði ekkert annað en að dæla út (stundum metnaðarlitlum) hlaðvörpum.

Líklega hefur Simmons aldrei verið jafn lélegur við að skrifa pistla á sínum tíma og við höfum verið undanfarið, en munurinn er kannski sá að hann var í 100% starfi við það, meðan við þurfum að djöggla námi, fjölskyldulífi, leik og starfi. Jú og við tölum/skrifum stundum um eitthvað annað en Boston Celtics.

Annars er þessum pistli ekki ætlað að vera skot á Simmons blessaðan, því hann var ákveðinn brautryðjandi fyrir fólk með takmarkaða menntun, metnað og gáfnafar í íþróttablaðamennsku. Þetta er ekkert skot, þetta er staðreynd og Simmons sjálfur myndi eflaust kvitta upp á þetta. Simmons hafði tvennt til brunns að bera og hefur enn - hann er duglegur andskoti þegar hann nennir því og hann er með frjótt ímyndunarafl.

Og hann veitti okkur líka innblástur á sínum tíma. Það má hann sannarlega eiga, þrátt fyrir sína vankanta. Og hann reyndi að vera skemmtilegur, þó það hafi stundum farið öfugt ofan í fólk. 

Við komumst að því sjálf fyrir löngu að það er alveg sama hvort þú heitir Bjarni Fel eða Bill Simmons, Martin Tyler eða Marv Albert, það verður alltaf alveg rosalega mikið af fólki þarna úti sem hatar þig og allt sem þú segir og er tilbúið að segja þér það, hvort sem þú átt það skilið eða ekki. Þannig er þetta bara.

Ætli við höfum ekki reynt með veikum mætti að feta í fótspor Simmons í baráttunni hér á landi. Við höfum verið að breiða út fagnaðarerindið frá því á níunda áratug síðustu aldar og það með nokkuð markvísum og beinum hætti í ræðu og riti síðasta rúma áratuginn. Fólk á skilið að fá að kynnast bestu skemmtun jarðar, meira að segja leiðinlegt fólk... svona næstum því.

Stundum berast okkur skilaboð og skeyti frá fólki sem kennir okkur um endurnýjaðan eða nýupptekinn áhuga sinn á NBA deildinni (eða körfubolta yfir höfuð) og þá brosum við eins og hýenur á Holtinu. Og svo rennur eitt lítið tár niður aðra hvora kinnina. Við erum ekki flóknari lífverur en þetta. Við fengum svona skilaboð í dag og það verður aldrei þreytt. Það skiptir máli.Þúsund sinnum hefur staðið til að breyta NBA Ísland. Spæsa síðuna upp, færa hana í nýjan búning, kommersjalísera hana, breyta henni, en aldrei hefur orðið neitt úr því. Það kemur til af tveimur ástæðum:

1.) - Við trúum ekki á það að breyta einhverju ef það virkar (sæmilega, á sinn hátt).

2.) - Við rekum síðuna eins og við treystum okkur að reka hana, án mikilla afskipta eða aðstoðar annara, af því þá getum við verið örugg um að hún gangi og virki. Við erum hvorki markaðsfræðingar né forritarar - við skrifum um körfubolta.

NBA Ísland hefur sumsé verið dálítið eins og Andre Miller í gegn um tíðina. Ekkert flott, ekkert flashy, en hún hefur alltaf rúllað áfram, þó hægt hafi farið.

Þetta þýðir þó ekki að við séum ekki opin fyrir því að reyna nýja hluti. Ef þú eða þið vitið um fólk sem langar að hjálpa til, sponsa síðuna, gefa henni andlitslyftingu, hýsa hana, hanna hana, skrifa á hana eða kaupa hana, þá erum við alveg tilbúin að hlusta. 

Þetta vita allir sem lesa NBA Ísland að staðaldri, en við höfum engar áhyggjur af því að eitthvað svona komi upp á, af því við höfum sterkan grun um að það sé sennilega einmitt svona sem fólk vill hafa Íslandið sitt. Einfalt, asnalegt, íhaldssamt, einlægt, ókeypis og annað slagið fyndið eða fræðandi.

Ef ekki, er símanúmerið okkar nbaisland@gmail.com

Afsakið þennan stórundarlega pistil sem rann allt í einu fram af lyklaborðinu og gleðilega NBA hátíð 2016-17, kæru lesendur. Takk fyrir lesturinn á síðunni og hlustunina á hlaðvarpið. Það eruð þið sem haldið þessu uppátæki gangandi.

Ritstjórnin