Þeir sem horfðu á leik Cleveland og Chicago á Stöð 2 Sport um daginn eru eflaust löngu búnir að gleyma tilþrifalítilli spilamennskunni sem boðið var upp á það kvöldið.
Það sem upp úr stóð í þessum leik voru allir bleiku skórnir og atriðið þegar LeBron James gerði sig líklegan til að lemja Joakim Noah sem sat á bekknum og lét kónginn heyra það.
Seinna kom í ljós að Noah var pirraður út í James vegna dansatriðanna sem leikmenn Cleveland voru að bjóða upp á í sigurvímu sinni.
Það er stutt á milli þess að gleðjast og niðurlægja andstæðinginn. Þú getur allt eins sagt mömmubrandara í NBA eins og að niðurlægja mótherja þinn.
Það er bara í alla staði illa séð.
Hvað um það. Kevin McHale var spurður álits á þessum dansatriðum LeBron James og félaga og svar hans fékk okkur til að hoppa um af illgirni, gleði og fortíðarþrá.
"Ef einhver hefði verið að dansa svona hérna í gamla daga hefði þjálfarinn okkar (Boston) spurt okkur stóru mennina hver okkar væri með fæstar villur. Ef maður hefði rétt upp hönd hefði hann sent mann inn á völlinn til að mæta dansaranum næst þegar hann keyrði á körfuna og skella honum í gólfið. Svo myndi maður spyrja hann þegar hann lægi í gólfinu; "Ertu viss um að þig langi að halda áfram að dansa vinur?"
Þetta myndi líklega leysa þetta dansvandamál."
Þetta myndi líklega leysa þetta dansvandamál."
Já, krakkar mínir. Svona gerðu menn þetta hérna í gamla daga. McHale gerði sitt í því að taka glansinn úr Lakers-liðinu í einvígi Boston og Lakers í úrslitunum á níunda áratugnum. Hver man ekki eftir líkamsárás hans á Kurt Rambis, núverandi þjálfara Minnesota og fyrrum Lakers-manni (sjá mynd).
Nú erum við ekki að segja að ofbeldi sé göfug lausn allra vandamála, en staðreyndin er því miður sú að NBA deildin er orðin eins og átta ára stelpuafmæli á Arnarnesinu.
Menn mega ekki svo mikið sem gretta sig lengur - þá er þeim kastað í sturtu. McHale hefði fengið þriggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir tæklinguna á Rambis ef hún hefði gerst í úrslitakeppninni í vor.
Það er algjör synd hvað búið er að útrýma föstum leik - og sérstaklega David Stern og félagar virðast staðráðnir í að skafa alla tilfinningu og karlmennsku úr leiknum.
Og til að bæta gráu ofan á svart koma svo svona 120 kílóa þungar grenjuskjóður eins og Anderson Varejao sem eru kastandi sér í völlinn í tíma og ótíma til að fiska villur - og komast upp með það!