Friday, December 25, 2009

NBA Jól - Kobe gegn LeBron


Það eru alltaf skemmtilegir stórleikir á jóladag í NBA og jólin 2009 eru engin undantekning.

Aldrei þessu vant verður boðið upp á leik milli Kobe Bryant og Shaquille O´Neal á jóladag - að þessu sinni viðureign LA Lakers og Cleveland Cavaliers.

Leikurinn er auðvitað ekki lagður upp sem Kobe vs Shaq að þessu sinni. Sú var raunin einu sinni, en ekki í dag.

Djúsið fór úr einvígi þeirra félaga eftir að þeir A) sömdu frið og B) Shaq varð gamall maður.

Nei, í dag er þetta leikur tveggja stórliða og einvígi tveggja bestu körfuboltamanna í heimi.

Kobe Bryant og LeBron James.

Það er freistandi að skrifa 80.000 orða pistil um skoðanir okkar á rifrildinu eilífa um það hvor er betri LeBron James eða Kobe Bryant, en við ætlum ekki að fara út í það núna.



Höfum það bara svona: LeBron James er besti körfuboltamaður heims í dag, ekki Kobe Bryant.

Kobe er kaffi og koníak. LeBron er skot af viskí og bjór.
Kobe er Metallica. LeBron er Slayer.

Allt góðir hlutir. Bara spurning hvort þú vilt á hvaða tíma. Það getur vel verið að við rúllum út dýrari týpunni af pistli um þetta skemmtilega málefni í vetur, en við getum bara ekki búið til tíma til þess akkúrat í augnablikinu.

Sjáum til hvað okkur berast margir reiðipóstar eftir þessar yfirlýsingar. Ef hraunflæðið verður mikið, er aldrei að vita nema við flýtum því að skrifa þennan ógnarstóra pistil sem þarf að semja til að rökstyðja þessar fullyrðingar.

Þangað til, er um að gera að stilla á Stöð 2 Sport eftir jólasteik númer tvö í kvöld og fylgjast með þeim félögum setja á svið sýningu fyrir okkur. Góða skemmtun.