Wednesday, December 30, 2009

Darko er að setja saman náttborð frá IKEA


Darko Milicic er í fýlu. Segir að NBA deildin sé full af lygurum. 

Darko, sem nú þykist vera leikmaður New York Nix, gaf það út fyrir skömmu að hann væri búinn að gefast upp á að reyna að meika það í NBA.

Darko segir forráðamenn Pistons hafa lofað sér spilatíma þegar þeir í ofsafenginni vímu eftir ofneyslu á frostlegi og teppalími tóku hann númer tvö í nýliðavalinu fræga árið 2003 (og gáfu skít í Carmelo Anthony, Dwyane Wade, Chris Bosh og fleiri gaura sem voru í boði það árið). Við þessi loforð hafi þeir ekki staðið.

Nú viljum við ekki vera með leiðindi, en ef Joe Dumars og félagar voru nógu vitlausir til að nota réttinn til að velja Dwyane Wade á mann sem nýttist liðinu álíka vel og Hreinn Hringsson eða Ásdís Rán hefðu gert - eru þeir varla í aðstöðu til að lofa spilatíma.

Nei, við viljum heldur fá svar við þessum spurningum:

Hverjum datt það eiginlega í hug að Darko Milicic væri góður leikmaður?
Hver borgaði útsendurum Pistons laun fyrir að halda því fram að þessi maður gæti eitthvað!?!
Hvað er Joe Dumars búinn að hlusta á marga Darko brandara (og hve marga hefur hann lamið í kjölfarið)?
Hver sannfærði Darko um að hann myndi meika það í NBA ef hann aflitaði á sér hárið?

Það eina sem stendur upp úr á ferli Darko í NBA er skandalinn að hann skuli hafa verið valinn númer tvö í besta nýliðavali síðari ára, aflitaða hárið og svo geðveikiskastið sem hann tók í viðtalinu eftir landsleikinn forðum (þegar hann hótaði að eiga innileg samskipti við mæður dómara leiksins).