Wednesday, December 16, 2009

McGrady sást á körfuboltavelli


Þið eruð eflaust öll búin að fá ykkur fullsödd af fárviðrinu í kring um Tiger Woods í fjölmiðlum undanfarið. Við líka.

Hversu lengi er hægt að mjólka fréttir úr því að heimsþekkt íþróttastjarna hafi reynst hóra mannleg eftir allt saman (kannski dálítið mikið mannleg, en gildir einu)?

Hvað um það. Tiger getur nú alfarið hætt að örvænta. Hann hefur fengið stuðningsyfirlýsingu frá Ron Artest sem segist kannast við það að reka sig á í lífinu (ekki ýkja).

Hann hefur þá fengið stuðningsyfirlýsingu opinberlega frá bæði Charles Barkley og Ron Artest. Sannarlega tilhlökkunarefni að sjá hver stígur fram næst. Við tippum á O.J eða Tyson.

-----------------------------

Það var líka gaman að sjá að Tracy McGrady er kominn aftur á ferðina með Houston Rockets. Engu líkara en hann hafi verið að lesa NBA Ísland.

Okkur þykir í alvöru vænt um Tracy. Okkur þykir hann frábær og spennandi leikmaður og við vitum fyrir víst að hann er drengur góður, en ógæfa hans hefur veitt okkur ómældan innblástur sem illa gengur að halda inni. Sérstaklega eftir að við fórum að nota Photoshop.

Það var líka áhugavert að sjá að Houston vann leikinn í nótt. Kannski af því Tracy spilaði bara nokkrar mínútur. Á hann eftir að bæta spútniklið Rockets sem hefur staðið sig ekkert minna en stórkostlega eftir að þeir Yao og Tracy fluttu lögheimili sitt á sjúkrahúsið?

Ekki gott að segja, en ljóst er að þeir félagar verða að fara að pappíra sig ef þeir ætla ekki að verða nýjasta og ef til vill besta sönnunin á Ewing-kenningunni.