Wednesday, December 16, 2009

Hundraðníutíuogáttasentimetrar af Hayes


Við höfum áður sagt ykkur frá aðdáun okkar á Houston Rockets í vetur. Seigla liðsins hefur verið með ólíkindum þrátt fyrir endalaus meiðsli Yao Ming og Tracy McGrady.

Það er mikið af hetjum og vanmetnum leikmönnum í Rockets-liðinu. Einn þeirra er Chuck Hayes.

Hayes hefur átt fast sæti í byrjunarliði Houston í allan vetur og hefur spilað stöðu miðherja. Það er nokkuð áhugavert í ljósi þess að Hayes er ekki nema 198 cm á hæð.

Ekki beint þessi hávaxni turn eins og sjá má á myndinni hér til hliðar þar sem hann berst við Tim Duncan.

Strákarnir á Fanhouse fóru á stúfana og komust að þeirri niðurstöðu að líklega væri Hayes lágvaxnasti miðherji í sögu NBA. Að minnsta kosti ef miðað er við leikmenn sem hafa verið fastamenn í byrjunarliði til lengri tíma.

Það er gaman að sjá að maður sem er lægri en margir af miðherjunum í Iceland Express deildinni sé að halda sínu í baráttunni við tröllin í NBA deildinni.