Wednesday, December 16, 2009

Scal skal í brúnkumeðferð


Það er tilfinnanleg fréttagúrka í NBA þessa dagana og því gleðjumst við alltaf óstjórnlega þegar bloggararnir í Bandaríkjunum grafa upp skemmtilega mola handa okkur.

Þannig lásum við frétt um það í dag að útvarpsstöð nokkur í Boston ætlaði að bjóða Brian Scalabrine í brúnkumeðferð um stjörnuhelgina ef næðist að redda honum kvartmilljón atkvæða í byrjunarliðið.

Þetta er kannski til marks um hvað gengur vel hjá þeim í Boston núna. Liðið er á ellefu leikja sigurgöngu, sóknarleikurinn gengur ágætlega og þegar vörnin kemst í keppnisgírinn, verður ekki gaman að mæta heilum grænum í vor.

Og jú, það er einmitt Scalabrine sem er annar maðurinn á hinum dýnamíska jólaborða sem við settum efst á síðuna á dögunum.

Borðinn sýnir glöggt að jólastemmingin er að verða rosaleg hérna á ritstjórninni. Meira að segja japönsku pennarnir eru farnir að hengja upp músastiga og syngja lög með Siggu Beinteins. Þetta kom okkur Íslendingunum mikið á óvart, því það eina sem við vissum um japanska menningu - heyrðum við í lagatexta með HAM.

Í Tókýó eru engin jól
heimamenn í leikhúsunum hanga þó
skemmta sér við söng og dansasjóv


---------------------