Thursday, December 17, 2009

Það hljóta að vera skórnir


Dallas minnti aðeins á sig í sjónvarpsleiknum á NBA TV í nótt. Pakkaði spútnikliði Oklahoma nokkuð örugglega 100-86 í sveiflukenndum leik sem við sáum með öðru auganu.

Dirk Nowitzki kann þetta ennþá þó hann líti út fyrir að vera að fara á grímuball sem Björn Borg.

Kevin Durant er ekki beinlínis með góðar tímasetningar. Oklahoma liðið sýndi ekki á sér sparihliðarnar í sjónvarpsleikjunum tveimur í vikunni og Durant átti líklega sinn versta leik í vetur.

Svona er þetta þegar verið er að hylla mönnum um of á jafn víðlesnum og virtum miðli og NBA Ísland.



               "Það hljóta að vera skórnir" segir gamall frasi í Bandaríkjunum. Það átti prýðilega við í þessum leik. Þú getur ekki reimað á þig annan eins ófögnuð og Creamsicle Orange KD2 skóna frá Nike - sem Durant var að frumsýna - og ætlast til þess að vinna körfuboltaleik.

Durant er greinilega ekki alveg kominn með þetta. Hann þarf átakanlega að pappíra sig eftir frumsýningu sína fyrir Nike.

Það er ekki langt síðan við sáum LeBron James og Dwyane Wade taka skófrumsýningu í beinni á einum af stóru stöðvunum. Það var einn af skemmtilegri leikjum vetrarins til þessa - amk fyrri hálfleikurinn sem ætlaður var undir skóauglýsinguna.

Ó, og talandi um skóauglýsingar. Kobe Bryant hrærði í fasta liði eins og venjulega og  kláraði Milwaukee með flautukörfu eftir framlengdan leik. Menn voru nú reyndar ekki á eitt sáttir með dómgæsluna í þessum leik. Við erum eflaust ekki ein um að finnast skorta dálitla breidd í Lakers-liðið núna. Hvar er þessi margrómaði bekkur hjá Lakers? Vill hann gefa sig fram?

Við getum ekki tekið augun af tölfræðinni hjá Pau Gasol, sem hirti 22 fráköst. Hann hefur sem sagt hirt 20 eða fleiri fráköst í þremur af síðustu fjórum leikjum sínum! Og ekki veitir af.