Monday, December 14, 2009
Góð vika á skjánum
Það verður gaman hér á aðalskrifstofu NBA Ísland í nótt. Við erum nefnilega að hugsa um að búa til poppkorn og horfa á Denver-Oklahoma á NBA TV klukkan tvö.
Næstu þrír leikir á stöðinni eru reyndar mjög áhugaverðir og ef við fáum einhverju um það ráðið, munum við líklega horfa á þá alla.
Mán 14-Des Denver-Oklahoma 02:00
Þri 15-Des Phoenix-San Antonio 02:00
Mið 16-Des Oklahoma-Dallas 01:00
Þetta er hörkuprógramm. Gaman að sjá Kevin Durant og félaga hans í spútnikliði Oklahoma. Liðið er 12-10 en til samanburðar má geta þess að liðið vann sinn tólfta leik á síðustu leiktíð ekki fyrr en 6. febrúar. Greinilegur uppgangur þar á ferð.
Denver virðist vera búið að festa sig í sessi sem næstbesta liðið í Vesturdeildinni og það er ekkert grín að fara þangað í heimsókn. Carmelo Anthony er heitari en nokkru sinni. Búinn að skora 40 stig eða meira fjórum sinnum í vetur eftir að hafa gert það samtals tíu sinnum á fyrstu sex árum sínum í deildinni.
Þá er ekki leiðinlegt að horfa á viðureignir Phoenix og San Antonio sem segja má að hafi verið erkifjendur undanfarin ár. Phoenix er nú loksins að fá að spila aðeins á heimavelli eftir rosalega rispu á útivöllum, en San Antonio á hinn bóginn að hefja rispu á útivöllum.
Það hefur satt best að segja verið lítill glæsibragur á Spurs það sem af er vetri, þó ungu mennirnir séu að stimpla sig ágætlega inn í liðið. Menn eru alltaf að bíða eftir því að "Leðurblökumaðurinn" Manu Ginobili detti í sitt gamla form eftir langvarandi meðsli.
Þetta er svona eins og einhver pistlahöfundurinn vestra sagði á dögunum;
"Don't sleep on the Spurs, but stay disappointed until they start to heat up."