Sunday, December 13, 2009

LA Lakers spilaði á útivelli!


Það er margsannað að það er stutt á milli Óskars og Ófeigs í NBA deildinni.

Það eru ekki nema tveir dagar síðan Lakers var heitasta liðið í deildinni og allt í blússandi gír eftir alla þessa þægilegu heimasigra.

Þurfti ekki nema magakveisu, brákaðan fingur og eina heimsókn til Orkulausnahallar í Salt Lake City til að drulla yfir þá glansmynd.

Við vonum innilega að blessaður puttinn á Kobe verði ekki til frekari vandræða, því breiddin hjá liðinu er sorglega lítil þegar allt er talið.

Odom er flottur þegar hann er í sambandi og Shannon Brown er töffari. Aðrir frekar rólegir. Eins gott að Lakers haldi sínum mönnum heilum.

Talandi um að vera heill. Pau Gasol virkar þokkalega heill.

Ekkert að því að rífa niður 40 fráköst á sólarhring. Pau er stundum óttaleg kisa, en hann er alveg óskaplega góður körfuboltamaður.

Sögðum við fráköst? Getið hver var næstum búinn að toppa tölurnar hans Gasol á þessum sama sólarhring?

Já, rétt. Erick Dampier hjá Dallas. Hann var 14 af 16 samanlagt í skotum í sigurleikjum gegn Miami og Charlotte og hirti 17 og 18 fráköst í þessum leikjum. Alltaf svo hressandi þessa örfáu leiki sem Damp man eftir því að hann sé atvinnumaður í körfubolta.

Zach Randolph er reyndar líka búinn að vera í ruglinu í óvæntri rispu Memphis, en okkur sýnist hann ætla að leiðrétta það gegn Miami í kvöld.