Monday, December 14, 2009
StjörnuZach
Zach Randolph er líklega ekki vandaðasti einstaklingurinn í NBA deildinni. Hefur átt það til að lenda í vandræðum utan vallar og innan hans gerir hann lítið af því að spila vörn og gefa boltann á hina krakkana.
Hann er samt einn af fáum mönnum í deildinni sem geta gefið þér 20 stig og 10 fráköst í hverjum einasta leik. Randolph hefur spilað eins og engill í óvæntri rispu Memphis Grizzlies undanfarið og er að skila 18,6 stigum (49% nýtingu) og 10 fráköstum að meðaltali í leik.
Hann kemst hinsvegar ekki á blað yfir þá sem tilnefndir eru í stjörnulið Vesturdeildarinnar.
Nafni hans Anthony Randolph (11 stig, 6,6 frák) hjá Golden State kemst á blað. Líka Paul Millsap hjá Utah (10 stig, 5,7 frák). Sjúkrahúslimurinn Greg Oden er þarna líka og svo auðvitað rúsínan í afturendanum - Tracy McGrady - sem við munum ekki eftir spilandi körfubolta síðan fyrir daga internetsins.
Svona er margt skrítið í deildinni okkar fögru.