Wednesday, February 25, 2015

Derrick Rose er úr leik - og Chicago líka


Okkur er alveg sama hvað þú ert jákvæður einstaklingur. Þú veist að þetta er búið spil. Sem stuðningsmaður Chicago ertu ýmsu vanur, en sama hvað þú reynir að hræra upp í bjartsýninni með öllum þínum Pollýönnu-frösum, veistu að þetta er búið.

Við fengum að vita það í nótt að leikstjórnandinn og meiðslakálfurinn Derrick Rose hjá Chicago hefði meiðst enn eina ferðina og þyrfti í hnéuppskurð á sama hné og síðast. Óheppni Rose og Bulls er glæpsamleg, ekkert annað. Við fundum til með Rose í fyrstu sautján aðgerðunum sínum, en þetta er bara orðið asnalegt. Átakanlegt, sorglegt, ósanngjarnt en umfram allt asnalegt. Aumingja Rose hlýtur að hafa verið tannlæknir, böðull eða barnaníðingur í fyrra lífi.

Við erum búin að gæla við það í nokkrar vikur að skrifa Chicago út af sakramentinu en eitthvað hélt í okkur, einhver vonarglæta um að kannski færi þetta lið að spila eins og það á að geta best. Það gerðist hinsvegar aldrei og svo koma þessar skelfilegu fréttir inn á borð. Rose er úr leik, trúlega það sem eftir er tímabils og því er ekki annað fyrir okkur að gera en pakka saman, skella í lás og yfirgefa slotið.

Þessi nýjustu meiðsli hans eru ekki mjög alvarleg í sjálfu sér, en þegar menn eru búnir að fara í sjöhundruð aðgerðir á stuttum tíma og heita Derrick Rose, horfir málið allt öðru vísi við.

Það er ljótt að segja svona, því okkur þykir vænt um Rose, en hann er búinn. Hann á eftir að spila körfubolta áfram, en hann á aldrei eftir að verða nema skugginn af sjálfum sér, þeim gríðarlega öfluga bakverði sem kjörinn var leikmaður ársins í NBA deildinni 2011. 

Gott ef það var ekki Penny Hardaway, sem sjálfur veit allt um meiðsli sem eyðileggja feril körfuboltamanns, sem hélt því fram að Rose væri ekki að spila á mikið meira en 70% afköstum miðað við áður. Og þó Rose á 70% krafti sé sterkur leikmaður, er hann ekki leikmaður sem gerir lið að meistara.

Vandamál Chicago Bulls voru mörg og skemmtileg í gær, en tíðindi næturinnar þýða einfaldlega að partýið er búið. Við erum búin að bíða í fjögur ár eftir að þetta Bulls lið fari á toppinn í Austurdeildinni og geri atlögu að meistaratitlinum, en nú bíðum við ekki lengur. Það er tilgangslaust. Dæmið er búið.

Chicago er því miður enn háð því að það fer ekki lengra en Derrick Rose dregur það. Hann var kannski búinn að fá hjálp í vetur í formi Pau Gasol og Öskubuskunnar Jimmy Butler, en Rose verður að draga vagninn. Og Rose er ekki í neinu standi til að draga þennan vagn. Hann var það ekki í gær og verður það svo sannarlega ekki í framtíðinni. Vandamál Bulls í vetur eru ekki öll honum að kenna, en það skiptir engu máli núna.

Þetta er búið. Meistaravonir Chicago Bulls sem hafa verið heitar undanfarin ár og kjarnast í kring um Rose, Joakim Noah og Tom Thibodeau. Þær eru nú algjörlega úr sögunni. Nískir, þverir og hrokafullir dólgarnir á skrifstofunni eiga kannski eftir að sýna einhverja viðleitni til að styrkja liðið í framtíðinni en þið vitið jafnvel og við að það verður ekkert úr því.

Þegar Derrick Rose kemur til baka úr þessum nýjustu meiðslum, verða Joakim Noah og Mike Dunleavy búnir að bæta einu ári í viðbót á þreytta og símeidda skankana á sér, svo hjálpar er ekki að vænta úr þeirri áttinni. Eina smáglætan sem blasir við Chicago er að liðið landi stórlaxi með lausa samninga á borð við Kevin Durant þegar að því kemur. Það verður að teljast ótrúlegt.

Þetta eru ósanngjörn skrif og vægðarlausar spár til handa Chicago-liðinu þínu, við gerum okkur grein fyrir því, en því miður á þetta eftir að standa eins og stafur á bók. Það var gaman að þekkja þig, Chicago. Bæ, bæ.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------

Eftirskrift:

Enn og aftur er LeBron James að fá smá aðstoð frá körfubolta- og meiðslaguðunum þegar kemur að því að hefla veg hans í gegn um úrslitakeppnina. Aftur eru þeir að taka Bulls-lið með pótensjal og vippa því úr leik með því að klippa Rose niður. 

Nú vantar ekki annað en stóru meiðslin hans Al Horford og það er stutt í þau. Þá getur Cleveland dúllað sér þægilega í gegn um Djókdeildina sína og komið hvílt og ferskt í lokaúrslitaeinvígið í júní. Þvílík sæla.