Wednesday, February 25, 2015

LeBron James klífur tölfræðilistana


Clyde Drexler, Kobe Bryant, Larry Bird, Michael Jordan, Allen Iverson, Dwyane Wade, Clyde Frazier, Tracy McGrady, Rick Bary, Gary Payton, Jerry West, Pete Maravich, Penny Hardaway, Paul Westphal og nú Scottie Pippen...

Þessir gæðaleikmenn eiga fleira sameiginlegt en að vera goðsagnir í sögu NBA deildarinnar, því þeir hafa allir gefið færri stoðsendingar en LeBron James á ferlinum. James varð í nótt stoðsendingahæsti framherji í sögu NBA deildarinnar þegar hann hoppaði yfir Scottie Pippen á listanum. Pippen hirti sætið af John Havlicek hjá Boston skömmu eftir aldamótin.

Fæstir leikmannanna sem við töldum upp hér að ofan eru leikstjórnendur - mennirnir sem alla jafna eru efstir í stoðsendingum hjá liðum sínum - en þeir eru nokkrir af sterkustu leikmönnum allra tíma. Okkur datt því í hug að telja nokkra þeirra upp til að gefa ykkur mynd af því hvert stefnir hjá LeBron James.

Það sem er áhugaverðast við þennan áfanga hjá fyrirbærinu James er hvað hann er ungur þegar hann nær honum. Drengurinn er nýorðinn þrítugur og það tók hann innan við 900 leiki að taka fram úr Pippen á stoðsendingalistanum. Pippen gaf sínar 6135 stoðsendingar í 1178 leikjum, en James þurfti "ekki nema" 890 leiki til að taka fram úr honum.

Ástæðan fyrir því að James er búinn að ná þessum áfanga er náttúrulega sú að þó hann sé í grunninn skráður (minni) framherji og skili því fullkomlega, hefur hann oftar en ekki spilað meira eins og bakvörður og handleikur boltann miklu meira en kollegar hans í framherjastöðunum.

James, alveg eins og Pippen, hefur verið uppnefndur "framstjórnandi" eða "leikherji" (point forward) til að undirstrika fjölhæfni hans á vellinum.

Það er nánast sama hvert er litið þegar kemur að LeBron James. Alls staðar eru met í sjónmáli. Sem stendur er hann staddur í 24.000+ stigum, 6000+ fráköstum og 6000+ stoðsendingum, sem eru tölur sem sjást ekki á hverjum degi - hvað þá frá þrítugum manni sem gæti með smá heppni átt eftir að spila mörg ár í viðbót í deildinni.

James er þegar kominn í 22. sæti stigalistans og verður einhvers staðar í kring um 25. sætið á stoðsendingalistanum þegar vorar hjá okkur, það er að segja ef kemur eitthvað vor.

Enn og aftur, krakkar, langar okkur að gefa ykkur heilræði. Reynið umfram allt að taka leikmanni eins og James ekki sem sjálfssögðum hlut og reynið að njóta hvers augnabliks. Við erum að fylgjast með leikmanni sem kemur til með að fá að setjast við háborðið í Heiðurshöllinni þegar að því kemur. Borðinu sem er frátekið fyrir MJ, Larry, Magic, Kareem, Wilt, Oscar og Russell.