Saturday, February 28, 2015
Af Cleveland og MVP-umræðunni
Sum okkar sáu Cleveland halda áfram sigurgöngu sinni í gærkvöld með því að skella toppliði deildarinnar, Golden State Warriors. Enginn sem tók þátt í leiknum tók undir það að sigurvegari leiksins myndi senda mótherjanum og restinni af deildinni skilaboð með því að vinna, en svona sigur skiptir máli fyrir sálartetrið - ekki síst hjá Cleveland.
Það var gaman að sjá þessi lið stangast á og það var greinilegt frá fyrstu mínútu að bæði lið tóku leikinn alvarlega og léku fast. Enginn lék fastar en LeBron James og ef við ættum að lýsa leiknum í sem fæstum orðum, myndum við líklega segja að James hafi bara klárað hann fyrir Cleveland.
Cleveland-liðið byggir sóknarleik sinni miklu meira upp á einstaklingsframtaki en Golden State og það er á margan hátt eðlilegt.
Annars vegar þekkjast leikmenn Cavaliers ekki mjög vel (hvað þá menn eins og JR Smith, Timofey Mozgov og Iman Shumpert) og hinsvegar er auðvitað freistandi að treysta á einstaklingsframtak þegar þú ert með leikmenn eins og LeBron James og Kyrie Irving, sem geta skorað á hvern sem er, hvar og hvenær sem er.
Það er þó óneitanlega fallegra að horfa á Golden State spila, því þar á bæ eru leikmenn ekki bara miklu óeigingjarnari, heldur eru þeir flestir búnir að spila það lengi saman að þeir eru orðnir nokkuð rútíneraðir í sóknarleiknum, jafnvel þeir séu með nýjan þjálfara alveg eins og Cleveland.
Þið munið eflaust að við skrifuðum Cleveland út af sakramentinu í kring um það þegar Anderson Varejao meiddist og liðið gat nákvæmlega ekki neitt. Þetta er ekki það lið.
Þetta er allt, allt annað lið og miklu betra. Og þetta lið er að öllum líkindum að fara að vinna Austurdeildina í vor. Við sjáum amk ekki hvaða lið ætti að stöðva það, amk ef LeBron James spilar af þessum krafti.
MVP-umræðan er búin að vera nokkuð hressandi í vetur, líklega helst af því nú hafa ný nöfn verið í umræðunni á þeim bænum. Tveir menn hafa verið í sérflokki í allan vetur hvað þetta varðar, þeir Stephen Curry hjá Golden State og James Harden hjá Houston.
Það er alveg sama hvað við verðum gömul og reynd, alltaf látum við þessa MVP-umræðu í fjölmiðlum fara í taugarnar á okkur. Það er helst vegna þess hve margir menn sem skrifa um NBA deildina í Bandaríkjunum virðast vera undir meðalgreind.
Við áttum okkur ekki á því hvaða stöðlum er farið eftir þegar velja á verðmætasta leikmann NBA deildarinnar á vorin, en það hlýtur hvern mannsbarn (nema margir NBA-pennarnir í Bandaríkjunum) að sjá hvernig staðið hefur verið að valinu undanfarin ár og áratugi.
Fjölmiðlamenn í Bandaríkjunum eru alveg handvissir um það ár eftir ár að leikmaður hjá liði sem vinnur 40 leiki sé "ofarlega á lista" eða "í umræðunni" þegar kemur að valinu, en þetta er algjör þvættingur.
Leikmennirnir sem hlotið hafa nafnbótina MVP síðustu (mörg) ár hafa undantekningalaust verið bestu leikmennirnir í besta eða næstbesta liði vetrarins - og þá alltaf liði sem er að vinna fast að, eða yfir 60 leiki.
Þannig að, NEI, það er fjandans sama hve vel menn eins og LeBron James og Russell Westbrook eru að spila þessar vikurnar og liðin þeirra að vinna marga leiki, þeir verða ekki fyrir valinu ef TÍU lið í deildinni eru með betri árangur en Oklahoma og Cleveland og hvað þá ef umræddir leikmenn eru búnir að missa úr einhvern helling af leikjum. Ekki vera svona heimskir!
Nei, Curry og Harden eru og hafa í allan vetur verið mennirnir sem eru að berjast um þetta og þannig verður það eflaust til vors. Atlanta fær ekki fulltrúa í þessa umræðu þó það vinni alla leiki sem það á eftir og heldur ekki Memphis - maður með 18 stig og 8 fráköst (Gasol) verður ekki kjörinn MVP, alveg sama hvað hann er góður varnarmaður og í alla staði huggulegur. Lillard og Aldridge taka svo frá hver öðrum hjá Portland og Clippers-liðið vinnur ekki nógu marga leiki til að geta átt fulltrúa í þessu.
En hvort á þá að velja Curry eða Harden?
ÞAÐ er hinsvegar ekki auðveld spurning. Curry hefur verið nefinu á undan í umræðunni lengst af í vetur einfaldlega af því liðið hans er búið að vera í efsta sæti deildarinnar nær undantekningarlaust í allan vetur. Það þýðir þó sannarlega ekki að hann sé líklegur bara út á það eitt.
Curry er með meðaltöl upp á 22 stig, 8 stoðsendingar, 5 fráköst og 2 stolna bolta, sem er sannarlega ekkert slor. Þetta eru ekki tölur sem hann hefur ekki boðið upp á áður, en liðið hans hefur heldur ekki verið að stunda það að vera með 80% vinningshlutfall. Lygileg skottölfræði Curry (48% í skotum, 40% í þristum og 90% í vítum) en svo ekki til að skemma þetta.
Pennar sem hallir hafa verið undir Curry eins og Ethan Sherwood Strauss hjá ESPN-veldinu hafa verið duglegir að tala máli Curry í MVP-umræðunni í allan vetur.
Strauss benti m.a. á það í pistli fyrir um það bil mánuði að tölfræðin fyrir lengra komna væri í flestum tilvikum betri hjá Curry en hjá Harden, en við nánari skoðun í dag, komumst við reyndar að því að Harden er búinn að taka fram úr Curry á flestum þessum sviðum.
Og þá komum við að því af hverju Harden á þetta skilið. Hann er ekki sama skyttan og Curry, enda eru það fæstir mennskir menn, en Skeggið er samt að gera alla varnarmenn deildarinnar gráhærða með klókindum sínum í sóknarleiknum. Harden er að bjóða upp á 26/6/7/2 - og það sem meira er - er hann gjörsamlega búinn að draga liðið sitt áfram á hárinu í allan vetur.
Það eru nefnilega ekki tölurnar sem eru áhrifaríkastar í máli Harden, heldur sú staðreynd að þökk sé Harden, hefur Houston einhvern veginn í fjandanum náð að halda sér í þriðja sæti í Vesturdeildinni fram í mars og það þrátt fyrir að næstbesti maður liðsins sé búinn að missa af helmingi leikja þess í vetur. Við vitum að það er ekki vinsælt að gefa mönnum stig í MVP-rallinu af því að þennan og hinn vantar í liðið þeirra, en þú verður að viðurkenna að þetta er helvíti vel gert hjá Harden. Alveg sérstakt, raunar.
Ef farið verður eftir MVP-bókinni sem notuð hefur verið í fræðunum til þessa, myndum við tippa á að Curry yrði fyrir valinu ef það færi fram í dag. Ef svo væri ætti hann það fyllilega skilið, því við megum heldur ekki gleyma því að eins sterkt og Warriors-liðið er, er það bókstaflega miðlungslið án Stephen Curry. Það er tölfræðilega sannað.
Ef við gefum hinsvegar skít í hefðina og skoðum einfaldlega hver hefur verið liði sínu (sem er í toppbaráttu) mikilvægastur í vetur, er ekki hægt annað en að velja Harden. Það er staðreynd að mjög margir þola hann ekki og það er alveg skiljanlegt - maðurinn getur verið gjörsamlega óþolandi.
Það sem er hinsvegear mest óþolandi við hann er að liðið þitt tapar alltaf fyrir honum þó meðspilarar hans séu samansafn af Corey Brewer-um, Josh Smith-um og einhverjum gamalmennum og D-deildarsveppum sem enginn hefur nokkru sinni heyrt minnst á.
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
James Harden
,
LeBron James
,
MVP
,
Stephen Curry
,
Warriors