Við höfum ekki verið sökuð um sérstaka Þórðargleði yfir óförum New York Knicks undanfarin ár, sem er undarlegt í ljósi þess að við fáum mjög mikið út úr því að vera með leiðindi út í það ágæta félag á þessu vefsvæði. Þið vitið svo sem að þessi leiðindi rista ekki djúpt og eiga rætur að rekja til skrifstofu félagsins og fjölmiðla í New York fremur en leikmanna liðsins og enn síður stuðningnsmannanna.
Segja má að New York standi á tímamótum í dag. Carmelo Anthony fer líklega í hnéuppskurð og kemur ekki meira við sögu í vetur og í dag kunngerðu Knicks að þeir hefðu leyst framherjann Amare Stoudemire undan samningi. Því má segja að ákveðnu tímaskeiði sé að ljúka hjá Knicks. Tímaskeiði sem við skulum kalla Amare-Melo tilraunina.
Við kölluðum ekki til fjölmiðlafundar þegar Stoudemire gekk í raðir Knicks frá Phoenix sumarið 2010. Umfjöllun okkar um það var þvert á móti frekar fátækleg. New York þurfti að landa stjörnu til að selja miða og úr því það náði ekki í LeBron James (sem aldrei kom til greina hvort sem er), ákvað það að henda hundrað kúlum í manninn sem kallaði sig bæði Svarta Jesú og S.T.A.T. (Standing Tall And Talented).
Það er auðvelt að vera vitur eftir á, en auðvitað hefðum við átt að skjóta þessi viðskipti Knicks alla leið til andskotans og fordæma þau strax frá upphafi, því þau meikuðu ekki sens í eina mínútu.
Það tók okkur rúman mánuð að tjá okkur eitthvað um þetta nýja Knicks-lið og við höfum verið neikvæð og leiðinleg út í þetta lið nánast óslitið síðan.
Og það eru ástæður fyrir þessari neikvæðni. Hvað hefur New York afrekað síðan það ákvað að kasta sitt hvorum 100 milljónunum í þá Stoudemire og Anthony? Jú, 151 sigri og 160 töpum samkvæmt New York Daily News (ekki halda að við nennum að telja það saman).
Það sem skyggir enn frekar á þessa undarlegu viðskiptahætti Knicks er að þegar þeir Amare og ´Melo hafa spilað saman með liðinu (Amare er náttúrulega búinn að missa mjög mikið úr vegna meiðsla), er það meira að segja lélegra.
New York er aðeins 74-110 þegar tvímenningarnir eru báðir með og það sem verra er, er það aðeins 2-10 í úrslitakeppninni undir sömu kringumstæðum.
Á meðan annað lið sem ætlaði sér stóra hluti með því að púsla saman stórstjörnum, Miami Heat, fór í lokaúrslitin fjögur ár í röð með hjálp stjarnanna sinna, var New York 36 leikjum undir 50% vinningshlutfalli með þeim Melo og Amare - 44 leikjum ef úrslitakeppnin er meðtalin.
Denver hefur svo sem ekki verið að sigra heiminn með mannskapnum sem það fékk í staðinn eftir að Melo fór í fýlu og heimtaði að fá að fara til New York. Það kaldhæðna við það allt saman er frekar að megnið af þessum mönnum stefnir núna óðfluga á að gera einhverja hluti í Austurdeildinni með Cleveland en ekki New York.
Stóra spurningin í þessu samhengi er að sjálfssögðu þessi: hvern fjandann var New York að hugsa þegar það hélt að það ætti eftir að ná árangri með Stoudemire og Anthony sem kjarnamenn?
Með fullri virðingu fyrir báðum leikmönnum - og þeir eru báðir ljómandi sóknarmenn - ætti það að vera öllum ljóst sem á annað borð hafa eitthvað vit á körfubolta að þetta dæmi yrði ekki til stórræða.
Forráðamenn Knicks ætluðu auðvitað að reyna að púsla góðum mannskap í kring um 200 milljóna mennina sína og það sýndi á köflum ágæta viðleitni í þá átt með mönnum eins og Tyson Chandler. Gallinn var bara að ekki einu sinni gæðavarnarmaður eins og Chandler gat stoppað upp í götin sem myndast í liðinu eftir hina tvo.
Amare Stoudemire er og var þekktur fyrir að vera afar slakur varnarmaður, sem er mesta synd fyrir svona eintak af íþróttamanni. Hann var ekki bara lélegur frákastari og lélegur varnarmaður, heldur skorti hann á tíðum bæði vilja og vitsmuni til að sinna varnarleiknum - staðreyndir sem blaðamenn í New York eru búnir að skalla steinveggi yfir í fjögur ár.
En það eru ekki bara vankantar Stoudemire sem leikmanns sem haldið hafa aftur af honum á árunum hjá Knicks, hann hefur líka verið óheppinn með meiðsli. Það sorglega við það er að forráðamenn Knicks vissu ósköp vel að hnén á honum væru búinn að vera í stöppu af og til allan ferilinn. Þeim var alveg sama.
Nei, Amare Stoudemire var kannski engin Tim Duncan, en Jesús, María og Jósef var hann öflugur sóknarmaður og skemmtikraftur þegar hann var upp á sitt besta í tvímenningnum með Steve Nash hjá Phoenix. Kíktu á þetta ef þú ert búin(n) að gleyma því (og taktu hlóðið af í leiðinni nema þú sért pervert sem finnst gaman að heyra körfuboltatilþrifum lýst á frönsku).
Það hefur sjálfsagt verið þetta sem fékk forráðamenn Knicks til að gera við hann samning. Svona tilburðir eins og þessir hérna fyrir ofan eru ekki algengir. Stoudemire var slúttarinn í öflugustu fjórir-einn vegg og veltu heims fyrir utan Stockton og Malone. Öflugustu allra tíma segja sumir (en þeir hefðu rangt fyrir sér, þó við skiljum hvað þeir eru að fara).
Annað atriði sem hefur með þessa pælingu að gera er svo sú staðreynd að Anthony hefur aldrei verið tilbúinn að koma sér í form nema til þess að spila sóknarleik.
Það er eitt að vera í formi í NBA deildinni og annað að vera í formi. Til hvers að vera að pína sig í einhverja aukavinnu ef maður er með 100 milljón dollara samning, skorar 30 stig í leik, spilar í Mekka körfuboltans og er kallaður stórstjarna - stjörnuleikmaður?
Þetta gæti verið spurning sem Anthony hefur spurt sig oftar en einu sinni.
Við ætlum ekki að hengja alla ógæfu New York á einn eða tvo menn. Sjaldan veldur einn þá tveir deila og þar fram eftir götunum. Það er ekki bara Anthony og Stoudemire að kenna að New York hefur ekki getað blautan (hægðir, úrgangur, þf) síðan þeir gengu í raðir liðsins. Það eru ekki bara þeir sem eru ekki starfi sínu vaxnir.
Það er til dæmis alltaf að koma betur og betur fram að eigandi New York Knicks er að öllum líkindum langt undir meðalgreind.
Og ekki hefur starfsaflið á skrifstofu félagsins verið beinlínis starfsmenn mánaðarins, heldur samansafn manna og kvenna sem reynt hafa að leysa vandamál Knicks með skammsýni og skómigu.
Og eins og við höfum líklega skrifað svona átján sinnum á þetta vefsvæði, finnum við óskaplega til með stuðningsmönnum New York Knicks hér á landi og erlendis, því þeir eiga ekki skilið svona vitleysisgang.
Reyndar eiga engir stuðningsmenn skilið að fá slíka meðferð, nema ef til vill stuðningsmenn Liverpool sem beittu fólk í kring um sig andlegu ofbeldi síðast þegar helvítis klúbburinn þeirra gat eitthvað, sem var fyrir rúmum aldarfjórðungi síðan. En það er nú önnur saga í annari bók.
Stuðningsmenn Knicks halda um þessar mundir dauðahaldi í þann veika vonarþráð sem ráðning Phil Jackson spann á sínum tíma. Það hefur verið ljóst lengi að New York gæti í besta falli orðið miðlungslið með þann kjarnamannskap sem það hefur haft yfir að ráða síðustu misseri. Og þá meinum við í allra, allra besta falli - svona eins og þegar liðið slysaðist til að vinna nokkra leiki árið 2013.
Jackson er nógu klókur og kjarkaður til að gera sér fulla grein fyrir þessu. Hann hefur reyndar haldið því fram að Carmelo Anthony hafi alla burði til að verða lykilmaður í einhverju sem í framtíðinni gæti orðið gott lið hjá Knicks. En hvað á hann að segja annað, ef þú spáir í því? Haldið þið að hann segi strax og hann tekur við stöðu sinni hjá félaginu, að "Carmelo Anthony sé augljóslega leikmaður sem hafi ekki nægan metnað og siðferðistrefjar til að fara fyrir meistaraliði í NBA deildinni?" Auðvitað getur hann ekki sagt það, jafnvel þó hann sé kannski að hugsa það.
Nei, það var ljóst strax í byrjun að Jackson dugði ekki skófla og kústur til að hreinsa Knicks-flórinn. Það var ekki annað en að keyra þarna inn á gröfu og hefjast handa við að moka út með vinnuvélum og það að láta Stoudemire fara og parkera Anthony til vors er þáttur í þessu starfi.
Þó margir af stuðningsmönnum Knicks kunni ekki aura sinna tal, er hætt við að Baddi bakari og Siggi sjóari gretti sig ef ætlast er til þess að þeir borgi sexhundruð dollara fyrir léleg sæti til að horfa á Cole Aldrich hlunkast um á gólfinu í Garðinum.
Jackson hefur kjark til að gera það sem enginn hefur þurft eða þorað að gera hjá Knicks, en það er að ráðast í allsherjar hreingerningu. Það er mjög sár aðgerð fyrir stuðningsmenn liðsins og útheimtir talsvert meiri þolinmæði en þeir eru tilbúnir að veita.
En ef þú pælir í því, er Knicks-liðið hvað eftir annað búið að vera lélegra en lið sem eru að tanka þegar það er að reyna að komast í úrslitakeppnina. Þú þarft eiginlega að búa yfir sérstökum hæfileikum til að ná ekki árangri með jafn einbeittum og áhrifaríkum hætti og þetta lið hefur gert undanfarin ár ef 2013 er undanskilið.
Það versta við þessa skítlegu stöðu hjá Knicks var og hefur alltaf verið að það hefur ekki átt nein ása uppi í erminni til að spila með til framtíðar eins og flest lið í deildinni hafa tamið sér.
Á meðan það hefur verið í tísku undanfarin ár að safna plássi undir launaþökum og valréttum í úrslitakeppnum, hefur New York veðsett sig upp í topp, til helvítis og til baka til allrar framtíðar alveg eins og frændur þeirra í Nets hinumegin við fljótið.
Þetta þýðir að það eina sem hægt er að gera til að styrkja liðið er að eyða peningum í fleiri leikmenn, en það er á sama hátt erfitt eða ómögulegt ef hópurinn er fullur af hæfileikalausum og ónothæfum sauðnautum á glórulausum samningum. Andrea
Já, það er ekkert grín að halda með New York Knicks og það verður ekkert grín að taka til í þessum drulluhaug, því ofan á allt vitum við ekki einu sinni hvort Phil Jackson er treystandi til þess! Það er ekki eins og hann hafi einhverja rosalega reynslu af skrifstofuvinnu.
Enn og aftur er ekki annað fyrir okkur að gera annað en óska stuðningsmönnum Knicks velfarnaðar á hinni nýju leið og vona að hún reynist gæfuríkari en ruglið sem á undan kom.
Guð veri með ykkur.