Saturday, March 26, 2011
Vonbrigði
Við þurfum að gefa New York Knicks meiri tíma áður en við förum að skammast yfir gengi liðsins.
Það er samt allt of mikið fyrir svona lið að tapa fimm leikjum í röð og átta af níu þegar það á að heita í keppni um að fá gott sæti í úrslitakeppni.
Við vorum ekki sérstaklega hrifin af því fyrir hönd Knicks að kaupa Carmelo Anthony svo dýru verði. Höfðum áhyggjur af því að hann og Stoudemire ættu eftir að eiga erfitt með að spila saman og að taka hvor frá öðrum. Og það eru þeir að gera núna.
Sóknarleikur Knicks er ósköp vandræðalegur. Bættu við það slökum varnarleik og þá ertu kominn með það sem við erum að sjá frá Knicks núna.
Þeir þurfa meiri tíma, já já, en glansinn er klárlega farinn af skiptunum og farið er að heyrast baul. Skítt fyrir stuðningsmenn New York, sem eru ótrúlegir. Frábær stemmari í MSG í kvöld og mikil orka. Orka sem með öllu hefði átt að tryggja Knicks sigur á slöku liði Milwaukee. Svo var ekki.
Það er eitthvað off hjá þeim.
Líka hjá Milwaukee. Þetta lið lofaði nokkuð góðu í fyrravor og bætti við sig mannskap í sumar. Þetta lið á alls ekki að vera fyrir utan úrslitakeppnina í Austurdeildinni. Það eru gríðarleg vonbrigði.
Meiðsli eða ekki, við óttumst að Skiles sé búinn að gera það sem hann getur með þetta lið. Hann byrjar jafnan vel og nær oft góðum hlutum út úr yngri leikmönnum sem þora ekki annað en vaða eld og brennistein fyrir hann. Skiles er yfirþyrmandi þjálfari, það eru mikil læti í honum og við höfum á tilfinningunni að leikmenn séu hættir að leggja sig fram fyrir hann. Við metum Skiles, en svona hefur þetta verið.
Það er alveg sama hvernig því er snúið, ef Milwaukee kemst ekki í úrslitakeppnina eins og útlit er fyrir, er liðið klárlega ein af vonbrigðum vetrarins.