Saturday, February 14, 2015
Við munum þig, Mason
Góðvinur ritstjórnarinnar Anthony Mason berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi eftir að hafa fengið alvarlegt hjartaáfall ofan á önnur veikindi sem þegar voru að hrjá hann.
Dapurlegt þegar svona ungir menn missa heilsuna og þó nýjustu fréttir bendi til þess að ástand hans hafi skánað eitthvað lítillega, er hann enn í lífshættu.
Þið eruð kannski búin að gleyma því hvað Anthony Mason var skemmtilegur leikmaður á sínum tíma, en við erum svo sannarlega ekki búin að gleyma því.
Og þá erum við ekki bara að tala um þegar hann myndaði eina físískustu framlínu körfuboltasögunnar með þeim Patrick Ewing, Charles Oakley og Charles Smith í New York.
Nei, við munum líka eftir því þegar hann gekk í raðir Charlotte, þar sem hann fór sérstaklega hamförum leiktíðina 1996-97.
Þá spilaði hann með drullu-skemmtilegu Hornets-liði sem hafði á að skipa mönnum eins og Glen Rice, Vlade Divac, Dell Curry (pabba Stephen Curry), Muggsy litla Bogues að ógleymdum fagmönnum eins og Ricky Pierce og Matt Geiger. Þetta lið vann 54 leiki um veturinn, en lét reyndar New York sópa sér út 3-0 í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Anthony Mason var byggður eins og jarðýta, en það skondna við það var að hann var með ágætis boltameðferð og átti það til að koma upp með boltann og stýra spili Hornets.
Þarna var hann líka með sína flottustu tölfræði á ferlinum - skoraði 16,2 stig, hirti 11,4 fráköst, gaf 5,7 stoðsendingar, stal einum bolta og skaut 52,5% utan af velli, sem er ekkert slor.
Kappinn bauð upp á einar fjórar þrennur um veturinn og setti í nokkrar hrikalegar tölfræðilínur inn á milli.
Dæmi má nefna fjóra leiki sem hann tók í röð janúar árið 1997 þar sem hann hrærði í 19/12/7, 20/17/8, 20/17/7 og 14/11/9 á einni viku í síðari hluta mánaðarins.
Í mánuðinum á eftir bauð hann upp á svipuð læti, þar sem sjá mátti leiki upp á 15/22/10, 21/18/8, 28/12/9, 19/13/12, 19/14/12 og svona var þetta leik eftir leik hjá vini okkar, skoðaðu bara logginn hans frá árinu 1997. Það eru ansi feitar línur þarna inn á milli.
Mason var fjall að burðum, en í rauninni of lágvaxinn til að vera fjarki en of hrikalegur til að vera þristur. Ef við ættum að finna hliðstæðu Mason í deildinni í dag myndum við kannski helst benda á Draymond Green hjá Golden State.
Green er fljótari á löppunum og betri varnarmaður en Mason, en sá síðarnefndi var með miklu betri leik á póstinum og svona 89 sinnum sterkari. Það er þó eins með Mason og Green, ef menn hafa hæfileika, passa þeir inn í hvaða lið sem er.
Það var tíska hjá sumum að raka eitt og annað í hárið á sér þarna á tíunda áratugnum og Mason var fremstur í flokki í NBA deildinni í þeirri list, þar sem hann skaut meira að segja Dennis Rodman ref fyrir rass.
Við teljum ólíklegt að Mason sitji núna í sjúkrarúminu sínu (ef hann er þá með meðvitund) og hugsi um hvað það sé nú merkilegt og skemmtilegt að það sé fólk á Íslandi að hugsa fallega til hans í veikindunum og rifja upp afreksverk hans á körfuboltavellinum.
En svona er nú heimurinn lítill og lífið almennt undarlegt.
Láttu þér batna, Mase. Við hugsum hlýlega til þín.
Efnisflokkar:
Anthony Mason
,
Fret úr fortíðinni
,
Goðsagnir
,
Hornets
,
Hrikalegheit
,
Klassík
,
Tölfræði
,
Þrennur