Thursday, February 12, 2015

Stjörnuleiksvörutalning í vestrinu


Stjörnuleikurinn er um helgina og því eru erfiðir tímar fram undan hjá okkur sem getum ekki verið án NBA körfuboltans - heil vika án þess að spilað sé í deildakeppninni. Adam Silver og félagar í forsvari deildarinnar virðast staðráðnir í að hlusta á allt vælið um of mikið álag á leikmenn í deildinni og þetta lengda frí í kring um Stjörnuleikshelgina er hlutur af viðleitni deildarinnar í þá átt.

Það eru tvær hliðar á þessu hvíldar-máli. Líklega er ætlunin með þessu að við áhorfendur fáum á endanum meira fyrir peninginn okkar þegar við sjáum stjörnurnar okkar hafa meira úthald og spila betri körfubolta. Gömlu hundarnir sem máttu sætta sig við að ferðast á almennu farrými um allar jarðir til að spila hér áður, vorkenna leikmönnum dagsins í dag ekki mikið með allan sinn lúxus, en hvað okkur varðar, gæti aukin hvíld vonandi orðið til að stemma stigu við hlut sem er orðinn að vandamáli í NBA í dag - meiðslunum.

Og þessi bölvuðu meiðsli eru fyrirtaks brú yfir í efni þessa pistils. Við ætlum að taka vörutalningu í Vesturdeildinni og hjálpa ykkur að ná áttum þar, nú þegar menn eru að flykkjast á Benidorm til að hvíla sig fyrir lokasprettinn í deildinni. Þeir sem ekki eru á leið til New York að spila í Stjörnuleiknum, það er að segja.

Við erum örugglega búin að tyggja það ofan í ykkur í hverjum einasta pistli um Vesturdeildina í vetur og komum til með að halda því áfram - þessi Vesturdeild er bara ekki hægt. Hún er svo sterk, að það er ekki spilandi í henni og því má í raun segja að liðin sem standa utan við átökin í vestrinu - Minnesota, Lakers, Utah, Denver og Sacramento, séu á sinn hátt heppin að vera að byggja upp á nýtt um þessar mundir, því þú þarft bókstaflega að vera með ofurlið til að ætla að komast upp úr annari umferð í úrslitakeppninni í vor.

Núna á allra síðustu dögum, hefur hinsvegar komið smá sprunga í brynju þessarar ógnarsterku Vesturdeildar og hér á eftir ætlum við að rýna í þessar sprungur og skoða hvaða áhrif þær gætu haft í framhaldinu. Sprungurnar sem við erum að tala um, eru auðvitað helvítis meiðslin, en við hefðum mátt segja okkur að þau ættu eftir að ráða miklu um framgang mála alveg eins og þau hafa gert í deildinni undanfarin misseri. Gjörsamlega óþolandi þróun og svo örlagarík að réttast væri að gera eitthvað róttækt í málinu.

Ef við byrjum á því að skoða baráttuna um áttunda sætið í vestrinu, má segja að sé komið nýtt tvist í hana. Þetta tvist heitir New Orleans.

Fáir áttu von á að New Orleans ætti eftir að blanda sér í baráttuna um siðasta sætið inn í úrslitakeppnina í vestrinu, en það hafa þeir nú samt gert, Brúnar og félagar. Dílaskarfarnir eru þannig aðeins einum leik á eftir Phoenix alveg eins og Oklahoma City þegar þetta er ritað. Það er reyndar ekki langt síðan að útlitið var frekar dökkt hjá Oklahoma City, en það er talsvert bjartara í dag þó liðið hafi reyndar alls ekki náð þeim stöðugleika sem við hefðum reiknað með frá því.

Hluta af þessum óstöðugleika má rekja til meiðsla Kevin Durant, sem hefur verið að detta inn og út úr liðinu, en Russell Westbrook hefur gert sitt besta til að draga vagninn á meðan með því að bjóða upp á tölfræði sem sjaldan hefur sést í deildinni.

Nýjasta vesenið hjá Oklahoma er svo handarbrot miðherjans Steven Adams, en það mun líklega þýða að hann verði frá keppni í allt að mánuð. Það kemur kannski ekki að sök ef stjörnur liðsins hanga heilar það sem eftir lifir leiktíðar, en við eigum enn eftir að sjá Oklahoma spila eins og lið sem gerir atlögu að því að vinna meistaratitil í sumar.

Við erum þó búin að sjá nóg af góðum hlutum frá Oklahoma síðustu daga til að slá því nú föstu að liðið komist í úrslitakeppnina. Það er ekki bara styrkur Oklahoma sem liggur að baki þeim spádómi, heldur líka óguðlegt leikjaprógrammið hjá Phoenix til vors. Phoenix á eina erfiðustu töflu allra liða í deildinni eftir fram á vorið og því endurtökum við það sem við höfum sagt alveg síðan fyrir jól - ef Phoenix kemst í úrslitakeppnina, á það svo sannarlega eftir að eiga það skilið.

En hvað með New Orleans, spyrðu? Ekki í ár, elskurnar. Brúnar og félagar hafa gert vel í að blanda sér tímabundið í baráttuna um áttunda sætið, en það er engin hætta á að það verði til frambúðar. Það sorglega fyrir þetta lið er, að ef það hefði ekki verið að tapa öllum þessum fáránlegu leikjum að undanförnu, gæti það ef til vill verið með pálmann í höndunum og jafnvel komið upp fyrir Phoenix.

Þú átt bara ekki skilið að komast í úrslitakeppnina ef þú tapar fyrir Utah, Denver, Philadelphia, New York og Boston eins og New Orleans hefur verið að gera að undanförnu. Bara sorrý.

Kannski er það dálítið ósanngjarnt að í allri þessari umræðu um 8. sætið í vestrinu, skuli liðið sem raunverulega er í 8. sætinu alltaf fá minnsta blekið. Þannig er þetta bara með strákana hans Jeff Hornacek, það er engin stórstjarna þarna, bara tólf manna lið sem á góðum degi getur skotið hvaða lið sem er út úr húsinu.

Það gleymist líka í allri Vesturdeildarorðræðunni að Hornacek er að ná frábærum árangri með Suns. Mjög margir spáðu því að liðið hans í fyrra ætti eftir að verða í ruglinu, en í staðinn var það næstum því komið í úrslitakeppnina.

Það sama var uppi á teningnum í vetur, margir (við) spáðu því að liðið ætti eftir að þjást af Öskubuskutimburmönnum og vinna færri leiki í vetur, ekki síst eftir að það missti Channing Frye til Orlando.

En nei. Ekki svo mikið. Í staðinn halda þessir strákar bara áfram að bæta sig og spila vel. Það er hinsvegar óravegur á milli þess að vera góður og mjög góður í Vesturdeildinni og þetta Phoenix-lið - hvort sem það nær 8. sætinu eða ekki - er bara númeri of lítið fyrir sterkari liðin í vestrinu. Enn sem komið er í það minnsta.

Meistarar San Antonio sitja sem stendur í sjöunda sæti vestursins. Tímabilið hefur verið ósköp upp og ofan hjá þeim og ekki bara vegna meiðsla lykilmanna.

Það sem vakið hefur mestan áhuga hjá okkur er spilamennska Tim Duncan. Sá gamli heldur bara áfram að spila eins og engill og sýnir engin merki þess að detta í sömu för og t.d. Kevin Garnett, sem þjösnast áfram með sprungið á öllum.

Guð einn veit hvort San Antonio er meistaraefni eða ekki, en það er nú á leið á Ródeó-ferðalagið sitt árlega, sem jafnan segir okkur mikið um stöðuna þar á bæ.

Það eina sem er ljóst, er að ef úrslitakeppnin hæfist í dag, yrðu San Antonio og Oklahoma City í sjöunda og áttunda sæti inn í úrslitakeppnina í vestrinu. Pælið aðeins í því í smá stund...

San Antonio er búið að tapa 19 leikjum þegar þetta er ritað, eða jafnmörgum leikjum og bæði LA Clippers og Dallas. Stjörnuleiksfríið kom á góðum tíma fyrir bæði Clippers og Dallas, því þau hafa bæði orðið fyrir blóðtöku á síðustu dögum, sem gætu orðið til þess að þau misstu meistarana fram úr sér.

Dallas var að missa þá Tyson Chandler og Monta Ellis í meiðsli. Þegar þetta er skrifað er óvíst hve alvarleg þessi meiðsli eru, en eins og þið vitið skiptir hver leikur sem þessir lykilmenn missa úr gríðarlega miklu máli í svona harðri baráttu. Það eru skiptar skoðanir um það hvort Dallas sé betra eða verra með tilkomu Rajon Rondo, en þó er ljóst að engu liði langar að mæta Dallas í úrslitakeppninni. Þetta er bæði reynslumikið og óhemju vel þjálfað lið.

Öllu verra er ástandið hjá Clippers, sem þarf að verar án Blake Griffin næstu vikurnar - enginn veit hve margar. Það getur vel verið að Zach Lowe sé nýbúinn að skrifa pistil um það hvað Clippers-liðið sé æðislegt, okkur er alveg sama.

Í okkar augum er Clippers-liðið veikara en það var á síðustu leiktíð og við hreinlega sjáum það ekki fyrir okkur gera neina hluti í úrslitakeppninni með menn eins og Spencer Hawes og Austin Rivers í lykilhlutverkum - hvað þá Big Baby Davis og Hedo Turkoglu.

Portland og Houston eru í 3. og 4. sæti Vesturdeildarinnar og hafa 2-3 leikja forystu á áðurnefnd lið. Portland nær að hökta áfram þrátt fyrir meiðsli LaMarcus Aldridge og heldur bara áfram að vinna körfuboltaleiki þó að fólk hafi fullt af skoðunum á því.

Við hérna á NBA Ísland höfum líka mjög sterkar skoðanir á Houston-liðinu. Þar er annað lið sem heldur bara áfram að vinna körfuboltaleiki þrátt fyrir að vera án síns næstbesta manns (Dwight Howard). Það er sýstem í gangi þarna í Houston og það virðist virka fyrir einhverra hluta sakir. Það hjálpar líka að vera með einn besta körfuboltamann í heimi til að draga vagninn.

James Harden er búinn að fara hamförum í vetur og er alltaf að spila fleira og fleira fólk inn á sitt band í MVP-umræðunni. Kvöld eins og gærkvöldið, þar sem hann skoraði 40 stig, hirti 12 fráköst og gaf 9 stoðsendingar í sigurleik eiga það til að ýta undir slíkt.

Annar orðrómur er á kreiki um að Harden sé að reyna meira í varnarleiknum og ef það er satt, er óvitlaust að hafa manninn með í þessari umræðu. Þó það nú væri. Ætli Stephen Curry verði ekki að hjóla í nokkra 50 stiga leiki í viðbót til að tryggja betur stöðu sína sem fremsta mann í MVP-kapphlaupinu.

Þremur leikjum á undan Houston og þremur leikjum á eftir toppliðinu, sitja Húnarnir frá Memphis og eru bara nokkuð ánægðir með sig í dal hinna óþekktu og afskiptu.

Memphis er búið að vinna fjórtán af síðustu sextán leikjum sínum og það ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart að þessi sigurganga helst í hendur við endurkomu Zach Randolph úr meiðslum. Sumir hafa viljað þakka Jeff Green þessa velgengni, en þó það geti vel verið að hann hjálpi eitthvað til við að opna leiðir í sóknarleik Griz, er það Z-Bo sem oftar en ekki dregur vagninn í stiga- og frákastaiðnaði Memphis.

Húnarnir eru eitt af þessum liðum sem fljúga alltaf undir radarnum og þó það hafi vakið athygli þegar Bill Simmons kallaði Memphis sigurstranglegasta liðið í Vesturdeildinni eftir Jeff Green-skiptin á dögunum, eru þeir ekki margir sem ætla þessu liði stóra hluti í vor.

Það verður nú samt að viðurkennast að Memphis er að verða fjandi vel mannað lið.

Við erum búin að pönkast hressilega á forráðamönnum félagsins í gegn um árin fyrir skort á áræðni og hreina og klára nísku. Til hvers í andskotanum að vera með einhverja nísku þegar þú ert með svona lið í höndunum?

Það eru mörg ár síðan það varð ljóst að lið með grunn-mannskap eins og Conley, Gasol, Z-Bo, Allen og fleiri, vantaði ekki mjög mikið upp á til að geta keppt um titil.

Þeir Jeff "Er ekki nóg að ég spili eins og stórstjarna í fimmta hverjum leik" Green og Vince Carter eru kannski engir Kevin Durant-ar, en þeir ættu að geta farið langt með að stoppa upp í þessi fáu göt sem eru eftir á þessu sterka liði.

Memphis getur nefnilega tékkað í svo fjandi marga af reitunum sem þarf að fylla út til að geta keppt um titil. Liðið er með frábæra vörn, prófessjónal kjarna sem er búinn að spila lengi saman, góðan þjálfara, sérstakt vopn sem flest lið ráða illa við (hæð og styrk), öfluga frákastara og ágætis sýstem svo eitthvað sé nefnt.

Stóri kassinn sem á eftir að tékka í  - maður sem getur búið sér til skot upp úr engu þegar allt er undir - bíður þess líklega að Jeff Green fylli út í hann. Það er kannski ekki traustvekjandi tilhugsun, en eins og staðan er í dag, myndum við miklu, miklu, miklu frekar veðja á Memphis í úrslitakeppni en nokkurn tímann lið eins og LA Clippers eða Houston. Forgetaboutit!


Þá víkur sögunni að toppliði Vesturdeildarinnar og besta liði NBA deildarinnar í vetur (nei, Atlanta er ekki eins gott lið og Golden State - ekki verið með svona rugl!), Golden State Warriors.

Það hefur svo sem ekki farið mikið fyrir Warriors síðustu daga og vikur. Liðið heldur bara áfram að vinna og vinna, þó vissulega hafi verið mismikill glæsibragur á sigrunum (eins og þegar það rétt marði Sixers á dögunum).

Ef forráðamenn Warriors myndu hringja í okkur og spyrja okkur ráða (við erum við símann, núna), myndum við grínlaust leggja það til að Andrew Bogut yrði settur í formalín og geymdur fram að úrslitakeppninni svo hann taki nú ekki upp á því að verða undir steypubíl eða hlaupa á dómara og kjálkabrotna.

Möguleikar Golden State í úrslitakeppninni hanga ekki alfarið á heilsu Andrew Bogut, en þeir hanga samt alfarið á heilsu Andrew Bogut. Alveg sama hvort liðinu tókst að halda sér á floti án hans um daginn eða ekki. Hann verður að vera þarna ef þetta lið á að fullkomna sinn pótensjal.

Golden State ætti með öllu að halda sínu striki fram að úrslitakeppni og halda fyrsta sætinu í vestrinu. Ef það tekst og annað fer eftir bókinni, uppsker það líklega ekki annað en einvígi við Oklahoma City í fyrstu umferð.

Það er dálítið eins og að klífa Everest og stíga á bananahýði þegar fimmtíu metrar eru eftir á toppinn og renna á rassgatinu alla leið niður aftur.

Við vonum sannarlega að þetta raðist ekki svona upp, því það yrði hreint út sagt glæpsamlegt ef annað hvort Golden State eða Oklahoma City þyrfti að falla út úr úrslitakeppninni strax í fyrstu umferð. En svona er þessi blessaða Vesturdeild árið 2015.