Saturday, February 7, 2015

Loftárásir Kyle Korver


Okkur leiðist nú ekki að líma skotkort upp um alla veggi eins og þið vitið. Það er góð leið til að túlka tölfræðiblæti á háu stigi.

En nú er svo komið, að það verður ekki hjá því komist að sýna ykkur nokkrar myndir. Það er svona þegar einhver NBA leikmaðurinn tekur upp á því að vera bara í ruglinu.

Maðurinn sem um ræðir er Kyle Korver hjá Atlanta Hawks. Korver hefur alltaf verið mjög beitt skytta - ein sú besta í deildinni - en hann er búinn að vera alveg sérstakur undanfarin ár og í ár er hann svo kominn í áðurnefnt rugl.

Korver á sjálfur metið yfir besta 3ja stiga nýtingu á tímabili, en hann skaut hvorki meira né minna en 53,6% úr þristum þegar hann var hjá Jazz veturinn 2009-10.

Eins og margir vita er Korvera að eiga annað eins ævintýratímabil núna (53,3%) en það sem er enn merkilegra við það, er að hann er að taka nærri þrisvar sinnum fleiri þriggja stiga skot en hann var að taka árið 2010.

Það stafar mestmegnis af því að hann er farinn að spila meira en hann gerði á síðustu árum. Hann er kominn í besta form sem hann hefur verið í á ferlinum og þjálfarinn treystir honum og gætir þess að hæfileikar hans nýtist til fullnustu.

Við verðum að klappa sérstaklega fyrir liðum eins og Jazz og Bulls sem voru með Korver í sínum röðum en töldu sig ekki hafa þörf fyrir hann, en þó ber að hafa í huga að Korver var ekki sá leikmaður sem hann er í dag árið 2010.

Hann var jú heimsklassa skytta eins og hann hefur alltaf verið, en hann var þungur á löppunum og gat ekki haldið mosa fyrir framan sig í vörninni í þá daga.

En það þýðir ekkert að velta sér upp úr fortíðinni. Það sem við höfum gaman af er nútíðin hans Kyle Korver og okkur langar að deila með ykkur hringlandi geðveiku skotkortinu hjá manninum.

Og til að setja hittnina hans í samhengi, byrjum við á að deila með ykkur skotkorti þriggja manna sem þið ættuð öll að kannast við. Allt eru þetta stórstjörnur á misjöfnum stað á ferlinum, en enginn þeirra getur kallast góð 3ja stiga skytta eins og þið sjáið hérna fyrir neðan (smellið til að stækka myndirnar).

Þið munið væntanlega að guli liturinn þýðir að leikmaðurinn sem um ræðir sé að skjóta mjög nálægt meðaltali deildarinnar á því svæði. Sé liturinn rauður, þýðir það að leikmaðurinn sé að skjóta undir meðaltali í deildinni, en græni liturinn þýðir að hann er með betri nýtingu en meðaltal deildarinnar.



Næstir á svið koma svo Swish-lendingarnir Klay Thompson og Stephen Curry hjá Golden State, en öfugt við þá Kobe, Wade og Rose, eru þeir framúrskarandi þriggja stiga skyttur eins og allir sem fylgjast með NBA hafa fengið að sjá undanfarin misseri. Hafi þremenningarnir á fyrstu kortunum verið slakar þriggja stiga skyttur, eru Warriors-piltarnir fagmenn í greininni.



Og þá getum við skoðað kortið hans Kyle Korver. Það er með algjörum ólíkindum að maðurinn sé að skjóta svona vel, þvi þið megið ekki gleyma því að hann er oftast með besta varnarmann andstæðinganna límdan í andlitið á sér hverja einustu sekúndu sem hann spilar, þó þeir eigi það nú til að sofna á verðinum.

Það sést best á því að Korver er með 53,3% 3ja stiga nýtingu þegar hann "grípur og skýtur" og hvorki meira né minna en 57,3% ef þú skilur hann eftir opinn. Og hvað er þetta með að hitta tveimur af hverjum þremur þristum úr hægra horninu? Er það bara...























Þetta er bara svo langt frá því að vera eðlilegt.
Nennir þessi maður kannski að slappa aðeins af!