Það hefur sýnt sig að það er óhemju erfitt að vinna tuttugu körfuboltaleiki á einni viku. Þetta er vandamálið sem stendur frammi fyrir strákunum í Oklahoma City Thunder og farið er að vekja talsverða athygli.
Eins og þið munið kannski, voru margir fljótir að ýta á óðagotshnappinn í haust þegar ljóst varð að Oklahoma yrði án þeirra Kevin Durant og Russell Westbrook í nokkrar vikur. Alla jafna hefði það ekki verið stórmál, en ef þú ert Oklahoma City árið 2015, er það risavaxið vandamál.
Oklahoma er nefnilega lið sem má engan veginn við því að missa tvo bestu leikmennina sína. Ekkert lið á svo sem við því að missa tvo bestu leikmennina sína, en í tilviki Oklahoma er um að ræða tvo af bestu körfuboltamönnum í heimi og um leið mennina sem bera uppi 97,83% af sóknarleik liðsins.
Því fór náttúrulega allt til helvítis hjá Oklahoma á umræddum vikum eins og flestir spáðu. Þeir sem ýttu á óðagotshnappinn gerðu það af því þeir voru alveg vissir um að fjarvera þeirra Durant og Westbrook yrði til þess að Oklahoma næði ekki að komast í úrslitakeppnina í vor.
Vesturdeildin var jú sögulega hrikaleg, en kommon, lið eins og Oklahoma yrði nú ekki lengi að vinna upp nokkra leiki þegar kanónurnar sneru aftur...
Þegar þeir félagar byrjuðu svo að spila aftur, báðir talsvert á undan áætlun, mátti sjá bera fyrir skítaglotti á andlitum okkar þegar Oklahoma byrjaði strax aftur að vinna leiki og Phoenix virtist ætla að hjálpa þeim að henda sér úr 8. sætinu í Vesturdeildinni því það byrjaði allt í einu að tapa leikjum á meðan Oklahoma vann sína.
Glottið er hinsvegar alveg horfið núna og það er meira að segja langt síðan. Staðan sem við töldum ómögulega er meira en mætt; Oklahoma er komið í mittisdjúpan skít.
Og það er ekki bara Oklahomamönnum sjálfum og Phoenix að kenna. Það er allt í einu New Orleans að kenna líka! Brúnar og félagar í New Orleans, sem virtust vera alveg út úr myndinni þarna á kafla, eru skyndilega komnir í ágætismál og hóta því að veita Phoenix og Oklahoma bullandi samkeppni um 8. og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina í vestrinu.
Og þá er ekki öll sagan sögð.
Nördarnir sem liggja með nefið ofan í tölfræði fyrir lengra komna í kring um NBA deildina eru fleiri en einn búnir að reikna það út að samkvæmt reiknilíkönum þeirra sem skoða töfluröð liðanna þriggja fram á vorið - á New Orleans nú betri möguleika á að ná áttunda sætinu en Phoenix og Oklahoma.
Ekki mikið betri möguleika - raunar munar það bara klofnu veiðihári - en sem sagt mjög svipaðar eða betri líkur en liðin tvö sem allir sögðu að myndu berjast um téð sæti.
Við tökum þessum reiknikúnstum með fyrirvara, því við sjáum ekki hvernig í ósköpunum það á að geta gerst að New Orleans verði með jafngóðan eða betri árangur en Oklahoma til vorsins.
En svona útreikningar minna okkur samt á það að allur fjandinn getur gerst í NBA deildinni - ekki síst í svona amfetamínsteradeild eins og Vesturdeildinni 2015.
Þegar þetta er ritað er Phoenix með 27 sigra og 20 töp, New Orleans með 24 sigra og 22 töp (2,5 leik á eftir Suns) og Oklahoma með 23 sigra og 23 töp (3,5 leik á eftir Suns). Eins og til að gera þetta enn skemmtilegra, eiga Oklahoma og Phoenix til að mynda eftir að mætast tvisvar enn á leiktíðinni í "sex stiga leikjum" dagana 26. febrúar og 28. mars. Það er óhætt að reikna með því að þar verði hart tekist á.
Eins og þið sjáið, er munurinn á liðunum ekki mikill og því getur staðan verið fljót að breytast ef eitt liðanna dettur skyndilega í stuð og vinnur 8-10 leiki í röð, nú eða ef eitt þeirra tapar allt í einu sex af átta.
Okkur er alveg sama hvað reiknilíkön og excel-skjöl segja um þetta. Oklahoma á að vinna þetta kapphlaup, sama hvað hver segir. Oklahoma er með miklu betra lið en Phoenix og New Orleans ef allt er eðlilegt, en vandamálið er bara að allt er ekkert fokkíng eðlilegt.
Til dæmis heldur Kevin Durant áfram að missa af leikjum vegna meiðsla og nú síðast kostaði það Oklahoma tap fyrir New York Knicks!!!
Afsakið, en það er óafsakanlegra en að ætla að ráða bæði forseta og kónga af dögum. Þú tapar ekkert fyrir fokkíng New York, alveg sama hvað!
Ef Oklahoma heldur áfram að hökta svona, á það náttúrulega ekkert skilið að komast í úrslitakeppnina, en það er ekki bara af því við höfum gaman af Oklahoma sem við vonum svona mikið að liðið komist þangað.
Það sem við erum að vonast eftir (og þó ekki) er að verða vitni að hrikalegustu úrslitakeppni allra tíma, þar sem rúsínan í afturendanum yrði 1 vs 8 einvígi milli Golden State og Oklahoma City. Það yrði tvímælalaust sterkasta 1 vs 8 einvígi okkar tíma.
Jú, jú, Golden State gegn Phoenix yrði vissulega skemmtilegt einvígi, en sennilega eru 90% körfuboltamanna hrifnari af hugmyndinni um Curry vs Russ í fyrstu umferðinni.
Og það er ekki bara 1 vs 8 einvígið sem lofar góðu, því meistarar San Antonio hafa líka verið í ströggli í vetur og því stefnir í að þeir muni jafnvel enda í 6.-7. sætinu.
Hugsið ykkur bara antíklæmaxið fyrir lið eins og Golden State, Memphis og Portland, sem eru búin að strita í allan vetur fyrir heimavallarréttinum en uppskera svo ekki annað en einvígi við eitt af tveimur eða þremur bestu körfuboltaliðum heims í fyrstu umferðinni. Það er meiri sælan!
Án þess að klæðast hér spámannsfötum, ætlum við Oklahoma að vinna þetta kapphlaup. Það yrði sterkast fyrir úrslitakeppnina, bæði fyrir styrk hennar og stjörnufans.
Fari hinsvegar svo að Phoenix eða New Orleans læðist þarna inn, eiga þau svo sannarlega eftir að eiga það skilið. Það væri vissulega ekkert að því að sjá lærisveina Jeff Hornacek reyna fyrir sér í úrslitakeppninni í fyrsta sinn - nú eða að sjá frumraun Brúnars á stóra sviðinu ef svo bæri undir. Hann fer að verða tilbúinn í það.