Monday, February 9, 2015
Meðal-Jóninn magnaði
Stuðningsmenn Utah Jazz bauluðu þegar félagið þeirra ákvað að taka Butler-drenginn Gordon Hayward með níunda valréttinum í nýliðavalinu árið 2010. Það er sumpart skiljanlegt þegar haft er í huga að maðurinn sem tekinn var á eftir Hayward fór til Indiana og heitir Paul George. Margir æla enn aðeins i munninn sinn þegar þeir rifja það upp.
Kannski þótti stuðningsmönnum Jazz ólíklegt að ræfilslegur og barnalegur gutti eins og Hayward gæti hjálpað liðinu þeirra á nokkurn hátt. Það er líka skiljanlegt hugarfar, því árið 2010 leit Hayward út fyrir að vera tólf ára gamall og 27 kíló með blautt hár og skólatösku. Hann leit reyndar líka út fyrir að heita Ásmundur og hefur því borið það viðurnefni hjá okkur allar götur síðan, en engar tilraunir verða gerðar til að útskýra það hér.
"Gefið honum nokkur ár áður en þið dæmið hann," sagði Kevin O´Connor yfirmaður leikmannamála hjá Jazz eftir nýliðavalið.
Hann var viss í sinni sök, enda eru engar tilviljanir í starfslýsingunni hjá honum. Hann vissi að Hayward væri vel upp alinn og duglegur með smá hæfileika og það væri blandan sem til þyrfti til að búa til góðan körfuboltamann.
Þeir sem hafa verið neikvæðir í garð Hayward voru líka fljótir að benda á það í fyrra að hann væri ekki leikmaður sem gæti borið lið á herðum sér og komið því t.d. í úrslitakeppnina.
Það er líka rétt hjá þeim, Gordon Hayward er enginn LeBron James og ekki er hann Kevin Durant heldur. Því fór það fyrir brjóstið á ansi mörgum þegar Utah ákvað að jafna samningstilboðið sem Charlotte gerði honum síðasta sumar og greiða honum því um 63 milljónir dollara fyrir störf sín næstu fjögur árin. Maðurinn sem gat ekki borið lið á herðum sér var allt í einu orðinn "max" spilari - kominn á himinhá laun sem hann þurfti að standa undir.
En Hayward greyið gat ekkert að því gert þó Charlotte langaði svona mikið að fá hann í sínar raðir, en þetta tilboð gefur reyndar til kynna að kannski sé strákurinn ekki alveg eins lélegur og menn vildu meina.
Jú, það hefur komið á daginn að Hayward er bara drulluflinkur körfuboltamaður. Þó hann sé stórstjarna á borð við James, Durant eða James Harden, er fátt sem hann getur ekki á vellinum.
Hann er ekki framúrskarandi á neinu sviði (nema kannski fyrir það hvað hann er ógeðslega hvítur leikmaður og því óhemju Utah-legur í alla staði) en hann hefur fáa veikleika.
Hayward er minni framherji, sem getur hlaupið í skarðið bæði í hinni vængstöðunni (skotbakverðinum) og í afmörkuðum tilvikum í fjarkanum (kraftframherjastöðunni).
Pilturinn hefur aukinheldur verið grimmur í stálinu og er orðinn miklu sterkari en hann var. Sagan segir að hann hafi hent á sig 10 pundum af vöðvum í sumar, en það gera auðvitað allir NBA leikmenn ef marka má fréttirnar á haustin, svo það er líklega ekki saga til næsta bæjar.
En svona grínlaust, þá er hann augljóslega orðinn bæði stærri og sterkari og það þýðir að hann tekur betur kontakt og á auðveldara með að beita boltameðferðinni sem hann ræður yfir. Hann á nefnilega oft til að hoppa í leikstjórnandann líka, eða kannski frekar í leikherjann eða framstjórnandann.
Skotnýtingin hjá Hayward gjörsamlega hrundi á öllum sviðum á síðustu leiktíð þegar hann spilaði undir stjórn Tyrone Corbin sem notast við úreltar þjálfunaraðferðir og ætlaði Hayward miklu meira en hann réði við.
Núna er hinsvegar allt annað að sjá til hans. Hann er kominn upp í 46% skotnýtingu og 39% þriggja stiga nýtingu sem hvort tveggja er ljómandi fyrir vængmann. Þá er hann að skora næstum því 20 stig í leik og farinn að koma sér mun oftar á vítalínuna en áður, þökk sé aukinni reynslu og stærri vöðvum. Bættu við þetta fimm fráköstum og fjórum stoðsendingum og við erum að dansa.
En þó þessi tölfræði sé ágætlega hugguleg hjá honum, segir hún ekki nema brot af sögunni. Það er nefnilega þannig að ef við skoðum ákveðna tölfræðiþætti, kemur í ljós að líklega væri Utah ekki búið að vinna leik í vetur ef Hayward væri ekki á svæðinu.
Þannig skorar liðið að jafnaði 106,3 stig í hverjum 100 sóknum þegar Hayward er inni á vellinum, sem er vel yfir meðallagi í deildinni og reyndar sjöunda besta sóknin í NBA ef svo væri.
Það er svo þegar Hayward er utan vallar sem við sjáum svart á hvítu hve mikilvægur hann er liði sínu, því það
skorar ekki nema um 94 stig per 100 sóknir þegar hann er á bekknum. Aðeins Philadelphia (91,7) er með lélegri tölfræði en það.
Já, við skulum ekki láta fermingardrengslúkkið á Hayward blekkja okkur eins og mennirnir sem hann er að dekka gera svo reglulega (og láta hann verja frá sér skotin).
Hann getur skorað, frákastað, gefið, höndlað, stolið og varið, hann er vel brúklegur varnarmaður og nokkuð fjölhæfur á þeim endanum líka, því hann getur leyft sér að skipta tímabundið yfir á þrjár eða fjórar leikstöður í vörninni ef svo býr undir.
Hayward var í æfingabúðum bandaríska landsliðsins fyrir HM síðasta sumar og var einn síðasti leikmaðurinn sem var sendur heim og komst ekki í lokahóp Ká þjálfara. Hann nýtti sér þau vonbrigði til góðs og er sífellt að verða beittari leikmaður. Ef Gordon á einhvern tímann eftir að enda hjá liði sem hefur á að skipa tveimur leikmönnum sem eru betri en hann, erum við að tala um lið sem getur farið mjög langt.
En á meðan stuðningsmenn Utah láta sig dreyma um slík ævintýri, geta þeir skemmt sér við það að horfa á unga liðið sitt með Hayward í fararbrodd vaxa og dafna og læða svo inn einu og einu svona til að hafa móralinn í lagi.
Efnisflokkar:
All growed up
,
Gordon Hayward
,
Jazz
,
Miðar á byssusýninguna
,
Sýndu mér peningana
,
Þau erfa landið