Monday, January 26, 2015

Klay Thompson er ekki lítill lengur


Það er rosalega auðvelt að halda því fram núna að við höfum ætlað að skrifa sérstakan pistil um Klay Thompson sama kvöld og við skrifuðum síðasta pistil um Golden State Warriors, aðfararnótt föstudagsins.

Thompson var búinn að spila svo ljómandi vel fyrir Warriors í vetur og búinn að bæta sig svo mikið að okkur þótti kominn tími til að minnast sérstaklega á það. Velta því fyrir okkur hvað hann ætti stóran þátt í glettilegri velgengni Warriors og leiða hugann að því í leiðinni hvaða erindi hann ætti til dæmis í Stjörnuleikinn í næsta mánuði.

Nei, það varð ekkert úr þessum pistli, sem hefði getað orðið fyrsti pistillinn í sögu þessa vefsvæðis sem léti ritstjórnina líta gáfulega út. Það gat ekki verið svo gott.

En svona fyrir utan þess háttar egóisma, hefði það verið óþarfa blek að skrifa um Klay á fimmtudagskvöldið í ljósi þess hvað drengurinn gerði á föstudagskvöldið. Ef þú býrð ekki í helli í Afganistan, hefur það ekki farið fram hjá þér að Thompson rústaði NBA metinu yfir flest stig skoruð í einum leikhluta þegar hann sallaði þrjátíuogsjö stigum á aumingja Sacramento á rúmum níu mínútum í þriðja leikhluta.

Þetta eru orðnar gamlar fréttir núna, en það væri óeðlilegt ef við fjölluðum ekki aðeins nánar um þetta mál á NBA Ísland. Það er ekki eins og við fáum að sjá eitthvað svona vikulega í NBA deildinni.

Hugsið ykkur bara hversu margir stórkostlegir skorarar hafa spilað í NBA deildinni í gegn um tíðina og spáið svo í það hvað þeir voru flestir langt frá því að gera eitthvað líkt því sem Klay Thompson gerði á dögunum.

Ekki Kobe Bryant, ekki Michael Jordan og ekki einu sinni Wilt Chamberlain! Og hann skoraði jú einu sinni hundrað stig í einum og sama leiknum!

Enginn þessara ofurskorara hafði nefnilega það sem Klay Thompson hefur, þetta svakalega þriggja stiga skot. Haldið þið að það sé bara eðlilegt að maður sé að skjóta 13 af 13 í leikhluta - þar af 9 af 9 í þriggja stiga skotum?

Nei, það er sko ekkert eðlilegt við það og það er hreinlega ekkert víst að við fáum að sjá annan svona leikhluta á næstu þrjátíu árum í NBA deildinni. Þetta á ekki að vera hægt!

Öll höfum við séð menn hitna duglega við hin ýmsu tækifæri í gegn um tíðina. Við sáum Michael Jordan hrista höfuðið á móti Portland, við sáum Kobe skora 81 stig , Té-Mák skora 13 stig á 33 sekúndum og það er ekki langt síðan við sáum Carmelo Anthony skora 33 stig í einum leikhluta þegar hann var hjá Denver og jafna þannig 30 ára gamalt met Ísmannsins George Gervin.


Þetta rugl hjá Klay Thompson trompar þetta samt allt saman. Ekki bara af því hann sló þetta merkilega met, heldur hvernig hann gerði það - með fullkominni hittni og á svona skömmum tíma.



Það er ekki á hverjum degi sem við sjáum menn hitta úr nokkrum skotum í röð, setja svo "hitatékkið" niður og halda þá bara áfram að raða og raða án þess að klikka. Og ekki gleyma því að Klay tók eitt skot í viðbót fyrir utan þriggja stiga línuna eftir að brotið var á honum - og það fór að sjálfssögðu líka ofan í, þó hann fengi körfuna auðvitað ekki góða.

Þegar menn eru heitir, þá eru þeir heitir, er sagt. Heppileg klisja til að lýsa flugeldasýningunni hans Klay Thompson. Og eitt af því skemmtilegasta við þetta allt saman var að sjá hvað félagar hans voru gjörsamlega að tapa glórunni meðan á þessu stóð. Enginn fagnaði honum meira en félagi hans Stephen Curry, sem sjálfur hefur hingað til þótt ágætis skotmaður sjálfur.

Þetta Warriors-lið á alveg eftir að sanna sig í úrslitakeppni, en það er að slá öll félagsmet sín í deildakeppninni og er hvorki meira né minna en að slá Run TMC-genginu goðsagnakennda ref fyrir rass.

Ekki hefðum við trúað því að við ættum eftir að sjá það gerast að Warriors ætti eftir að hlaða í lið sem ætti eftir að toppa þá Chris Mullin, Tim Hardaway og Mitch Richmond sem gerðu garðinn frægan hjá liðinu fyrir aldarfjórðungi síðan. Það er hinsvegar að gerast fyrir framan nefið á okkur. Run TMC-gengið var rosalegt, en Swish-lendingarnir Curry og Thompson og allir aukaleikararnir þeirra eru enn magnaðari.

Þeir Curry og Thompson eru tveir af fánaberum nýrra tíma í NBA deildinni, þar sem þriggja stiga skotið er orðið vopn númer eitt. Þeir eru báðir á skærgrænu ljósi til að skjóta samviskulaust fyrir utan en það er ekki af ástæðulausu, þeir eru tvær af bestu þriggja stiga skyttum allra tíma þó þeir séu nýkomnir með bílpróf.

Curry og Thompson verða kannski ekki besta bakvarðapar sögunnar - þeir þurfa að vinna ósköpin öll af leikjum í úrslitakeppni til að eiga séns í svoleiðis nafnbót - en nú er svo komið að það er bara alls ekki galið að halda því fram að þeir séu best skjótandi bakvarðapar allra tíma.

Það kom okkur nefnilega á óvart þegar við fórum að fletta í sögubókunum, að eins og NBA deildin hefur átt margar stórkostlegar skyttur í gegn um tíðina, er bókstaflega erfitt að finna bakvarðasveit þar sem báðir menn voru frábærar skyttur.

Við verðum líka að taka það með í reikninginn að það er svo stutt síðan að liðin í NBA deildinni byrjuðu að skjóta jafn mikið fyrir utan og þau gera í dag. Ef við spólum 25 ár aftur í tímann, voru 3ja stiga skotin munaðarvara eins og spariföt, tekin frá fyrir sérfræðinga á völdum augnablikum. Þessi hugarfarsbreyting er án nokkurs vafa stærsta breytingin sem orðið hefur á spilamennskunni í NBA á síðustu áratugum og það er hið besta mál.

En aftur að Klay Thompson. Þegar þetta er ritað, liggur ekki fyrir hvað Kobe Bryant gerir varðandi axlarmeiðsli sín, en flestir hallast að því að hann muni ljúka keppni í nokkra mánuði og þó það sé grábölvað, verður það til þess að afstýra risastórum skandal í Stjörnuleiknum í næsta mánuði.

Eins og þið vitið var bolurinn búinn að kjósa Kobe Bryant í byrjunarliðið í Stjörnuleiknum og það er vitað mál að þjálfararnir í deildinni eiga eftir að kjósa James Harden inn sem skotbakvörð númer tvö.

Í ljósi þess hve hlaðin Vesturdeildin er af frábærum leikmönnum, er nefnilega alls ekkert víst að Thompson hefði komist inn í vesturliðið sem þriðji skotbakvörður. Pældu til dæmis í því hvað eru margir frábærir leikstjórnendur í vestrinu og að einhverjir þeirra eiga eftir að horfa á Stjörnuleikinn í sjónvarpinu.

En blessunarlega fyrir Klay Thompson, græðir hann á eins-dauði-er-annars-brauð-klásúlunni og ætti að fljúga öruggur inn í lið vestursins á eftir Harden ef hann verður ekki í byrjunarliðin. Það vill nefnilega svo skemmtilega til fyrir Thompson að það er þjálfarinn hans hjá Warriors, Steve Kerr, sem stýrir liði Vesturdeildarinnar í Stjörnuleiknum og því eru hæg heimatökin fyrir hann að velja sinn mann og vera þannig með bakvarðaparið sitt hjá Warriors í byrjunarliði vestursins. Það væri í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það, því þeir eiga það skilið eftir sögulegan fyrri helming á leiktíðinni.

Það er reyndar fjarri okkur að vera að rífast yfir því hvaða menn komast í Stjörnulið eða ekki - sérstaklega þegar kemur að vinsældakosningunni í byrjunarliðin.

Það er kórrétt sem Mark Cuban segir um það - sýstemið er meingallað og við kaupum allar samsæriskenningar þar að lútandi.

Sú staðreynd að menn eins og Marc Gasol hafi fengið fleiri atkvæði en Kevin Durant meika álíka mikið sens og að Davíð Oddson verði á meðal keppenda í 400 metra skriðsundi kvenna á næstu Ólympíuleikum.

Einhver kastaði fram hugmynd um að láta þjálfarana velja alla leikmennina í Stjörnuliðin og leyfa bolnum svo að kjósa um hverjir yrðu í byrjunarliðunum. Það er fantafín hugmynd, sem kæmi í veg fyrir að menn eins og Kobe Bryant og Carmelo Anthony færu í Stjörnuleikinn án þess að eiga það skilið. Auðvitað er glórulaust að menn eins og þeir tveir - báðir í liðum sem geta miklu minna en ekki nokkurn skapaðan hlut - skuli taka Stjörnuleiksslot frá leikmönnum sem eru búnir að standa sig jafn vel eða betur á einstaklingssviðinu, með liðum sem eru búin að vinna þrisvar sinnum fleiri leiki.

Það er hallærislegt að vera að æsa sig yfir Stjörnuleiksmálum, því hann skiptir strangt til tekið ekki nokkru einasta máli (nema kannski fyrir Kyrie Irving, sem gæti orðið af milljörðum króna í næsta samningi sínum við Cleveland ef hann kemst ekki í Stjörnulið austursins).

Það er móðins í NBA að telja upp hvað leikmenn hafa verið valdir oft í Stjörnulið þegar verið er að mæra þá, sem er frekar kjánalegt. Miklu nær væri að telja upp hvað tiltekinn leikmaður hefur verið valinn oft í úrvalslið deildarinnar. Það er miklu meiri heiður og þó það sé ekki gallalaust hvernig staðið er að því að velja í úrvalsliðin, er það skömminni skárra sýstem en Stjörnuleiksruglið.

Þegar þetta er haft í huga verður afar áhugavert að sjá hvar Klay Thompson hafnar í þeirri umræðu í vor. Skotbakvarðarstaðan er allt í einu orðin lélegasta staðan í NBA deildinni, sennilega lélegri en miðherjastaðan, sem er afrek út af fyrir sig. Það þýðir þó ekki að séu ekki góðir skotbakverðir í deildinni og þegar hér er komið við sögu bera tveir þeirra höfuð og herðar (og skegg) yfir aðra. Þetta eru James Harden hjá Houston og Klay Thompson.

Harden er almennt álitinn besti skotbakvörður deildarinnar út á það að hann er jú öflugasti sóknarmaðurinn í sinni stöðu í deildinni. Hann getur framleitt stig upp úr engu, en er líka seigur að frákasta og ekki síst spila félaga sína uppi, svo hann er almennt settur í fyrsta sætið þó það sé alkunna að hann sé ekki sleipasti varnarmaðurinn. Hann er reyndar búinn að taka sig aðeins á í vetur með það.

Þeir sem eru á bandi Klay Thompson vilja taka hann fram yfir Harden af því hann er góður á báðum endum vallarins. Gott og vel, Harden sé aðeins sterkari sóknarmaður, en benda réttilega á að Thompson sé um það bil 1600 sinnum betri varnarmaður. Þetta er deila sem á fyllilega rétt á sér en það er svo sem óþarfi að fara dýpra í hana. Það sem skiptir mestu máli að okkar mati, er hvað Klay Thompson er búinn að bæta sig rosalega í vetur.

Eins og við höfum talað um áður hér, þótti Klay Thompson vera með nokkuð áberandi holur í leik sínum þó hann teldist heilt yfir vera ljómandi góður leikmaður.

Það sem menn fundu helst að honum á fyrstu þremur árunum hans í deildinni var hvað honum var fyrirmunað að setja boltann í gólfið, hvað hann fór sjaldan á vítalínuna og hvað hann var gjarn á að týna meðspilurum sínum gjörsamlega.

Skemmst er frá því að segja að pilturinn tók sig bara til í sumar og lagaði þetta allt saman.

Hann er ekkert fullkominn, en það er með ólíkindum hvað hann hefur bætt sig. Sérstaklega hvað varðar boltameðferð og árásir á körfuna og þar af leiðandi auknar ferðir á vítalínuna. Svo hefur hann jú líka tekið sig á í spilinu og beitir nákvæmlega sömu leikaðferð og nær allir leikmenn Warriors í sókninni - að láta boltann ganga og gefa hann umsvifalaust á menn sem kunna að vera í betra færi en hann sjálfur.

Við skulum alveg viðurkenna að Klay Thompson er algjörlega búinn að vinna okkur á sitt band með spilamennsku sinni í vetur. Það var gaman að fylgjast með honum í fyrra, ekki síst í úrslitakeppninni þar sem hann átti frábæra leiki í sókninni og dekkaði bestu bakverði andstæðinganna í vörninni, en það hefur verið enn skemmtilegra að horfa á hann spila í vetur.

Stephen Curry hefur líka verið að bæta sig og er sem stendur líklegasti maðurinn til að verða kjörinn verðmætasti leikmaður deildarinnar, en þó hann hafi staðið við áramótaheitið sitt sem var að sjá sjálfur um að dekka leikstjórnendur mótherjanna í stað þess að láta Thompson gera það, kemur það enn oftast í hlut Klay-Klay að dekka besta skorara mótherjanna ef Andre Iguodala er ekki inni á vellinum.

Thompson er þannig ekki aðeins búinn að eiga þrjá leiki þar sem hann hefur skorað 40 stig eða meira í vetur, heldur hefur hann líka gert sitt í varnarleiknum. Þar hefur hann til dæmis átt þátt í því að halda James Harden í 40% skotnýtingu (24% í þristum) í fjórum leikjum gegn Houston í vetur, sem allir hafa unnist nokkuð örugglega af Warriors.

Harden átti líka einn sinn versta leik á tímabilinu um daginn þegar hann skoraði aðeins 12 stig gegn Thompson og félögum, en hann hefur aðeins tvisvar skorað minna en það í leik í vetur.

Fyrir aðeins nokkrum mánuðum þótti það full mikill heiður fyrir Klay Thompson að leyfa honum að mynda helminginn af Swish-lendingunum (Splash-brothers) hjá Warriors.

Hann væri jú ágætis þriggja stiga skytta, en hann þótti ekki hálfdrættingur á við félaga sinn Stephen Curry.

En nú kveður við nýjan tón og Klay Thompson er einfaldlega orðinn alvöru leikmaður - alvöru stjarna - og getur borið höfuðið hátt við hliðina á MVP-frambjóðandanum Curry, enda hefur hann slegið honum við hvað eftir annað í vetur.

Það verður óhemju gaman að fylgjast með þessum strákum í framtíðinni og við getum hreinlega ekki beðið eftir að sjá hvað þeir bjóða upp á næst.

Það er svo gaman þá sjaldan það gerist að ungir menn skrifi undir himinháa samninga og standi undir þeim og haldi áfram að bæta sig, en það er einmitt það sem Klay Thompson er að bjóða upp á núna.