Friday, January 23, 2015

Golden State er á metkeyrslu um miðja leiktíð


Það eru engin ný tíðindi, hvorki í Bandaríkjunum né hér á þessu vefsvæði, en Golden State Warriors (34-6) er alveg hrikalega sterkt og skemmtilegt körfuboltalið.

Og ekki minnkaði hrifning okkar á því í síðustu tveimur leikjum þess á heimavelli, þegar við sáum það vinna Denver með 44 stigum og rúlla svo Houston upp 126-113 í leik sem var miklu ójafnari en lokatölurnar gefa til kynna (Golden State var 30 stigum yfir þegar það hvíldi lykilmenn sína).

Þarna var Golden State ekki aðeins að sópa Houston í fyrsta skipti í rúma fjóra áratugi (og vinna alla fjóra leikina með 10+ stigum), heldur einnig setja félagsmet með 17. heimasigrinum í röð (það vann 16 í röð árið 1959 þegar það hét Philadelphia Warriors og landaði nýliða sem hét Wilt Chamberlain).

Og það sem er enn hrikalegra, er að liðið hefur nú unnið 20 leiki í röð þegar miðherjinn Andrew Bogut er með og það er sko engin tilviljun.

Andrew Bogut er líklega vanmetnasti leikmaður NBA deildarinnar.

Þið hefðuð bara átt að sjá hvernig hann fór með stjörnumótherja sinn Dwight Howard í gærkvöldi, þar sem hann byrjaði á að lækka rostann í honum með því að verja þrjú skot frá honum í sömu sókninni.

Rétt eins og Bogut er (að okkar mati) vanmetnasti leikmaður deildarinnar, er Dwight Howard svo sannarlega einn sá ofmetnasti. Það eru reyndar engin tíðindi og þeir sem hafa fylgst með á NBA Ísland síðustu árin, vita vel hvað okkur finnst um þann ágæta leikmann.

Vissirðu að síðast þegar við gáðum (ókei, ekk við, heldur Tom Haberstroh á ESPN) var Dwight Howard búinn að verja langflest skot á niðurleið í NBA deildinni - eða sautján talsins. Næsti maður var með ellefu.

Þetta væri skiljanlegt ef Howard væri átján ára, en hann verður þrítugur seinna á árinu.

Howard fór líka á kostum á óæskilegum sviðum gegn Warriors í nótt sem leið. Í stað þess að hjálpa liðinu sínu í varnarleiknum, var hann uppteknari við að fá á sig klaufavillur, sóknarvillur, tæknivillur, missa boltann og hengja haus. Hann var sem sagt sjálfum sér samkvæmur, blessaður.

En aftur að Warriors.

Við erum búin að dásama þetta lið í allan vetur og við vonum að þú sért ekki búinn að fá nóg af því, því við erum sennilega rétt að byrja á því. Golden State er bara svo afspyrnu fjandi skemmtilegt og gott lið.

Deildakeppnin er vissulega bara hálfnuð, en Golden State er nánast að toppa alla tölfræðilista, er með einn besta árangur sögunnar eftir fyrri helminginn, er með besta stigahlutfall (+ 11,3) síðan ofurlið Bulls frá 1996 og er bæði besta varnar- og sóknarlið deildarinnar skv. tölfræði fyrir lengra komna, en það hefur engu liði tekist síðan Philadelphia árið 1981.Nú erum við ekki að horfa á fyrsta tímabilið okkar í NBA og vitum ósköp vel að velgengni í deildakeppninni hefur ekkert að segja þegar komið er inn í úrslitakeppni, en það eina sem við erum að benda á er að þetta Warriors-lið er farið að hringja sögubjöllum með þessari fádæma velgengni sinni á fyrri helmingi leiktíðarinnar.Eins og staðan er í dag, eru þrjú lið líkleg til að hafa það sem til þarf til að vinna meistaratitil og þau eru öll í Vesturdeildinni (döh!). San Antonio er meistari og verður þangað til það verður slegið út, Golden State hefur enga auðsjáanlega veikleika en þriðja liðið er ekki einu sinni inni í úrslitakeppninni ef hún hæfist í dag, svo kannski er best að segja sem minnst um það.

Það er eiginlega dálítið skrítið hvað enn eru fáir á Warriors-vagninum. Við verðum ekki vör við mikla traffík á þeim fallega vagni og njótum þess því að rétta úr löppunum eins og á fyrsta farrými. Kannski eru svona fáir á Warriors-vagninum af því liðið er gjarnan á sjónvarpsdagskrá frá hálffjögur til hálfsex á morgnana - það spilar inn í þetta, örugglega.

En við hvetjum alla sem hafa tök á því til að ná leik með Warriors ef þeir mögulega geta. Það verður enginn svikinn af því að horfa á þetta lið spila körfubolta.

Þetta er ekki bara ógnarsterkt lið, heldur er það bullandi skemmtilegt líka. Það er hrein unun að sjá lipra spilamennskuna, hittnina, spilið, óeigingirnina, óbeislaða hæfileikana og síðast en ekki síst frábæran varnarleikinn hjá þessu liði. Nei, það er sko engin tilviljun að 24 af 34 sigrum Golden State hafi unnist með tíu stiga mun eða meira.

Við munum ekki hvenær við urðum síðast vitni að því að NBA-lið steig svona fram og fór frá því að vera gott, yfir í að vera framúrskarandi, með jafn afgerandi hætti og þetta Warriors-lið nú.

Miami tók stökk þegar LeBron James fór þangað og Boston tók þrefalt heljarstökk þegar það landaði Garnett og Allen, en Golden State var ekki að bæta við sig neinni stórstjörnu.

Þetta eru bara strákar sem eru að verða betri og betri sem einstaklingar (Steph Curry, Klay Thompson, Draymond Green, Harrison Barnes, Justin Holiday), fagmenn sem skila sinni rullu fullkomlega (David Lee, Shaun Livingston, Marreese Speights og Andre Iguodala) og alls hópur manna sem eru farnir að ná betur og betur saman sem lið undir stjórn eins sterkasta þjálfarateymis deildarinnar.

Ekki halda að þessi endalausu dásemdaskrif okkar um Warriors sé okkar aðferð til að segja að þetta lið vinni meistaratitilinn í júní.

Samkvæmt tölfræðinni hefur liðið verið með eina auðveldustu töfluröðina í deildinni á fyrri helmingnum og til dæmis eftir mjög marga leiki við sterkustu liðin í Vesturdeildinni.

Við erum fyrst og fremst að vekja athygli á fagurfræðilegu fyrirbæri sem enginn körfuboltaáhugamaður ætti að láta fram hjá sér fara. Okkur er til efs að við séum eina fólkið sem fær gæsahúð af því að horfa á jafn fallegan körfubolta og Golden State hefur verið að bjóða upp á í vetur.