Kraftframherjar eiga fyrst og fremst að hirða fráköst. Það getur vel verið að það sé í tísku í NBA deildinni að vera með kraftframherja sem eru 3ja stiga skyttur, en ef þeir frákasta ekki eins og menn, falla þeir fljótlega úr náðinni hjá NBA Ísland.
Því er það ekkert gamanefni fyrir okkur að tilkynna að Blake Griffin er hættur að frákasta eins og karlmaður og er farinn að frákasta eins og spjátrungur, gunga og lydda - af fjarka að vera. Það eina sem Griffin hefur sér til málsbóta, er að hann er gjörsamlega að missa sig í stoðsendingunum. Hann er orðinn spielmacher númer tvö hjá Clippers og finnur félaga sína sem aldrei fyrr í sókninni.
Á meðan Griffin er með handónýt 7,8 fráköst að meðaltali í leik í vetur, sem er það langlægsta sem hann hefur boðið upp á á ferlinum, er hann kominn upp í fimm stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann er sérstaklega búinn að vera ötull í sendingunum upp á síðkastið, en hann er með 21 stig, 7,5 fráköst og 7,1 stoðsendingu að meðaltali í síðustu tíu leikjum sínum. Þetta eru LeBron-legar tölur.
Hann verður samt að pappíra sig í fráköstunum. Þetta er maður sem hirti 12 fráköst að meðaltali í leik á nýliðaárinu sínu.
Hann getur miklu betur og það er engin afsökun að hann sé að spila við hliðina á frákastahæsta manni deildarinnar (DeAndre Jordan með 13,6 fráköst í leik). Chris Paul hirðir nærri fimm fráköst í leik og ekki kvartar hann. Jú, hann er reyndar alltaf að kvarta yfir einhverju, en ekki fráköstum.
Annars ætlar það aldrei að detta úr tísku að setja Griffin undir smásjá og finna að öllu sem hann gerir inni á vellinum. Það kemur okkur á óvart hve fáir hafa skammast yfir því hvað Griffin er að gefa eftir í fráköstunum, en hver einasti NBA penni í heiminum fer annað slagið að besservissast eitthvað út af sóknarleiknum hans eða skotvali.
Við erum ending undantekning á þessu eins og þið hafið tekið eftir, en kannski hefur ekki farið mikið fyrir slíkri umfjöllun upp á það allra síðasta ef því við erum hálf vonsvikin yfir spilamennsku Clippers í vetur, þó liðinu gangi þannig séð ágætlega.
Það er bara svo hrikalega gaman að setja inn skotkort og nittpikka yfir Blake Griffin, svo við skulum bara vinda okkur beint í þá skemmtun. Griffin var ekki sérlega beittur skotmaður þegar hann kom inn í deildina og var í vandræðum með skotið allar götur til ársins 2013. Hérna sjáið þið skotkortið hans frá þeirri leiktíð, sem var hans þriðja á ferlinum.
Skotnýting Griffin þegar allt er talið var svo sem ljómandi fín árið 2013 (tæp 54%) út af öllum troðslunum og sniðskotunum, en þá var hann ekki nema 35% skytta af millifærinu svokallaða.
Meintar bætingar Blake Griffin í stökkskotum af millifærinu hafa verið óhemju vinsælt umræðuefni í sjónvarpsútsendngum síðustu tvö árin og það er svo sem allt í lagi. Það er ekki eins og pilturinn hafi ekki verið að bæta sig.
Hérna er skotkort frá því undir lok janúar á síðustu leiktíð, þar sem sjá má að grænum svæðum fer fjölgandi. Græn svæði tákna skotnýtingu yfir meðaltali í deildinni á umræddum reit á vellinum, gult þýðir á meðaltali deildarinnar en rautt þýðir að leikmaðurinn sé undir meðalnýtingu deildarinnar.
Ef við skoðum skotkortið hans Griffin það sem af er þessu ári, sjáum við svo sem engar brjálaðar breytingar, en þó má merkja að nýtingin hans hefur heldur lækkað en hitt. Reyndar hefur skotnýtingin hans í heildina fallið úr þessum 54% árið 2013 (53% á síðustu leiktíð) niður í aðeins 48% það sem af er þessari leiktíð. Nýju skotkortin á heimasíðu NBA segja okkur núna hvert meðaltalið í deildinni er á hverjum stað fyrir sig (LA = League Average), sem er dásamlegt.
Án þess að fara í allt of flókna útreikninga erum við viss um að hluta af þessari niðursveiflu megi rekja til þess að Griffin er orðinn ansi hrifinn af skotinu af millifærinu. Sú staðreynd að tölfræðigúrúar deildarinnar fordæmi þetta skot sem það versta í bókunum hefur engin áhrif á Griffin, sem tekur sífellt fleiri skot fyrir utan. Hann hefur þannig farið frá því að taka aðeins 15% skota sinna á færinu sem nemur frá fimm metrum út að þriggja stiga línu á fyrsta árinu sínu, upp í næstum 37% það sem af er þessu tímabili. Það er ansi mikil breyting og það tæplega til góðs.
Til eru vísindi sem segja að þó skotið af millifærinu sé í raun versta skotið í boltanum, séu auðvitað undantekningar á þeirri reglu í mönnum sem eru brjálæðislega hittnir af þessu færi. Þar koma upp í hugann menn eins og LaMarcus Aldridge hjá Portland og félagi Griffin hjá Clippers, Chris Paul, sem fyrir skömmu var hittnastur í deildinni af millifærinu ef marka má Ralph Lawler sem lýsir leikjum liðsins.
Þett´er náttúrulega ekki í lagi, þetta lið!