Friday, January 9, 2015

Blaðamaður losnar undan oki Knicks


Blaðamennirnir á New York Times er búnir að hafa nóg að gera við að fylgjast með liði Knicks í NBA deildinni undanfarnar vikur. Ætli þeir séu ekki búnir að tæma orðakvótann þegar kemur að því að lýsa vanhæfni liðsins, sem hefur nú tapað 24 af síðustu 25 leikjum sínum í deildinni og hefur aldrei í sögunni byrjað eins illa.

Líklega hefur ákvörðunin verið tekin með tungu í kinn, eins og Bandaríkjamenn orða það, en yfirmenn íþróttadeildarinnar á Times hafa gefið það út að þeir ætli að leyfa blaðamanninum sem starfað hefur í kring um Knicks að einbeita sér að öðrum verkefnum framvegis. Þeir hafa samúð með manni, sem hlýtur að vera orðinn rosalega leiður á lífinu eftir að vera búinn að elta aulana í Knicks í tapleiki út um allt land.

Það er augljóst hvað vakir fyrir Times-mönnum með þessu útpili. Þeir eru einfaldlega að sýna það í verki hvað þeim er orðið óglatt af að horfa upp á Knicks gera sig að fífli kvöld eftir kvöld. Við erum nú þegar búin að skrifa allt of mikið um þetta lið eins og þið vitið, en við máttum til með að deila þessum greinarstúf með þeim ykkar sem kunna að hafa misst af honum.

Það verður aldrei þreytt að fylgjast með körfuboltafélaginu New York Knicks tortíma sjálfu sér.