Tuesday, December 23, 2014

Það er aðeins eitt í stöðunni hjá Knicks


Öll eigum við það til að leika sófaforseta knattspyrnu- og körfuboltafélaga. Sófaforseti er gjarnan stuðningsmaður sem hefur mjög ákveðnar skoðanir á því hvað félaginu sem hann heldur með er fyrir bestu. Stundum eru þessar skoðanir harðlínulegar og trúar bókstafnum.

Það er alveg rosalega auðvelt að sitja heima í sófa og rífa kjaft og besservissa yfir því hvaða leikmenn þetta og hitt lið eigi að láta fara, hvaða leikmenn það ætti að semja við, hvaða leikaðferð það ætti að spila og hvort þjálfarinn hentar eða ekki. Þið kannist við þessar pælingar og við að sjálfssögðu líka, þetta vefsvæði gengur auðvitað mikið til út á svona fabúleringar.

Sófaforsetinn er ekki mjög þolinmóður einstaklingur og því þarf oft ekki mikinn mótbyr til að hann fari að ókyrrast og heimta hausa, en eins og þið vitið er það nú ekki algengt að félögin í NBA geri mjög stórar og róttækar breytingar þó þau skipti stundum ört um þjálfara.

Þú getur heldur ekki rekið allt liðið þitt þó þú tapir nokkrum leikjum í röð. Þig langar kannski til þess, en ef þú setur þig raunverulega í spor forráðamanna félagsins, sérðu augljóslega að það væru ekki fagmannleg vinnubrögð.

Stundum þarf hinsvegar að gera undantekningar og stóra undantekningin frá þessu er ruslahaugurinn New York Knicks.

Það er búið að reyna og reyna og reyna, en allt kemur fyrir ekki. Því meiri "metnað" sem forráðamenn Knicks setja í rekstur félagsins, því dýpra grafa þeir sig ofan í rotþró getuleysis, viðvaningsháttar og vanhæfni.

Við vildum gjarnan að við gætum sagt eitthvað rosalega málefnalegt eða vísindalegt til að lýsa því að New York sé komið á endastöð og þurfi að gera eitthvað róttækt í rekstrinum, en það eina sem kemur upp í hugann er að okkur langar að sparka í leikmenn liðsins. Sparka í Carmelo Anthony, sparka (fjórtán sinnum) í J.R. Smith, sparka í Derek Fisher, sparka í Phil Jackson og síðast en ekki síst, taka eigandann og helst bara lúberja hann. Stuðningsmenn Knicks nær og fjær eiga þetta ekki skilið.

Körfuboltafélagið New York Knicks er hneykslanlega lélegt batterí. Allt frá stórstjörnu til tólfta manns, frá þjálfarateymi til skrifstofuliðsins og eiganda, er þessi klúbbur búinn að vera gjörsamlega að drulla upp í rjáfur í meira en áratug.

Það er ekki of sterkt til orða tekið að segja að þessi frammistaða félagsins/liðsins innan og utan vallar sé búin að vera hneyksli. Þessir gaurar ættu án alls gríns að skammast sín.

Á meðan klúbbar eins og Sixers tefla viljandi fram einu lélegasta liði í sögu NBA deildarinnar í þeirri von að hreppa einn af bestu nýliðunum næsta sumar, er New York í alvörunni að reyna að vera samkeppnishæft.

Margir taka upp hanskann fyrir Sixers og segja að félagið sé bara að spila eftir reglunum sem því er gefið að leika eftir, en við kaupum ekki svoleiðis bull.

Að kasta tímabilinu svona frá sér ár eftir ár eins og Philadelphia er að gera, ber ekk vott um klókindi í okkar bókum, heldur metnaðarleysi, losarabrag og lélegan karakter. Hver nennir að halda með svona rusli?

Og talandi um rusl. Það má vel vera að Philadelphia sé rusl - og það er sannarlega rusl - en það átakanlega er að New York er miklu meira rusl.

Philadelphia er viljandi að tefla fram liði sem með öllu ætti að taka þátt í deildakeppninni í Finnlandi frekar en í NBA. Philadlephia er í þessu til að tapa. New York er hinsvegar að reyna að vinna.

Forráðamenn Knicks vita alveg að liðið er ljósárum frá því að geta keppt um meistaratitil, en stefna félagsins undanfarin ár hefur að minnsta kosti verið að reyna að drulla liðinu í úrslitakeppnina. Það hefur reynst meira en að segja það fyrir Knicks, þó það sé að spila í lélegustu Austurdeild sem sést hefur í fleiri áratugi.

Einhverjum ykkar finnst við kannski allt of dómhörð á Knicks og haldið að við sjáum ekki heildarmyndina. Að liðið sé að venjast nýjum þjálfara sem hefur tekið upp alveg nýjar áherslur sem leikmönnunum gengur misvel að tileinka sér. Það getur vel verið, en fimm sigrar og tuttuguogfimm töp!?! Þetta á ekki að vera hægt, en New York fer létt með þetta. Kannski ekki annars að vænta af liði sem hefur tvisvar unnið 40+ leiki síðan árið 2002.

Ef byggja á upp gott körfuboltalið, er grunnforsendan sú að hægt sé að útvega leikmenn sem eru góðir í körfubolta. Þessu atriði hefur því miður ekki verið sinnt hjá Knicks, því meirihlutinn af mannskapnum kann ekkert í körfubolta eða spilar hann illa. Frekar neyðarlegt þar sem þetta er jú atvinnumennska.

Carmelo Anthony er stórstjarna Knicks eins og undanfarin ár og hann framlengdi samning sinn við félagið síðasta sumar fyrir eitthvað í kring um áttatíu og níu drilljarða. Auðvitað framlengdi hann af hollustu við félagið og engu öðru, ekki hafði þetta neitt með peninga að gera.*

Það er sama hvort um er að ræða körfuboltafélag, körfuboltalið eða einstaka leikmenn, það er alveg ógeðslega þægilegt og skemmtilegt að sitja heima í stofu og hakka þá í sig hvern af öðrum með ómálefnalegum sleggjudómum og fáfræði. En eins og áður sagði, getum við bara ekki þagað lengur yfir þessu New York rusli. Þetta þarf að hætta, allra okkar vegna.

Kannski ætti fólk sem er með svona læti eins og við að rökstyðja hlutina og helst koma með hugmyndir að úrlausnum fyrir Knicks, en það er ekkert svoleiðis í boði. Hér eru engin jók,

Enda gæti ekkert sem við leggjum til bjargað þessum guðsvolaða klúbbi frá glötun ef marka má söguna.

Það eina sem er ljóst er að hér þarf að eiga sér stað uppstokkun - alveg frá skúringakerlingum upp í eigendur. Við vitum að Phil Jackson og Derek Fisher eru bara rétt að byrja á plönunum sínum ef einhver eru, en skemmdin í eplinu er bara orðin allt of stór. Það er til lítils að reyna að skera svona stóra skemmd í burtu - þá geturðu allt eins hent eplinu.

Varðandi tiltekt í liðinu já nefna augljósustu hlutina. Flestir hljóta að sjá að þú vinnur ekki andskoti mikið með leikmenn eins og Andrea Bargnani og J.R. Smith.

Þessir sveppir vega svo sem ekki þyngst í New York menginu. Það gerir Carmelo Anthony hinsvegar, en við verðum að hryggja stuðningsmenn Knicks enn eina ferðina: Það er kominn tími til að losa ´Melo og byrja upp á nýtt.

Það er ekki Carmelo Anthony að kenna þó New York geti ekkert í körfubolta, en það er heldur ekki alfarið honum að þakka ef liðið slysast til að vinna leik. Körfubolti er liðsíþrótt og því er hæpið að hengja mikið á herðar einstaklinga, en Carmelo Anthony er kallaður ofurstjarna og þær eiga að gera félaga sína betri. Það má deila um hvort Anthony gerir það.

Carmelo er einn besti skorari sinnar kynslóðar í NBA boltanum og styrkur hans liggur þar, enda heldur hann sig gjarnan við þá hlið mála. Það sem okkur þykir gagnrýniverðast við Anthony er að það virðist ekki skipta miklu máli hvernig hann spilar - það virðist hafa lítil áhrif á liðið.

New York náði góðum árangri fyri tveimur árum en hefur verið í ruglinu síðustu tvö, en tölfræðin hans Anthony verður í raun betri eftir því sem liðið er lélegra. Ekki bara hærri, heldur ökónómískari líka. Það skýtur skökku við.

Það væri gaman að sjá hvernig staðan væri hjá New York ef ´Melo hefði ekki notið við í vetur. Væri liðið virkilega bara búið að vinna fimm af tuttugu og fimm?

Það virðist ólíklegt, jafnvel þó við séum að tala um New York. Mikið væri gaman að láta reyna á Ewing-kenninguna** hjá Anthony og Knicks.

Við förum aldrei ofan af því að hafi einhvern tímann verið kjörinn tími til að segja fokk it og henda planinu í ruslið hjá Knicks, þá er það núna.

Stærsti bitinn er Carmelo og félagið ætti að geta fengið eitthvað af valréttum og unglingum fyrir hann. Líkurnar á að Melo verði látinn fara frá New York eru reyndar hverfandi, af því fólk borgar sig inn á leiki út að horfa á stjörnur skora stig en ekki Cole Aldrich setja hindranir.

New York er búið að prófa að byggja upp sterkt lið í kring um Carmelo Anthony en það mistókst af ýmsum ástæðum. Að hluta til út af meiðslum, að hluta út af því að púslin pössuðu ekki saman en þegar öllu er á botninn hvolft, var liðið bara ekki nógu gott.

Það er því í sjálfu sér ekki yfir neinu að hanga fyrir Carmelo Anthony. Nú væri upplagt fyrir Knicks að losa hann og helst líka megnið af rotnu eplunum í hópnum. Reyna að fá sem mest fyrir þetta og byrja svo bara upp á nýtt með nýja leikmenn og alveg nýja fílosófíu.

Þessar tillögur eru mjög róttækar, við áttum okkur á því. Þær eru einmitt eitthvað sem sófaforseti myndi segja á spjallborði eða í athugasemdakerfi DV, en málið er bara að þessi farsi hjá Knicks er orðinn svo hræðilegur að það væri réttast að kalla til mann sem hugsar eins og sófaforseti.

Þetta lið er brotajárnshaugur sem bíður þess að vera urðaður svo hann valdi ekki tjóni, hvorki á fólki né farartækjum.

Við skulum alveg viðurkenna að okkur finnst það ekkert leiðinlegt þegar Knicks er að drulla á sig. Reyndar finnst okkur það alveg ógeðslega gaman.

Þessi Þórðargleði stafar mikið til af því að okkur finnst fyndið þegar stórir klúbbar sem eiga nóg af peningum gera í buxurnar, en helsta ástæðan fyrir því að við gleðjumst svona mikið yfir óförum Knicks er að við þolum ekki hvað NBA-pressan er höll undir New York Knicks.

Og hún er það, það er staðreynd, og hugsið ykkur bara hversu óþolandi New York-pennarnir væru ef liðið gæti nú eitthvað. Úff.

En ef við lítum á heildarmyndina, er það ekki gott að Knicks (og Nets) skuli vera að drulla á sig ár eftir ár, því það væri í alla staði öflugra fyrir körfuboltann að liðin á stóru mörkuðunum væru að standa sig vel. Og það er eina ástæðan fyrir því að við værum til í að sjá þessi lið sterkari en raun ber vitni. NBA deildin og körfuboltinn allur (amk í Bandaríkjunum) er miklu öflugri ef liðin í New York, Chicago, Boston og Los Angeles eru sterk. Það er bara þannig.

Það er hinsvegar ekki útlit fyrir að við fáum sterk lið í New York neitt á næstunni. Ekki nema til komi algjör uppstokkun eins og við lögðum til í þessum pistli. Þetta eru róttækar hugmyndir, en því miður nauðsynlegar.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

* Auðvitað er þetta kaldhæðni hjá okkur. Carmelo Anthony stóð í sumar frammi fyrir þeirri ákvörðun að vera áfram hjá Knicks, vitandi að hann ætti ekki séns á að spila með sterku liði næstu misserin, eða fara til Chicago og eiga miklu betri séns á að vinna, en fyrir laun sem væru milljörðum lægri en þau sem hann fengi hjá Knicks.

Þetta er ekki auðvelt val, en auðvitað valdi Anthony kostinn sem borgaði honum meira - miklu meira. Hann hefði alveg örugglega viljað spila með sterkara liði og hefði örugglega gert það ef það hefði ekki munað svona rosalegum upphæðum. Við nennum ekki að reikna það, en munurinn á að velja Knicks eða Bulls hljóp á milljörðum króna, svo valið var í raun auðvelt. Þú hefðir gert það sama - þið hefðuð öll gert það sama. Ekki reyna að halda öðru fram.

** Ewing-kenningin er kenning sem ESPN-mógúllinn Bill Simmons setti fram um aldamótin, en hún gengur út á það að stundum geti lið orðið betri þegar þau spila án aðalstjörnu sinnar. Kenningin heitir í höfuðið á Patrick Ewing hjá New York Knicks, en Simmons færði á sínum tíma ágætis rök fyrir því að Knicks-liðið væri betra án hans.

Á seinni árum höfum við séð mörg áhugaverð dæmi í NBA deildinni þar sem menn hafa freistað þess að leggja Ewing-kenninguna fram. Nærtækasta dæmið er klárlega Rudy Gay. Memphis varð fyrst gott lið þegar hann meiddist og enn betra þegar hann fór frá félaginu. Þaðan fór hann til Toronto, sem varð allt í einu gott lið þegar það var búið að losa sig við Gay!

Enn sem komið er, virðist Gay ekki ætla að gera Sacramento að lakara liði en það var áður og við skulum vona hans vegna að svo verði ekki, en látið ykkur ekki bregða ef Sacramento flýgur inn í úrslitakeppnina nokkrum mánuðum eftir að það lætur Rudy Gay fara.