Tuesday, December 23, 2014

Tölfræðin dregur upp dökka mynd af Kobe Bryant


Þið vitið að við elskum Kobe Bryant, þó við séum stundum að pota í hann með leiðindum. Við erum eitthvað búin að skrifa um hann í vetur, eitthvað á þá leið hvað það sé aðdáunarvert hvað hann heldur dampi í stigaskorun með Lakers þó sigrarnir séu eitthvað sjaldgæfir.

Tölfræðin er ekki allt, en tölurnar sem við vorum að heyra varðandi Kobe Bryant eru ekki fallegar. Þið vitið að Lakers er ekki búið að vinna nema átta leiki í vetur (og tapa nítján) og að Kobe er að skjóta aðeins 37% utan af velli og enn ljótari 27% fyrir utan þriggja stiga línu. Kobe hefur aldrei verið mjög ökonómískur fyrir utan línu, en það er spurning hvort menn fara að róa sig í þriggja stiga skotum ef þeir hitta ekki nema úr fjórða hverju.

En þar er ljótleikinn því miður ekki talinn upp. Þið vitið hvað bæði við og margir fleiri körfuboltaspekúlantar erum orðin hrifin af tölfræði fyrir lengra komna. Svona eins og að spá í það hvar og hvernig er hagkvæmast að skjóta á körfuna og hvernig liðum vegnar þegar þessi eða hinn leikmaður er innan- eða utan vallar.

Jæja, vissirðu að Kobe Bryant er búinn að taka fleiri löng tveggja stiga skot með mann í andlitinu en tólf af þrjátíu liðunum í NBA deildinni?

Löng tveggja stiga skot eru nó-nó í tölfræði fyrir lengra komna. Bættu svo við þeirri staðreynd að þau eru tekin með mann í andlitinu (contested) og þér verður stungið í tölfræðifangelsi.

Vissirðu að Lakers er sextán stigum á hverjar 100 sóknir betra í varnarleiknum þegar Kobe Bryant er utan vallar? Það kemur ef til vill ekki á óvart, en vissirðu að Lakers er átta stigum á hverjar 100 sóknir betra í sóknarleiknum þegar Kobe er utan vallar? Við ætlum að tippa á að a.m.k. seinni staðreyndin komi einhverjum á óvart.

Lakers er búið að tapa þremur leikjum í röð núna. Tapaði síðast fyrir Sacramento, sem hafði tapað fimm leikjum í röð. Kobe Bryant tók þrjátíu skot í leiknum og hitti aðeins úr átta þeirra. Og missti boltann níu sinnum. Tölfræðilega, er þessi frammistaða líklega með þeim ljótustu í sögu deildarinnar.

Okkur langaði bara að vekja athygli á þessu. Ætlunin var ekki að vera með skítkast út í Kobe Bryant, aðeins að benda á staðreyndir. Þetta er dálítið óþægilegt, verðum við að segja.

Forráðamönnum Lakers er líklega sama. Þeir selja miða með hjálp Kobe Bryant og bæði þeir og stuðningsmenn Lakers vita það vel að í vetur er ekkert í boði nema að horfa á Kobe skjóta. Og skjóta og skjóta. Það verður engin úrslitakeppni - og það sem meira er - gæti farið svo að verði enginn nýliði heldur. Ef svo fer sem horfir hjá Lakers, verður félagið að gefa Phoenix valréttinn sinn næsta sumar.

Úff.

Spurningin er kannski hvort Kobe er sama. Hann getur ekki verið yfir sig ánægður með stöðu mála. Hann er enginn vitleysingur. Hann veit að hann er ekki að spila vel, en hann veit að það skiptir engu máli - hann verður samt í byrjunarliðinu í Stjörnuleiknum í febrúar. Það væri gaman að vita hvað Kobe Bryant er að hugsa núna. Hann hlýtur að vera þungt hugsi.