Thursday, October 16, 2014

Er Kobe Bryant búinn?


Eitt heitasta umræðuefnið í NBA deildinni þessa dagana er merkilegt nokk hvorki LeBron James né Cleveland Cavaliers. Nei, við erum að tala um klassískara umræðuefni en það. Við erum að tala um Kobe Bryant.

Það er kannski eins gott að menn séu að smjatta mikið um Kobe vin okkar þessa dagana, því það er ekki víst að hann verði mikið lengur milli tannanna á fólki, þessi sögulega góði leikmaður. Aðalumræðuefnið á ESPN í dag, er sú staðreynd að sérfræðingateymi íþróttarisans metur sem svo að Bryant sé aðeins 40. besti leikmaðurinn í NBA deildinni.

Fyrir ári síðan var líka deilt um hvar Kobe Bryant var settur á þessum árlega lista, en hafi mönnum þótt hann vanmetinn þá, hefur hann hrunið helmingi neðar á listann núna. Þessi listi, þetta flokkunarkerfi þeirra ESPN-manna, er að sjálfssögðu bara gert til gamans.

En það er fullt af fólki þarna úti sem tekur þessu alls ekki þannig. Bryant sjálfur notaði listann til hvatningar á síðustu leiktíð, þó hún hafi reyndar orðið ansi stutt hjá honum blessuðum.

Þroskað körfuboltaáhugafólk eins og við (og þið) gætum þess að taka svona listum ekki alvarlega, en það er þó fínasta tæki til að vekja fólk til umhugsunar um hvað er að gerast í deildinni. Hvernig landslagið breytist ár frá ári.

Og þetta skrið Kobe Bryant niður FIFA-lista ESPN vekur fólk einmitt til umhugsunar.

Það er nefnilega að gerast núna - þetta sem okkur öllum fannst svo óhugsandi. Kobe Bryant er ekki lengur einn af bestu leikmönnum í NBA deildinni og hann er farinn að eldast. Hratt.

Þetta getum við fullyrt án þess að hafa séð Bryant spila körfubolta nema í mýflugumynd á síðustu 18 mánuðum.

Við vorum reyndar búin að vara ykkur við þessu, þegar við veittum því athygli sem enginn þorði að tala um - að Kobe Bryant væri hættur að spila körfubolta á báðum endum vallarins og væri farinn að einbeita sér alfarið að því að spila sóknarleik.

En núna, eftir hátt í 20 ára spilamennsku, óguðlegt magn af mínútum og tvö alvarleg meiðsli hjá manni sem kominn er hátt á fertugsaldur? Núna er ekki annað í stöðunni fyrir Kobe en að reyna að halda andliti.

Það er alveg viðbúið að Kobe eigi eftir að skora fullt af stigum eins og hann er vanur, en hann þarf að hafa meira og meira fyrir því og gleymum því ekki að hann getur ekki veitt sér þann munað að velja sér augnablik til að taka spretti - hann er fyrsti kostur í sókninni hjá Lakers og fær þess vegna mikla athygli varnarmanna eins og venjulega.

Ef hann ákveður að halda ekki flæðinu og halda áfram að reyna að gera hlutina sjálfur eins og hann hefur gert lengst af á ferlinum, gæti þetta endað með ósköpum hjá honum í vetur.

Það góða við þetta hjá Bryant er að enginn reiknar með einu eða neinu frá þessu Lakers-liði, enda er það satt best að segja hálfgert drasl. Það hefur t.d. ekkert að gera í megnið af liðunum í sterkri Vesturdeildinni og heldur áfram að tapa fleiri og fleiri leikjum, ár frá ári.

Gallinn er bara sá, að þetta lélega lið verður mjög mikið í sviðsljósinu í allan vetur, því Lakers er Lakers og því verður liðið oftar á skjánum hjá stóru stöðvunum en flest önnur lið eins og venjulega - óháð því hvort það getur eitthvað eða ekki.

Þið sem hafið fylgst með hér á þessari síðu í gegn um árin vitið að við hérna á ritstjórninni höfum átt í nokkuð stormasömu sambandi við Kobe, eins og reyndar flestir körfuboltaáhugamenn. Það hefur stundum verið alveg óskaplega erfitt að þykja vænt um Kobe, en hann nær yfirleitt að þröngva okkur í lið með sér ár eftir ár með því að vera þetta ólíkindatól sem hann er.

Það er auðvelt að benda á hluti sem betur mættu fara hjá Kobe Bryant bæði í leik og starfi.

Eitt stærsta deiluefnið í kring um Kobe er til dæmis hvort hann náði nokkurn tímann fullum tökum á leyndarmáli*  körfuboltans.

Það er vinsælt að bera hann saman við Jordan hvað þetta varðar. Þið munið að Jordan byrjaði ekki að ná alvöru árangri með Bulls fyrr en hann tileinkaði sér leyndarmálið.

Náði Kobe tökum á því þegar Lakers vann titlana sína tvo árin 2009 og 2010?  Það má deila um það, svo mikið er víst.

Við höfum sagt það oftar en einu sinni undanfarin misseri, að ef einhver leikmaður getur komið til baka eftir hnjávesen og hásinarslit á "gamalsaldri", er það Kobe Bryant. Geðveikin sem knýr hann áfram á vellinum er á pari við heitustu sigursjúklinga sögunnar eins og Jordan og Bill Russell.

En við skulum líka vona að þetta bilaða keppnisskap leiði Bryant ekki í ógöngur. Kobe hefur ljómandi góðan leikskilning, en ef hann er með einhvern veikleika - eitthvað kryptónít -  er það sú staðreynd að hann hefur aldrei vitað hvenær hann á að hætta. Óbilandi trú hans á sjálfan sig hefur fleytt honum lengra en flestir aðrir leikmenn hafa komist, en hún á það líka til að koma honum í koll.

Eins og þegar hann hittir illa í fyrstu þremur leikhlutunum og fer inn í þann fjórða 5-23 í skotum. Honum er nákvæmlega sama þó hann ljúki leiknum með 5 af 28. Hann heldur bara áfram að skjóta og trúir því að næsta skot fari ofan í og ekkert minna en það.

Þetta er það sem við köllum hugarfar skyttunnar, en flestar skyttur eru með einhvern vott af samvisku og slá ómeðvitað aðeins af þegar þær eru búnar að klikka á 17 skotum í röð. Reyna þá ef til vill að gera eitthvað annað til að hjálpa liði sínu til sigurs.

Ekki Kobe.

Hvort sem hann er með Heiðurshallarmeðlimi eða Húnvetninga með sér í liði - hann heldur bara áfram að skjóta.

Og það er eitt af því sem gerir Kobe svona ótrúlegan leikmann. Það er ekki annað en hægt að dáðst að því hvað hann er í raun geðbilaður keppnismaður og þá er ótalin sú staðreynd sem flestir ættu nú orðið að vita, að Kobe Bryant er alltaf fyrstur á æfingar og síðastur heim. Hann étur sefur og borðar körfubolta og þá er ótalið það magnaðasta við hann.

Kobe fékk ofurstjörnuhlutverkið nefnilega ekki í vöggugjöf eins og sumir aðrir. Vissulega fékk hann það í vöggugjöf að vera heimsklassa íþróttamaður, en margir gleyma því að Kobe Bryant þurfti að vinna sig upp á þann stall sem hann hefur verið á síðan undir lok síðustu aldar.

Hann kom inn í deildina sem ungur pungur sem vissi ekki neitt og þurfti að berjast fyrir öllu sínu.

Jú, jú, það skaut honum fyrr upp á stjörnuhimininn en ella að spila í Los Angeles. Þannig fékk hann t.d. að spila Stjörnuleik fyrr en hann átti skilið og þannig var hann sömuleiðis í varnarúrvali deildarinnar í nokkur ár eftir að hann hætti að eiga það skilið.

En Kobe vann samt fyrir flestu sem hann hefur fengið upp í hendurnar.

Part af okkur þætti það kannski gott á Kobe ef hann ætti eftir að eiga erfitt uppdráttar í vetur, vera blokkaður hvað eftir annað og hrapa niður í allri tölfræði meðan Lakersliðið sópar botninn á Vesturdeildinni.

En við erum ekki svo mikil kvikindi. Eins og við sögðum, hefur Kobe unnið sér inn mikla virðingu hjá okkur og mörgum öðrum með því að vera alltaf þarna - og alltaf við toppinn.

Menn eins og Kobe Bryant ættu með öllu að leggja skóna á hilluna áður en þeir fara að dala mikið sem leikmenn,  en það er rosalega auðvelt að sitja við skrifborð á Íslandi og segja manni sem er með 30 milljónir dollara í árslaun að hætta bara að vinna af því hann lendir í mótbyr. Kobe myndi eflaust vilja hætta áður en hann verður of gamall í þetta, en áðurnefnt keppnisskap og milljarðarnir sem eru eftir á samningnum hans koma eflaust í veg fyrir það.

Við erum búin að sjá það besta frá Kobe Bryant, það er öruggt mál. En hvort sem þú elskar hann eða hatar, kæmi okkur ekki á óvart þó þú ættir eftir að stilla á leik með Lakers í vetur til að sjá nokkur tilþrif í viðbót frá Svörtu Mömbunni áður en hún hættir að bíta og skríður inn í holuna sína í síðasta sinn.

Þið getið hengt ykkur upp á að við eigum eftir að gera það.

---------------------------------------------------------------

* Leyndarmálið er hugtak sem að hluta er eignað ESPN-pennanum Bill Simmons og fjallar í meginatriðum um það þegar ofurstjörnur finna hið fullkomna jafnvægi milli einstaklingsframtaks og liðsbolta.