Sunday, January 4, 2015

Erfiður áratugur hjá Úlfunum


Hversu líklegt er að við fáum að sjá Minnesota Timberwolves í úrslitakeppninni í vor? Ekki mjög. Raunar eru betri líkur á því að sjá fljúgandi svín keppa í listdansi á skautum í helvíti en að Úlfarnir komist í úrslitakeppnina. Og það er hæpið að breyting verði þar á á allra næstu árum.

Við verðum reyndar að hafa það í huga að það stóð nú aldrei til hjá Úlfunum að fara í úrslitakeppnina í vor. Hugmyndin var að búa til gott körfuboltalið með þeim Ricky Rubio, Kevin Love og Nikola Pekovic. Þið munið öll hvernig það gekk, svona inn á milli ferða á slysó.

Því var hætt við það allt saman, Ástþór seldur og stefnan sett á að byrja upp á nýtt og byggja upp nýtt lið skipað ungum og efnilegum leikmönnum. Í fimmtánþúsund-sjöhundruðfimmtugasta-
ogáttunda skiptið.

Kannski er þetta að verða dálítið þreytt aðferðafræði, en svona er þetta víst hjá Úlfunum og fólkið í Minnesota virðist hafa keypt þetta plan. Að ættleiða hvolpana efnilegu og styðja þá af stað út í lífið. Að byrja enn og aftur upp á nýtt.


En hvað erum við að tuða um Úlfana núna? Nú þegar félagið er í enn einum öldudalnum, aðeins nokkrum mánuðum eftir að það var einn mest spennandi klúbburinn í NBA. Liðið sem allir fylgdust reglulega með og farið var að valda stuðningsmannaframhjáhöldum og vagnhoppi daglega.

Jú, í því sem við fórum að hugsa um efniviðinn hjá Úlfunum, áttuðum við okkur um leið á því hvað þessir strákar eins og Andrew Wiggins eiga óhemju langt í land áður en þeir búa til lið sem einhver þarf að taka alvarlega. Það þýðir að sama skapi að klúbburinn sem hefur verið lengst allra utan úrslitakeppninnar í NBA, þarf enn að bíða eitthvað lengur.

Minnesota hefur nefnilega ekki komist í úrslitakeppnina síðan 2004 og því verða ellefu ár í vor síðan liðið fékk að spreyta sig á alvörunni. Þetta ku vera næstlengsta lægð þessarar tegundar síðan 16 liða úrslitakeppnin var tekin í gagnið með núverandi fyrirkomulagi árið 1984.

Aðeins Golden State getur státað af öðrum eins aulagangi, þegar liðið missti af úrslitakeppninni tólf ár í röð frá árinu 1995 til 2007. Fólk gleymir því kannski í allri gleðinni við Flóann í dag, að Warriors var eiginlega ekki búið að gera neitt annað en gera sig að fífli í rúman áratug þegar það svo loksins komst í úrslitakeppnina árið 2006.

Eins og mörg ykkar muna, var það svo reyndar úrslitakeppni fyrir allan peninginn, þegar liðið gerði sér lítið fyrir og sló efsta lið deildakeppninnar út í fyrstu umferðinni (Dallas, sem vann hvorki meira né minna en 67 leiki í deildakeppninni þann veturinn).

Það hljómar kannski ekkert svakalega langt, þannig, þessi ellefu ár án úrslitakeppni hjá Úlfunum. En bíðið þið bara.

Eruð þið búin að gleyma því hvernig Minnesota var mannað þegar það fór síðast í úrslitakeppni? Og munið þið hverjir mótherjar þess voru? Hafið ekki áhyggjur, við erum hérna til að hjálpa þeim sem muna þetta ekki.

Minnesota-liðið árið 2004 gerði nefnilega miklu meira en að komast í úrslitakeppnina. Það fór alla leið í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar þar sem það þurfti reyndar að láta í minni pokann gegn pappírs-pésunum í Los Angeles Lakers.

Úlfarnir voru með gríðarlega öflugt lið þarna fyrir tíu árum síðan og unnu 58 leiki í deildakeppninni, sem er langbesti árangur í sögu félagsins. Fjögur bestu árin hjá Úlfunum voru árin 2000 (50 sigrar), 2002 (50 sigrar), 2003 (51 sigur) og téð 2004 (58 sigrar).

Minnesota er eitt af yngstu félögunum í NBA deildinni og var ekki stofnað fyrr en 1989. Fyrstu árin í deildinni voru skiljanlega ansi mögur, þar sem liðið var að vinna 15-20 leiki, en svo fór ástandið hægt og bítandi að skána.

Árið 1997 komst það loksins í úrslitakeppnina í fyrsta sinn, en þar rakst liðið á nær óyfirstíganlega hindrun, því það féll úr keppni í 1. umferðinni hvorki meira né minna en sjö ár í röð.

Það eru eflaust skiptar skoðanir um það hvort slíkt á að teljast góður árangur eða gagnslaus meðalmennska.

Sé það meðalmennska, var ekkert slíkt í boði árið 2004, en þá var Minnesota komið með alvöru lið.

Kevin Garnett var á sínum stað í hjarta varnarinnar og var kjörinn Verðmætasti leikmaður deildarinnar út á þessa 58 sigra liðsins og meðaltöl upp á 24 stig, 14 fráköst, 5 stoðsendingar, 1,5 stolna, 2,2 varin skot og 50% skotnýtingu - tölur sem sjást ekki á hverju ári í NBA.

Það var hinsvegar ekki fyrr en þeir Latrell Sprewell og Sam Cassell bættust í hópinn sem Úlfarnir urðu hættulegir. Þar fóru tveir leiðtogar og keppnismenn sem þekktu að spila til úrslita um titilinn.

Eftir að hafa slegið sterk lið Denver og Sacramento út í 1. og 2. umferð úrslitakeppninnar, var röðin svo komin að Los Angeles Lakers, liðinu sem vann þrjá af síðustu fjórum meistaratitlunum og var aukinheldur búið að bæta við sig tveimur verðandi Heiðurshallarmeðlimum í þeim Karl Malone og Gary Payton.

Þó ofurlið Lakers hafi unnið einvígið í úrslitum vestursins 4-2 gefur það kannski ekki alveg rétta mynd af þessari hörkurimmu. Öll alvöru einvígi eru með að minnsta kosti eitt "hvað ef" hangandi utan á sér og þessi rimma er gott dæmi um slíkt. Það var nefnilega svo að Minnesota-liðið gekk ekki heilt til skógar í einvíginu.

Þegar hlutirnir eru skoðaðir í víðara samhengi þýðir auðvitað ekkert að vera að væla yfir einhverjum meiðslum, en það er algjör synd að Sam Cassell hafi nánast ekkert getað beitt sér í eínvíginu við Lakers og það eina sem er meira svekkjandi en það, er hvernig það vildi til að hann meiddist.

Það vill svo skemmtilega til að í haust uppljóstraði Flip Saunders núverandi og þáverandi þjálfari Úlfanna hvernig stóð á því að Cassell meiddist. Og það var nákvæmlega ekkert skemmtilegt við það. Ekki fyrir Úlfana að minnsta kosti.

Það var nefnilega þannig að Cassell meiddist á mjöðm við að dansa Pungdansinn sinn fræga í einvíginu á undan, þegar Úlfarnir gerðu vel í að slá fyrnasterkt Sacramento-lið Chris Webber og félaga út í annari umferðinni.

Sam lét tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur og það er ómögulegt að segja hvað hefði gerst ef hann hefði verið gengið heill til skógar í einvíginu. Þarna var hann upp á sitt allra svægasta og var t.d. nýbúinn að salla 40 stigum á bæði Denver og Sacramento í úrslitakeppninni.

Ómögulegt er að segja hvað hefði gerst ef Cassell hefði ekki drullað svona á sig. Hefði Minnesota getað lagt Lakers með hann í lagi? Og hefði það átt séns í Detroit ef það hefði náð að klára Lakers?

Við fáum aldrei svör við þessu og stuðningsmenn Úlfanna verða því að láta sér nægja að dreyma um þetta "hvað ef" og framtíð unglinganna sem skipa liðið í dag. Þetta er búin að vera löng bið fyrir aumingja fólkið.

Það setur það í perspektíf að hugsa til þess að Karl Malone tók þátt í síðasta leik sem Minnesota spilaði í úrslitakeppni (og var með 10 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar tveimur mánuðum fyrir 41 árs afmælið sitt) og allir leikmennirnir nema tveir (Kobe Bryant og Kevin Garnett) sem spiluðu leikinn hafa lagt skó sína á hilluna.

Við skulum vona að verði ekki svona svakalega langt á milli leikja í úrslitakeppninni hjá Úlfunum í framtíðinni. Megi ungu mennirnir þeirra vaxa og dafna og fylla alla vagna af nýjum og æstum stuðningsmönnum.