Wednesday, January 7, 2015

Veðurspá fyrir Vesturdeildina


Um helgina tókum við stöðuna á Austurdeildinni í NBA og því helsta sem þar var að frétta og þá er ekki annað eftir en að hella sér í sterkari og skemmtilegri deildina í vestri.

Þau ykkar sem eruð hrifnari af Austurdeildinni og liðunum þar eruð örugglega orðin alveg rosalega leið á þessum vesturs-fasisma sem er í gangi hér á NBA Ísland, en það er hætt við því að þið verðið bara að sætta ykkur við hann eitthvað lengur. Vesturdeildin heldur bara áfram að verða sterkari og sterkari.

Ætli við höldum okkur ekki við svipaða aðferðafræði og í síðasta pistli og byrjum í kjallaranum. Þar er reyndar ansi lítið að frétta. Það er tilgangslaust að eyða bleki í lið eins og Úlfana og Lakers, þar er bara ekkert að frétta.

Svipaða sögu er í raun að segja af Sacramento og Denver: Sacramento missti algjörlega flugið þegar DaMarcus Cousins meiddist og fannst svo upplagt að reka þjálfarann í framhaldinu og láta Tyrone Corbin taka við.

Við ætlum að leyfa okkur að fullyrða að forráðamenn Kings eru eina fólkið í veröldinni allri sem fannst þetta góð hugmynd.

Denver heldur áfram að troða marvaðann frekar illa og það eina sem liðið hefur náð að gera vel í vetur er að gera hörðustu stuðningsmenn sína gjörsamlega geðveika.

Þegar hér er komið við sögu, fer sagan að verða áhugaverðari. Í níunda og tíunda sæti í Vesturdeildinni sitja tvö gjörólík lið á ólíkri leið með um það bil 50% vinningshlutfall.

Brúnar og félagar í New Orleans neita að gefast upp og hanga inni í myndinni með sæti í úrslitakeppninni þrátt fyrir alla gallana sem eru á liðinu. Málið er að það er hægt að fylla upp í helvíti mörg göt með leikmanni eins og Anthony Davis.

New Orleans verður mjög líklega á þessu sama róli fram á vorið og er og verður einhverjum breytingum frá því að gera eitthvað í þessari ógnarsterku Vesturdeild.

Hitt liðið í fimmtíu prósentunum er svo Oklahoma City, sem er óðum að komast á beinu brautina eftir hrikalegt meiðslabasl í allt haust.

Ein helsta ástæða þess að við biðum með það þangað til núna að gera Vesturdeildina upp, var sú að okkur langaði að sjá hvað myndi gerast þegar Golden State tæki á móti Oklahoma í Oakland á mánudagskvöldið.

Við tippuðum á að sá leikur ætti eftir að segja okkur mikið um stöðu mála í vestrinu og hann gerði það svo sem, þó hann hafi valdið okkur miklum vonbrigðum.

Við komum meira inn á þennan leik seinna í þessum pistli, en skömmu áður en hann var skrifaður vippaði Oklahoma sér á leikmannamarkaðinn eins og þið munið og fékk til sín vandræðagemsann Dion Waiters frá Cleveland.

Við verðum að segja að við erum ósköp lítið hrifin af þessum viðskiptum. Oklahoma þurfti svo sem ekki að borga mikið fyrir Waiters og vissulega er hann ungur ennþá, en við setjum spurningamerki við hugarfarið hjá honum og í raun almenna getu hans sem körfuboltamanns.

Waiters gekk til að mynda ekkert sérstaklega vel að leika sér með hinum krökkunum í Cleveland, en hann er fyrst og fremst baktrygging fyrir Oklahoma þegar ef Reggie Jackson stingur af í sumar.

Við erum frekar hrifin af Oklahoma eins og þið vitið kannski. Þið vitið líka að þetta er alveg ógeðslega sterkt körfuboltalið þegar það er með aðalleikara sína heila. Heilsan hefur ekki verið til staðar hjá OKC í vetur og þess vegna erum við ekki tilbúin að gefa út eins stórar yfirlýsingar um þetta lið og mörg önnur.

En ef leikur Oklahoma við Golden State á mánudagskvöldið sýndi okkur eitthvað, var það hvað aukaleikarar liðsins eru enn brothættir.

Oklahoma er með aragrúa af löngum og sprækum strákum sem hafa fyrst og fremst það hlutverk að spila vörn og gera það þokkalega.

Gallinn við þessa tappa er hinsvegar sá að það er ekki hægt að treysta þeim til að koma brauðmolunum sem falla af borði Durant og Westbrook til skila. Þessir gaurar geta ekki hitt úr opnum skotum til að bjarga lífi sínu og það er vandamál.

Þetta lið fer ansi langt á lykilmönnunum sínum, en það er rosalega hætt við því að það nái ekki alla leið ef það þarf að treysta á einhverja Derek Fisher-a til að brúa bilið. Það er óskaplega erfitt að teygja á gólfinu með mönnum eins og Andre Roberson, sem er í byrjunarliði Oklahoma þrátt fyrir að hitta ekki einu af hverjum sjö þriggja stiga skotum sem hann tekur.

Vonandi fyrir Oklahoma á Dion Waiters eftir að hjálpa mönnum eins og Reggie Jackson og Anthony Morrow að byggja upp varamannabekk sem getur hangið á núllinu þegar stjörnurnar hvíla sig.

Við ætlum ekki að reikna með neinu frá Waiters að svo stöddu og köllum allt sem frá honum kemur bónus, en í okkar huga liggur mjög stór hluti sóknarábyrgðar Oklahoma í höndunum á Reggie Jackson, sem er ekki búinn að spila alveg nógu vel upp á síðkastið.

 Síðan má Serge Ibaka reyndar alveg fara að læra að læðast inn í teig andstæðinganna oftar en í sautjándu hverju sókn í stað þess að hanga alltaf fyrir utan þriggja stiga línuna.

Ef Warriors-leikurinn á mánudagskvöldið sýndi okkur eitthvað, var það að aukaleikurum Oklahoma er illa treystandi á ögurstundu (þó aðalleikararnir hafi reyndar líka spilað eins og hálfvitar í það skiptið).

Við skulum bíða aðeins með að gefa skýrslu um Oklahoma út af öllu þessu meiðslaveseni, en að okkar mati á þetta lið að vera einn líklegasti meistarakandítatinn í sumar. Það er bara kominn tími á þetta hjá Durant og félögum.

Liðið sem Oklahoma er að reyna að komast upp fyrir þessa dagana er Phoenix (21-16). Suns-menn hafa verið dálítið upp og niður í vetur en eru á þokkalegu róli núna og ætla að láta Oklahoma hafa fyrir því að ná 8. sætinu.

Því miður fyrir Suns er það óleysanlegt verkefni og það er aðeins dagaspursmál hvenær Oklahoma sendir Suns aftur í níunda sætið sem það náði í fyrra. Það er ekki vinnandi í þessari Vesturdeild.

Þegar þetta er skrifað eru meistarar San Antonio (21-15) ekki nema hálfum leik fyrir ofan Phoenix í töflunni eftir ansi slappa frammistöðu í undanförnum leikjum.

Það þýðir ekkert að tapa fyrir liðum eins og Detroit á heimavelli ef stefnan er sett á að tryggja gott sæti í úrslitakeppni.

San Antonio var ekki nema 8-10 í desember og þó enginn fái slag þó Spurs sé ekki að spila vel í janúar, er ljóst að lítið má út af bera í vestrinu ef menn ætla ekki að byrja úrslitakeppnina á útivelli. Það er ekki alveg nógu góður bragur á meisturunum, það verður bara að segjast eins og er - og það óháð meiðslum.

Næst á dagskrá eru Houston (23-11) og Los Angeles Clippers (23-12) sem sitja í fimmta og sjötta sætinu í vestrinu. Það segir sína sögu að lið sem vinna tvo af hverjum þremur leikjum skuli ekki einu sinni vera með heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar ef hún hæfist í dag.

Við höfum svo sem lítið að segja um Houston núna, enda er liðið nokkurn veginn að halda sínu tempói og því að standa sig talsvert betur en við reiknuðum með. Það er náttúrulega rosalega góður árangur að vera að spila betur en NBA Ísland reiknaði með.

Clippers er sömuleiðis á svipuðu róli og áður, en ef við eigum að segja alveg eins og er, er þetta lið samt hægt og bítandi að lækka í áliti hjá okkur.

Það er ekkert persónulegt, við erum líklega bara í fýlu út í Clippers fyrir að standast ekki innistæðulausar væntingarnar sem við gerðum við liðið í haust.

Okkur finnst eitthvað svo stutt síðan Clippers var eitt allra besta lið deildarinnar með besta leikstjórnandann, tvo unga fola í fjarka og fimmu, bullandi dýpt og ljómandi þjálfara.

Vissulega er þetta gott lið og allt það, en þó við getum ekki beint útskýrt hvernig það gerðist, er staðreyndin í dag einfaldlega sú að það er engin breidd í Clippers. Bara ekki rassgat!

Paul og Griffin eru frábærir, Jordan og Redick eru solid í því sem þeir gera og Crawford er eins og hann er, en þar með er þetta bara upp talið hjá þeim.

Menn eru byrjaðir að pískra aðeins um það að kannski ætti Doc Rivers að láta einhverjum öðrum um leikmannamálin og einbeita sér að því að þjálfa. Við erum sammála því, eins auðvelt og ódýrt og það er nú.

Það er langt þangað til úrslitakeppnin byrjar og það getur vel verið að Clippers verði að spila betur í vor, en við verðum bara að segja það eins og er, við höfum einhvern veginn enga trú á þessu liði lengur. Vonandi er þessi tilfinning okkar bara rugl og vonandi verður Clippers frábært í vor, því ekki höfum við neitt á móti þessu liði - ekki halda það.

Memphis (25-9) og Dallas (26-10) sitja á næsta þrepi, nánast jöfn í þriðja og fjórða sæti þegar þetta er skrifað.

Memphis er í einhverju smá fönki undanfarið án Zach Randolph, en ef við teljum saman liðin sem langar að mæta Húnunum í úrslitakeppninni verður niðurstaðan eitthvað í kring um núll.

Áfram höfum við á tilfinningunni að Memphis sé 1-2 mönnum frá því að vera raunverulegur meistarakandídat og erum svo sem ekki ein um þá skoðun. Við skulum bara segja að það verði áhugavert að sjá hvað þetta lið getur boðið upp á í vor.

Sömu sögu er í raun að segja um Dallas. Þar vantar sennilega eitthvað dálítið upp á, en þó enn sé langt í að við fáum endanlega að sjá hvernig Rondo smellur inn í þetta lið, kemur hann nú væntanlega frekar til með að styrkja það en hitt og þá sérstaklega í vörninni.

Einu stóru áhyggjurnar sem við höfum af Dallas eru þær að eftir þessi Rondo-skipti, gæti hreinlega farið svo að liðið þyrfti í alvöru að treysta á að fá framlag frá mönnum eins og Charlie Villanueva.



Og þú vilt það ekki.


Alveg er það fáránlega magnað að Portland (27-8) skuli vera í öðru sæti deildarinnar í janúar. Og ekki bara Vesturdeildarinnar, heldur allrar deildarinnar.

Trúlega hefur það komið fram hérna áður hvað við erum hrifin af leikstjórnanda Portland, hinum smáa en knáa Damian Lillard, en hann er svo sem ekki eini leikmaðurinn hjá Blazers sem er að brillera í vetur.

Liðið er að halda ágætum dampi þrátt fyrir að vera án Robin Lopez og NBA-spekúlantar eru hver af öðrum að standa upp úr skrifborðsstólunum, fórna höndum og segja upphátt: "Portland er alvöru!"

Við erum ekki aaalveg tilbúin að segja að Portland sé Alvöru með stóru A - ekki alveg strax. Við eigum eftir að sjá Portland fara upp úr 2. umferð úrslitakeppninnar áður en við kvittum undir slíkt.

Það er hinsvegar að verða staðreynd að þetta lið er eitt af þeim allra bestu í deildakeppninni og það kemur til af ýmsum ástæðum. Þar má nefna heppni með meiðsli, stöðugleika og fína þjálfun.

Helsta ástæðan fyrir því að Portland er búið að taka skrefið frá því að vera Öskubuskulið eins og á síðustu leiktíð upp í spaðaskap eins og í vetur, er varnarleikurinn.

Við höfum ekki hugmynd um hvernig þjálfarateymi Blazers fór að því, en því hefur tekist að rífa liðið inn á topp tíu í varnarleik eftir að það var langt undir meðallagi á síðustu leiktíð.

Svona stökk eru mjög sjaldgæf, en sagan segir okkur að ef þú nærð að koma klúbbnum þínum vel inn á topp tíu í sóknar- og varnarhagfræðinni, áttu fjandi góðan séns á að ná árangri.

Við skulum bara segja ykkur það alveg eins og er, okkur myndi ekki leiðast það á nokkurn hátt ef Portland tækist að byggja á ljómandi fínu ári sínu í fyrra og taka næsta skref þegar kemur inn í úrslitakeppnina í vor.

Portland er einn af þessum sómaklúbbum í NBA deildinni og á allt gott skilið. Þessir strákar eru búnir að spila saman nokkuð lengi og varamannabekkurinn er (mjög)hægt og bítandi að skána hjá þeim.

Þá eigum við bara eftir að stúdera aðaltöffarana í NBA deildinni - Golden State Warriors (27-5). Ekkert lið er búið að spila eins vel og Golden State í vetur og ekki einu sinni nálægt því, og það þrátt fyrir að næstmikilvægasti leikmaður liðsins sé búinn að vera frá keppni vegna meiðsla í sautján ár í nokkrar vikur.

Golden State er að sprengja alla skala og slá hvert félagsmetið á fætur öðru. Það er skondin tilviljun að skuli ganga svona rosalega vel hjá liðinu nákvæmlega 40 árum eftir að það varð meistari með Rick Barry í fararbroddi og eitthvað þarf að fokkast verulega illa upp hjá þeim ef þeir eiga ekki að slá félagsmetið frá ´76 yfir flesta sigra í deildakeppninni (59).

Nú spyrð þú auðvitað hvernig í ósköpunum standi á því að Golden State sé allt í einu orðið langbesta liðið í NBA deildinni - svona í deildakeppninni, alla vega.

Og auðvitað færðu svar við þeirri spurningu strax.

En það er bara af því þú lest NBA Ísland, auðvitað. Færð hvergi svona þjónustu nema hér.

Margir byrja svarið við spurningunni hjá þjálfaranum Steve Kerr, sem hefur gert svona frábæra hluti með Warriors þrátt fyrir að vera á sínu fyrsta ári sem þjálfari í NBA deildinni.

Kerr hefur vissulega staðið sig vel, en hann á langt í frá allan þjálfara-heiðurinn að velgengni liðsins. Kerr er nefnilega enginn vitleysingur og því gætti hann þess þegar hann tók við liðinu að hafa með sér reynda aðstoðarmenn sem vita hvað þeir eru að gera.

Þar koma fyrst upp í hugann Alvin Gentry (sókn) sem áður þjálfaði Phoenix "við skulum ekki vera að drolla við þetta" Suns og varnargúrúinn Ron Adams sem meðal annars hefur verið á mála hjá Chicago Bulls og Oklahoma City. Þessir herramenn vinna ekki frítt, en það er til marks um metnaðinn hjá nýjum eigendum félagsins að þeir skuli vera tilbúnir að spreða seðlunum þegar kemur að því að halda utan um liðið.

Inni á vellinum er það svo auðvitað hinn óviðjafnanlegi Stephen Curry sem situr í bílstjórasætinu á sportbílnum sem Golden State er búið að vera í vetur. Það er búið að vera magnað að fylgjast með Curry spila í vetur.

Tölfræðin hjá honum er eftir sem áður skuggalega flott (23/5/8/2), en þeir sem fylgjast náið með Warriors vita að tölfræðin gefur ekki tæmandi mynd af því hvað Currry er að gera á vellinum (þó hann sé með eina hæstu +/- tölfræði deildarinnar og liðið sé stundum eins og þorskur á þurru landi þegar hann er á bekknum en ein sú beittasta í NBA-sögunni þegar hann er inni á vellinum).

Nei, það sem við tökum mest eftir varðandi Curry er hvað sjálfstraustið hjá honum hefur farið frá því að vera "hey, ég er oftast besti leikstjórnandinn inni á vellinum og get á góðum degi skotið okkur til sigurs" - yfir í að vera "ég get gert hvað sem mér fokkíng dettur í hug hérna og það er andskotann ekkert sem þú getur gert í því! Shit, hvað ég er orðinn góður!" í flestum leikjum.

Með öðrum orðum, er Curry orðinn fullvaxta MVP-kandídat. Verðmætasti leikmaður deildarinnar verður ekkert kosinn í dag, en ef svo væri, myndi Curry rúlla því upp eins og staðan er núna*

En Curry er ekki eini maðurinn sem er að fara hamförum í þessu Warriors-liði. Við vorum eitthvað búin að fjalla um það fyrr í vetur, en fyrir utan þá þætti sem við höfum þegar talið upp, eru framfarir tveggja leikmanna til viðbótar að vega gríðarlega þungt þegar kemur að aukinni velgengni Warriors í vetur.

Þetta eru Klay Thompson og Draymond Green.

Manstu þegar allir voru að drulla yfir Golden State fyrir að vera ekki tilbúið að láta Klay Thompson fara í fyrirhuguðum viðskiptunum sem áttu að landa Kevin Love til Oakland?

Gott ef við tókum ekki þátt í þeim áróðri. Og hversu nautheimsk lítum við öll út fyrir að vera í dag? Úff.

Klay Thompson hafði fyrir þessa leiktíð verið kallaður ljómandi fínn leikmaður í fátæklegri stöðu skotbakvarða í NBA deildinni.

Það sem hann gerði best var að hitta úr þriggja stiga skotum og spila maður á mann vörn. En þar með var það upptalið og gallarnir í leik hans þóttu á suman hátt vega upp á móti kostunum.

* Manstu þegar Klay Thompson var "handónýtur" skotbakvörður af því hann gat ekki sett boltann í gólfið án þess að fljúga á hausinn eða henda boltanum upp í stúku?

* Manstu hvað Klay var gagnrýndur fyrir að gefa aldrei boltann, bæði af því hann gat það ekki og vildi það ekki?

* Og manstu hvað Klay var bara góður skotmaður en ekkert annað - maður sem réðist sjaldan á körfuna og var almennt nokkurn veginn í ruglinu ef hann var ekki að taka þriggja stiga skot standandi kyrr?

Jæja, þessi Klay Thompson er bara að leika sér á Benidorm eða eitthvað, og í staðinn fyrir hann er kominn splúnkunýr Klay Thompson sem gefur boltann, keyrir á körfuna, póstar upp og er allt í einu hættur að missa boltann í hvert einasta skipti sem hann setur hann í gólfið.

Og fyrir vikið er þetta bara drullu góður Klay Thompson, sem er búinn að hækka sig umtalsvert í ÖLLUM tölfræðiflokkum, þrátt fyrir að spila FÆRRI mínútur en í fyrra. Þetta gerist bara allt í einu. Alveg svona, Jimmy Butler-allt í einu. Magnaður fjandi, svo ekki sé meira sagt.

Annar piltur, sem með sönnum má segja að spili eins og skratti úr sauðalegg á hverju einasta kvöldi, er Draymond Green.

Hann Green vinur okkar átti ljómandi fínar glefsur í deildakeppninni í fyrra eins og þið munið og minnti vel á sig með stórkarlalegum aðgerðum í úrslitakeppninni.

En í stað þess að halda sig við það og halda áfram að vera ungur og vitlaus, hefur hann bara haldið áfram að bæta sig og fá fleiri og fleiri mínútur.

Draymond Green er allt í einu orðinn einn allra mikilvægasti leikmaður Warriors og hefur unnið þá ófáa leikina fyrir liðið í vetur - oft með ólíkum hætti.

Stundum er það varnarleikurinn hans sem leggur grunninn að sigri Dubs, stundum klárar hann leiki með risastórum þristum í fjórða leikhluta þegar Swish-lendingarnir eru ekki í stuði og stundum klárar hann leiki með því að verja skot, stela boltum og hirða sóknarfráköst sem hann átti alls ekki að geta hirt.

Green er búinn að tryggja sér feitan tékka næsta sumar með spilamennsku sinni og er eiginlega búinn að spila allt of vel, því það verður hunderfitt fyrir Golden State að halda honum nema það láti menn eins og David Lee og/eða Andre Iguodala fara til að búa til pláss fyrir hann á launaskránni.

Ætli við verðum svo ekki að gefa Marreese Speights smá kúdós fyrir sína spilamennsku í vetur. Hún gerði það að verkum að liðið saknaði David Lee nánast ekkert þegar hann var frá vegna meiðsla.

Harrison Barnes virðist líka vera hættur við að spila eins og auli eins og hann gerði svo oft í fyrra og svo eru Spútnik-pjakkar eins og Justin Holiday farnir að springa út ofan á allt annað!

Það er ekki hægt að ljúga upp á þetta lið, sem hefur ekki misst taktinn þó það sé búið að vera alveg miðherjalaust (Bogut, Ezeli) í undanförnum leikjum.

En nú styttist í að Andrew Bogut komi aftur og þá verður endanlega EKKERT gaman að spila við þetta Golden State lið.

Eins og við sögðum fyrr í vetur (og allt of snemma, auðvitað), er þetta Warriors-lið einfaldlega orðið það vel mannað og sterkt, að það er engin ástæða til annars en að kalla það alvarlegan meistarakandídat.

Og megi þetta lið komast sem allra allra lengst í úrslitakeppninni í vor, það er ekki eins og sé eitthvað leiðinlegt að horfa á það spila körfubolta!

-------------------------------------------------------------------------------------------------


* - Við lofuðum ykkur víst að minnast á nokkur atriði sem væru að breyta gangi mála í NBA deildinni á einhverjum sviðum. Í austurpistlinum minntumst við á það hvað væru góðar líkur á því að landslagið í úrslitakeppninni gæti orðið ólíkt því sem verið hefur undanfarin ár, en í framhaldi af umræðunni um Golden State Warriors, er einmitt upplagt að tala aðeins um árlega þrætueplið sem er MVP-kosningin góða.

Og það er bara þannig í dag að ef Mest Verðmætasti Pilturinn yrði kosinn í dag, myndi Stephen Curry fara þar með yfirburðasigur.

Formúlan fyrir MVP-valinu er í sjálfu sér dálítið flókin, en í 90% tilvika er það yfirburðamaðurinn í 60 sigra liðinu (efsta liðinu í deildinni, ef það er ekki San Antonio) sem verður fyrir valinu.

Vesturdeildin er svo sterk í vetur að hún er að hóta því að koma sautján liðum yfir sextíu sigrana, en við erum enga stund að skoða hvaða leikmenn eiga raunhæfa möguleika á að vera með í MVP umræðunni miðað við stöðu liðanna eins og hún er í dag.

Austurdeildin er varla með í þessari umræðu af tveimur ástæðum. Liðin þar eru ekki eins sterk og þau í vestrinu og bestu leikmennirnir í bestu liðunum þar eru annað hvort ekki nógu afgerandi í sínum liðum - eða einfaldlega bara ekki nógu góðir (ekki  með nógu góða tölfræði).

Þannig geturðu skoðað lið eins og Atlanta, Chicago, Toronto og Washington, liðin sem eru að toppa Austurdeildina. Aðeins Jimmy Butler (22/6) hjá Chicago kæmi að okkar mati til greina sem MVP kandídat úr þessum liðum. Paul Millsap (17/8/3/2), Pau Gasol (18/11/3/2), John Wall (17/4/10/2) og Kyle Lowry (20/5/8/2) eru voða krúttlegir, en þeir hafa ekkert í þessa umræðu að gera.

Sömu sögu er að segja af LeBron James (25/5/8), sem vissulega er búinn að hlaða upp fínni tölfræði þrátt fyrir að vera nokkuð frá sínu besta í vetur. Málið er bara að Cleveland er ekki búið að vinna nógu marga leiki til að hann geti verið með í umræðunni.

Í vestrinu - eins og í deildinni allri - er Golden State nokkuð örugglega á toppnum, sem er alltaf mjög hjálplegt þegar kemur að MVP-atkvæðum.

Eins og það er nú skondið, kæmu líklega menn eins og LaMarcus Aldridge (23/10) og Damian Lillard (22/5/6) næst til greina á eftir Curry (af því þeir eru með huggulega tölfræði og af því Portland er í öðru sæti í vestrinu).

Þar á eftir kæmi Marc Gasol (20/8/4/2) hjá Memphis. Gasol hefur að margra mati gefið eilítið eftir í varnarleiknum frá í fyrra, en sóknartölfræðin hans er með því besta sem hún hefur verið hjá honum þó hún ætti með öllu að vera hærri.

Aðeins einn leikmaður í viðbót á erindi inn í þessa umræðu ef tekið er mið af velgengni liðs hans og einstaklingstölfræði. Það er James Harden, sem hefur boðið upp á betri tölfræði en flestir leikmenn deildarinnar (27/6/6/2).

Leikmenn eins og Anthony Davis (24/10/3 varin) hafa verið á allra vörum í vetur og ekki af ástæðulausu, en ef við miðum við MVP-módelið sem farið er eftir í NBA deildinni, þyrfti Brúnar að vera með meðaltal upp á 40/20/7 til að eiga raunhæfa möguleika á að vinna þessi verðlaun.

Með öðrum orðum; er það ekki að fara að gerast.

Á sama hátt eru afar litlar líkur á því að menn eins og Russell Westbrook og Kevin Durant nái að blanda sér í þessa baráttu í ljósi þess hvað Oklahoma gekk illa í upphafi leiktíðar - og auðvitað vegna þess hve marga leiki þeir félagar hafa misst úr vegna meiðsla. Stephen Curry þyrfti bókstaflega að taka sér fjögurra vikna frí og detta í það ef Oklahoma-strákarnir ættu að taka fram úr honum.

Það er allt of snemmt að fara að bóka eitthvað, en það er óhemju áhugavert að eftir öll þessi LeBron og Durant-ár, skuli staðan vera þannig í janúar 2015 að Stephen Curry sé líklegasti kandídatinn í að verða kjörinn verðmætasti leikmaður deildarinnar. Meira segja langlíklegastur.

Svona getur verið gaman að fylgjast með hlutunum gerjast í bestu deild í heimi. Þetta er oft ekki lengi að gerast - beint fyrir framan nefið á okkur.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------

P.s. -- Teiknuðu myndunum með færslunni var blygðunarlaust stolið af síðunni http://everyplayerintheleague.tumblr.com/