KR og ÍR buðu okkur formlega gleðilegt ár með tvíframlengdri bombu í DHL-höllinni í gærkvöldi. ÍR-ingar virtust vera búnir að gleyma því að þeir gætu ekkert í körfubolta og áttu í fullu tré við meistarana. Neyðarlegar tilraunir þeirra til að verja forskotið sitt á lokamínútunum í venjulegum leiktíma mistókust algjörlega og KR nýtti sér það. Lokatölur 113-110 fyrir KR.
Það er freistandi að lýsa því yfir að ÍR hafi sýnt okkur að það sé miklu sterkara en staða þess í deildinni segir til um, en það er leikrit sem við höfum öll séð oft áður. Tölfræði-hundarnir fengu sannarlega nóg fyrir peninginn í þessum leik.
Pavel bauð upp á 24 stig, 18 fráköst og 14 stoðsendingar hjá KR - eins og það sé bara alveg eðlilegt - og Matthías Sigurðarson leikstjórnandi Breiðhyltinga hlóð í 29/12/9. Við þökkum strákunum kærlega fyrir þennan nýársglaðning þeirra í tölfræðisafnið og fögnum því að karfan sé aftur farin á fullt á nýju ári.
Það voru teknar einar sjötíu myndir af þessu eins og þið sjáið hérna fyrir neðan. Gjörið svo vel og skoðið þær eins og þið viljið, við vitum að þið farið ekkert illa með þær þó þær séu ómerktar.