Sunday, January 18, 2015
Stjarna er að fæðast í Minnesota
Þið vitið hvað við eigum það til að vera skeptísk á nýliða í NBA deildinni. Þessi vantrú okkar á unga fólkinu stafar af því að við höfum brennt okkur á að trúa einhverju skrumi um háskólaleikmenn sem hafa svo ekki gert neitt nema drulla á sig þegar þeir koma í deild hinna fullorðnu.
Andrew Wiggins var einn af þessum ungu mönnum sem óhemju miklar vonir voru bundnar við. Fólk var farið að líkja honum við LeBron James löngu áður en hann spilaði sinn fyrsta NBA-leik og talað var um að hann væri mesta efni sinnar kynslóðar í súperstjörnu í NBA deildinni.
Heilladísirnar reyndust ekki á bandi Wiggins á fyrstu vikunum sínum í NBA deildinni, því í stað þess að spila með LeBron James í góðu liði í Austurdeildinni, var honum skipt í kuldann í Minnesota í til félags sem er bæði lítið og frægt fyrir að vita ekkert hvað það er að gera.
Æði.
Jæja, það góða við þetta hjá Wiggins var þó að það vantaði ekki spilamínúturnar. Vitað var að Úlfarnir yrðu ekki beint sterkir í vetur, en eins og venjan er á þeim bænum, meiddist megnið af lykilmönnum liðsins strax í haust og því hefur nánast hver sem er getað fengið mínútur hjá Minnesota ef hann á annað borð er með púls.
Það má ef til vill deila um það hvort það gerir Wiggins gott að læra fyrstu skrefin sín í NBA deildinni með gjörsamlega handónýtu liði, en eftir að hafa verið tiltölulega rólegur fyrstu vikurnar á ferlinum, er hann nú heldur betur að minna á sig.
Það er dálítið leiðinlegt fyrir Wiggins að þessi fína spilamennska hans sé til einskis, því ekki vinnur liðið hans leiki.
Það er hinsvegar mjög jákvætt að pilturinn sé að leyfa okkur að skyggnast inn í framtíðina og sýna okkur að ef til vill geti hann staðið undir einhverjum af lofræðunum sem ortar voru til hans í allt sumar.
Við finnum alltaf jafn mikið til með stuðningsmönnum Úlfanna, sem hafa mátt þola gengdarlaust mótlæti og vonbrigði síðustu ár, en nú gæti farið að sjá til sólar hjá þeim ef Wiggins heldur áfram að spila svona eins og engill.
Við skrifuðum þessa stuttu hugleiðingu í tilefni þess að Wiggins átti sinn besta leik á ferlinum í nótt þegar hann skoraði 31 stig, hirti 9 fráköst, gaf 4 stoðsendingar, varði 3 skot og stal einum bolta í óvæntum útisigri Minnesota á Denver.
Við gáfum það í kjölfarið út á Twitter að nú væri Wiggins-vagninn formlega kominn á fulla ferð, enda var mikið talað um piltinn einmitt á þeim miðli í kjölfar þessarar góðu frammistöðu hans.
Sjáðu bara hvað Wiggins er búinn að spila eins og engill í janúar.
Þetta lofar óhemju góðu og verður vonandi til þess að tala stuðningsmenn Úlfanna inn af syllunni sem þeir hafa staðið á að undanförnu. Kannski er bara von í þessu eftir allt saman.
Efnisflokkar:
Andrew Wiggins
,
Nýliðar
,
Timberwolves
,
Úlfarnir
,
Úlfavaktin
,
Wigginsvagninn
,
Þetta er ungt og leikur sér