Saturday, January 3, 2015

Patreksblús


Það er svo stutt á milli í þessu...

Patrick Christopher er lengi búinn að eiga sér draum um að komast í NBA deildina. Búinn að spila í Frakklandi, Tyrklandi og D-deildinni. Hann var á ágætis launum í Evrópu, en ákvað að semja við lið Iowa í D-deildinni til að eiga betri möguleika á að uppfylla drauminn stóra - að spila í NBA.

Christopher hefur m.a. spilað í sumardeildinni með Kings, Grizzlies og Pistons, en hefur alls verið látinn fara frá fimm félögum í NBA sem töldu sig ekki geta notað hann.

Fyrir nokkrum dögum hringdi umboðsmaðurinn í hann og sagði honum að Utah Jazz vildi fá hann. Nú var hann kominn í alvöruna.

Fyrsti leikurinn hans sem NBA leikmaður kom 27. desember sl. og tveimur dögum síðar varð draumurinn svo endanlega að veruleika þegar hann skoraði fyrstu körfuna sína sem NBA leikmaður í leik Jazz gegn Clippers í Los Angeles. Þar spilaði Christopher fyrir framan 50 vini og ættingja frá heimaborg sinni Compton. Rúsínan í pylsuendanum, ef einhvern tímann hefur fundist rúsína í pylsuenda.

Öskubuskuævintýrið hélt svo áfram í nótt, þar sem hann fékk sinn fyrsta leik í byrjunarliði vegna meiðslanna sem hrjá bakverði Jazz.

En þegar fimm mínútur voru liðnar af leik Jazz og Atlanta í nótt...

Búmm!

Lendir illa, snýr upp á sig og fór úr hnjálið.

Game over.

Þeir sögðu að hann hefði verið merkilega brattur inni í klefa eftir þetta, en þetta var ljótt atvik. Liðsfélagar hans litu undan og grettu sig. Voru svo slegnir út af laginu að þeir lentu undir 28-9 í leiknum.

Það er óþarfi að fara í grafgötur með þetta. Þetta var sénsinn hans, en nú er óþægilega líklegt að hann sé farinn, búinn.

Hvar er sanngirnin í þessu?