Monday, January 19, 2015

Aðeins um Russ


Russell Westbrook er dýnamískasti körfuboltamaður í heimi, það er staðreynd. Hann er því alltaf að eignast fleiri og fleiri aðdáendur, sem er hið besta mál, hann á það skilið.

NBA deildin á marga frábæra skemmtikrafta. Undanfarin misseri hafa menn eins og LeBron James og Kevin Durant ekki aðeins látið okkur fá gæsahúð með tilþrifum sínum, heldur hafa þeir aukinheldur barist um titilinn Verðmætasti leikmaður ársins.

Þeir félagar eru hinsvegar ekki efst á listanum að þessu sinni af mismunandi ástæðum og útlit fyrir að nýtt nafn verði ritað á MVP-styttuna góðu í vor.  Tveir menn eru þar oftast nefndir til sögunnar, þeir Stephen Curry og James Harden. Það er réttmætt að okkar mati. Þeir eru tveir af þeim leikmönnum sem hafa skarað hvað mest fram úr í toppliðunum í Vesturdeildinni.

Kevin Durant fellur næstum sjálfkrafa út úr þessari umræðu af því hann er búinn að missa úr nokkuð marga leiki og í raun og veru má segja það sama um hann Westbrook vin okkar.

Strangt til tekið, ætti Westbrook samt að vera með í þessari umræðu, því hann hefur farið hamförum að undanförnu.

Við eigum eftir að sjá til í vor hvað Oklahoma tekst að vinna marga leiki, hvort þeir Russ og KD verða heilir það sem eftir er - og hvort þeir halda áfram að spila svona vel.

Russell Westbrook er búinn að spila sig inn í hjörtu ansi margra körfuboltaáhugamanna og kvenna og skemmst er að minnast yfirlýsingar Kjartans Atla Kjartanssonar í hlaðvarpinu hjá okkur, þegar hann sagði Westbrook að sínu mati besta leikstjórnanda heimsins í dag.

Það má sannarlega rífast um það í margar vikur, en að okkar mati segir það sína sögu um spilamennsku Westbrook að hann skuli vera kominn inn í þessa umræðu. Þar hefði hann ekki verið fyrir tveimur árum síðan.

Hann er gríðarlega umdeildur leikmaður og þeim sem er illa við hann, rækta það hugarfar oft sérstaklega. Þetta er bara öfund og lélegur mórall - ekkert annað.

Við vonum að Westbrook og aðdáendur hans verði ekki sárir þegar við segjum þetta, en hann á því miður aldrei eftir að verða kjörinn MVP í NBA deildinni.

Það er alveg sama hvað Oklahoma vinnur marga leiki og hvað hann setur upp sóðalegar tölur, umdeildur leikstíll hans mun aldrei hljóta náð fyrir augum allra kjósenda.

En það er einmitt leikstíllinn sem gerir Russ að Russ. Hann er allt í senn hamhleypa, atmenni og berserkur sem ræðst linnulaust á andstæðinga sína og sýnir enga miskunn. Það er eins og hann verði aldrei þreyttur og sé bara með einn gír; allt í botni - alltaf!

Vissulega fer hann oft út af sporinu og gerir einhverja bölvaða vitleysu. Hann gerir það í hverjum einasta leik Oklahoma og stundum hvað eftir annað. Stundum kemur þessi klikkun niður á liðinu, við vitum það vel, en okkur er nákvæmlega sama alveg eins og honum sjálfum.

Við erum af gamla skólanum og höldum upp á leikstjórnendur eins og John Stockton og Russell Westbrook gæti ekki verið mikið ólíkari því módeli.

En rétt eins og menn eins og Allen Iverson og Zlatan Ibrahimovic, hefur Russ neytt okkur á sitt band með óbilandi anda sínum, atmennsku og úthaldi.

Það er enginn körfuboltamaður í heiminum eins og Russell Westbrook, ekki nálægt því. Og hvernig er annað hægt en að hrífast af leik hans?

Russ heldur vörnum andstæðinganna alltaf í hálfgerðu kvíðakasti þegar hann kemur upp völlinn með boltann, því hann hótar því í hvert sinn að keyra á körfuna eða taka eitt af sínum margfrægu og glórulausu þriggja stiga skotum. Þessi langskot hans eru kapítuli út af fyrir sig, því hann er kaldari en nokkru sinni fyrir utan línu í vetur. Honum er samt svo gjörsamlega skítsama að það er alveg dásamlegt.

Westbrook hótar því reglulega að ná þrennum, er atkvæðamesti boltaþjófur deildarinnar, treður oft og hrikalega - helst yfir fólk - og á að meðaltali 2-3 atvik í hverjum einasta leik sem á einhvern hátt ögra náttúrulögmálum.Westbrook gerir regluleg klaufamistök, þar sem hann kastar boltanum upp í rjáfur eða tekur glórulaust skot sem grípur ekkert nema loft, allt að tvo metra frá körfunni. En það dásamlega við þetta er að hann bætir alltaf upp fyrir þessi klaufamistök með tilþrifum sem enginn gæti framkallað nema hann.

Sjáðu bara tilþrifin hans undir hálfleikinn í sigri Oklahoma á Golden State á dögunum. Fyrst reyndi hann sitt besta til að koma Draymond Green á sjúkrahús með því að troða yfir hann, en útkoman úr því var vægast sagt spaugileg.Svo átti Oklahoma víti þegar innan við sekúnda var eftir af fyrri hálfleiknum.
Og hvað gerði okkar maður þá?Svona gerir enginn nema Russell Westbrook. Og ertu búin(n) að sjá ruglið sem var troðslan hans á móti Orlando í nótt? Nei, kíktu þá á þetta.Svona góðgæti er alltaf í boði hjá Russell Westbrook og við elskum hann fyrir það. Vissulega er gaman að horfa á félaga hans Kevin Durant raða niður stigunum, alveg eins og LeBron James. Og vissulega er Stephen Curry ekkert minna en stórkostlegur skemmtikraftur - sérstaklega í vetur.

En það toppar enginn Russ þegar kemur að hrárri og óblandaðri skemmtun. Þú veist aldrei hverju hann tekur upp á næst. Það eina sem þú veist er að hann keyrir þetta á fullu gasi og slær hvergi af.

Nei, Russell Westbrook verður aldrei valinn MVP, það er öruggt, en okkur aðdáendum hans gæti ekki verið meira sama. Við viljum bara fá að fylgjast með honum spila körfubolta þrisvar í viku. Það eru algjör forréttindi og hágæða, hágæða, hágæðaskemmtun.