Thursday, December 25, 2014
Josh Smith var rekinn fyrir að vera Josh Smith
Einhver dæmi eru um það í NBA sögunni að félög hafi þurft að rifta samningum við leikmenn og/eða reka þá til dæmis vegna vímuefna- eða agavandamála. Við munum hinsvegar ekki eftir eins hrottalega grófu atriði og því þegar Detroit Pistons tók þá ákvörðun að segja framherjanum Josh Smith að hætta að mæta í vinnuna.
Við höfum oft grínast með það hvað Josh Smith er gjarn á að gera þjálfara sína geðveika og gráhærða með skelfilegu skotvali og slæmri hittni og við - eins og fjölmargir aðrir - spáðum því að grunnt yrði á því góða milli Stan Van Gundy þjálfara og Smith í vetur.
En að maður sem á þrjá komma þrjá milljarða eftir af samningnum sínum sé bara rekinn heim... það eru ekki mörg dæmi um svona lagað, sama hvort um er að ræða körfubolta eða eitthvað annað sport. Þetta er með algjörum ólíkindum og það er eiginlega rannsóknarefni að komast að því hvernig Smith bregst við þessu. Þetta er niðurlæging með stóru enni (af hverju er það þá ekki skrifað með stóru enni?)
Smith átti tvö ár eftir af samningi sínum við Pistons og verður á launaskrá þar næstu árin óháð því hvað hann fær í laun hjá næsta félagi sem hann ræður sig hjá, en hann er reyndar búinn að gefa það út formlega að hann muni ganga í raðir Houston Rockets.
Detroit hefur reyndar nýtt sér ákvæði í reglunum sem kveður á um að félagið megi taka sér lengri tíma í að borga samninginn upp.
Smith fær hann engu að síður borgaðan út upp á krónu með jöfnum greiðslum allt til ársins 2020 og kostar Pistons fimm milljónir dollara af launaþakinu á hverju ári þangað til - þó hann verði löngu farinn frá félaginu og stuðningsmennirnir reyni að gleyma honum.
En hvernig í ósköpunum stendur á því að Detroit tekur til svona róttækra aðgerða?
Nokkrar ástæður liggja þar að baki, en það er ekki af því Smith sé alltaf fullur eða dópaður eða eitraður í búningsklefanum eða alltaf í slagsmálum eða agabrotum innan eða utan vallar.
Eitthvað af ofangreindum vandamálum eru algengasta ástæðan fyrir því að leikmenn eru keyptir út eða samningi þeirra hreinlega rift. Hinsvegar virðist ekkert af þessu eiga við um Josh Smith. Hann var bara rekinn af því hann var Josh Smith.
Stan Van Gundy þjálfari og framkvæmdastjóri Pistons fullyrðir að ástæðan fyrir uppsögninni sé fyrst og síðast tæknilegs eðlis, hún komi ekki til vegna agabrota eða rifrilda.
Sú staðreynd að Stan Van Gundy skuli gegna tvíþættu hlutverki hjá félaginu er nokkuð sérstakt og það er auðvelt að ímynda sér þjálfari sem einnig er framkvæmdastjóri gæti misst sig á smá pávertripp ef einn af leikmönnunum hans er alltaf að fara í taugarnar á honum.
Nei, Stan Van segir uppsögnina fyrst og fremst koma til vegna stefnu félagsins að rækta ungliðahreyfinguna og rétta mönnum eins og Andre Drummond, Greg Monroe og Kentavious Caldwell-Páfa lyklana að Pistons-skrjóðnum.
Afsakaðu Stan, en við kaupum það ekki frekar en sand í Sahara.
Einhver gæti spurt hvað í ósköpunum Josh Smith er yfir höfuð að gera hjá þessu félagi úr því hann olli öllum þessum vandamálum, en sagan segir að það hafi verið eigendur Pistons sem heimtuðu að Smith yrði keyptur - þvert á óskir þáverandi yfirmanns, Joe Dumars.
Dumars drullaði oft á sig þegar hann stýrði leikmannamálum hjá Pistons, en hann ku saklaus af þessu Josh Smith-rugli.
Stan Van Gundy var langt í frá hrifinn af því að vera með Smith í liðinu sem hann tók við á sínum tíma, en ákvað nú samt að gefa framherjanum tækifæri til að sanna sig. Þeirri tilraun lauk svo með tilþrifum í vikunni.
Van Gundy er svo sem ekki að ljúga því að hann sé að byggja upp unga leikmenn hjá Pistons, okkur grunar að það sé fleira en bara mínútur og skot sem Smith hefur verið að taka frá ungliðunum. Okkur grunar að Van Gundy kæri sig einfaldlega ekki um að láta ungu mennina sína læra af reynslubolta sem hefur ekið á röngum vegarhelmingi megnið af ferlinum.
Smith er jú með skelfilegt skotval eins og frægt er orðið, en svo segja menn líka að varnarleikur hans - sem einu sinni var frábær, nota bene - sé svipur hjá sjón og áhuginn á prógramminu sé yfir höfuð orðinn eitthvað lítill. Smith var partur af þokkalegu liði í mörg ár þegar hann var hjá Atlanta, en það er ekki hægt að kalla hann og fyrrum félaga hans í liði Hawks sigurvegara.
Það er tæpt að sigurvegarar séu að skjóta 39% utan af velli, 24% úr þriggja stiga skotum og glórulaus 47% á vítalínunni.
Það sorglegasta við þetta dæmi er að þrátt fyrir allt þetta drama er Smith er framúrskarandi íþróttamaður með myljandi hæfileika.
Skotin hans eru kannski dálítið skökk og illa ígrunduð, en hann kemst þokkalega frá því að gera flest annað á vellinum.
Hann er nefnilega fínn frákastari, ljómandi sendingamaður með góða boltameðferð miðað við stærð og svo var hann á sínum tíma flottur varnarmaður sem stal boltum og varði skot eins og enginn væri morgundagurinn.
Það er eins með Josh Smith eins og svo marga kollega hans í gegn um tíðina. Það er fullt af hæfileikum þarna, en þeir nýtast illa af því þeir eru ekki bakkaðir upp af viljugu hjarta og vel virkum haus.
Bættu svo við þetta slæmum viðhorfum og neikvæðu hugarfari og þú ert komin(n) með uppskrift af körfuboltamanni sem er rekinn úr vinnunni af því hann getur ekki leikið við hina krakkana.
Það getur vel verið að Stan Van Gundy sé gjörsamlega búinn að gefast upp á Josh Smith, en Daryl Morey framkvæmdastjóri Houston Rockets virðist alveg tilbúinn í að gefa honum séns.
Við erum líka tilbúin að gefa honum séns, þó við eigum eflaust eftir að brenna okkur á því. Okkur finnst bara að drengurinn eigi fjandakornið að geta skilað hlutverki sínu með Rockets ef hann getur tekið leiðsögn og gætir þess að hafa þetta einfalt.
Ekkert að gera nema að spila vörn og hirða fráköst á öðrum enda vallarins og láta boltann ganga, hreyfa sig án bolta og keyra annað slagið á körfuna á hinum endanum.
Bónusinn fyrir Josh Smith ef hann fer til Houston er svo að þar hittir hann fyrir einn besta vin sinn Dwight Howard.
Suðurríkjastrákarnir Howard og Smith spiluðu saman á sínum yngri árum og hefur alltaf dreymt um að spila saman í atvinnumennskunni. Nú hefur sá draumur ræst og fregnir herma að Rockets hafi lofað Smith byrjunarliðssæti ef hann skrifar undir.
Það á eftir að koma í ljós hvað gerist þegar þeir vinirnir byrja að spila saman. Vonandi verður það þeim hvatning, en það getur líka alveg farið á hina hliðina. Við höfum áður talað um hvað við setjum stórt spurningamerki við hugarfarið hjá Dwight Howard og nú er að sjá hvort það er eitthvað skárra hjá vini hans Josh Smith.
Við erum á báðum áttum með lið Houston Rockets. Það hefur bæði mikla kosti og stóra galla þegar kemur að áhorfi.
Við sáum fyrir okkur í haust að þetta lið yrði gott í vetur en ekkert mikið meira en það af því það er ekki með neina breidd.
Það gæti hinsvegar verið að við þyrftum að endurskoða þá afstöðu í ljósi þess hve vel allir þessir óþekktu pungar hafa verið að spila með liðinu í meiðslabaslinu undanfarið.
Josh Smith og Corey Brewer (sem Houston fékk frá Minnesota á dögunum) eru alls ekki gallalausir leikmenn, en þeir ættu amk að gefa Houston aðeins meiri breidd en verið hefur.
Vonandi fyrir Houston sýna þeir báðir á sér sparihliðarnar (t.d. með því að sleppa því alfarið að taka þriggja stiga skot, enda gætu þeir ekki unnið Angelu Lansbury í skotkeppni) fram á vorið og tryggja að þetta skemmtilega lið haldi áfram að bæta sig jafnt og þétt.
Efnisflokkar:
Drullan upp á herðar
,
Dwight Howard
,
Joe Dumars
,
Josh Smith
,
Leikmannamál
,
Pistons
,
Rockets
,
Stan Van Gundy