Thursday, December 25, 2014

Leiðindaspá NBA Ísland gekk eftir


Eins og það er gaman að hafa rétt fyrir sér, vakti það enga gleði hjá okkur þegar spá okkar um afdrif miðherjans Anderson Varejao hjá Cleveland gekk eftir.

Í dag var tilkynnt að Brasilíumaðurinn hárprúði væri með slitna hásin og því úr leik með liðinu í vetur.

Nú þarf auðvitað engan Nostradamus til að spá því að Varejao eigi eftir að meiðast og það er að vissu leyti smáborgaralegt að vera að hreykja sér af því að hafa séð svona lagað fyrir. Það er ekki merkilegra fólk en þetta á ritstjórn NBA Ísland. 

Það eina sem kemur á óvart við þetta er að hann hafi spilað 26 leiki í vetur en ekki 25 eins og hefð hefur verið fyrir hjá honum undanfarin ár. 

Það er með hreinum ólíkindum hvað þessi drengur er búinn að vera endalaust óheppinn með meiðsli á ferlinum, ekki síst nú á síðari árum Hérna fyrir neðan sjáið þið að við höfðum aldrei neinar vonir um að Varejao ætti eftir að spila allt tímabilið með Cleveland. Hér er brot úr vörutalningu okkar þann 12. desember síðastliðinn.Við erum ekki ein um að vera svartsýn á möguleika Cleveland næsta vor eftir þessi slæmu tíðindi. Reyndar hafa tölfræðinördar eins og Kevin Pelton hjá ESPN reynt að halda því fram að Varejao hafi ekki verið alveg jafn mikilvægur og við héldum öll. Þetta eru vissulega dálítið óvæntar og áhugaverðar tölur sem Pelton týnir til.

En hvað sem þessum tölum líður, er ljóst að nú er ansi stórt skarð komið í lið Cleveland. Meiðsli Varejao þýða væntanlega að Tristian Thompson fái góðan mínútubónus, hvort sem hann kemur inn í byrjunarliðið eða ekki. 

Thompson er ágætur til síns brúks, en fjarvera Varejao þýðir að nú er varamannabekkur Cleveland orðinn aaansi slappur. Byrjunarliðið er mjög sterkt, en restin er drasl, það er óþarfi að kalla það eitthvað annað. 

Vitað er að forráðamenn Cleveland eru búnir að vera í símanum í nokkrar vikur til að reyna að kokka upp eitthvað sniðugt á leikmanna-markaðnum til að styrkja hópinn og þá hefur
gjarnan verið talað um að stórir menn væru helst í sigtinu. 

Núna er ljóst að miðherjaþörfin hjá félaginu er ekki lengur talsverð, heldur algjör og það er stór munur þar á. Tökum sem dæmi Denver og Memphis, sem eru með miðherja á borð við Timofey Mozgov og Kosta Koufos á sínum snærum. 

Þessir tveir hafa verið orðaðir við Cleveland, en við reyndar skiljum það ekki alveg af því félögin hafa nákvæmlega enga ástæðu til að láta þá fara þar sem þeir gegna báðir mikilvægum hlutverkum. 

En segjum sem svo að þeir væru falir fyrir rétta upphæð. Ef Cleveland hefði hringt í Denver og Memphis í síðustu viku, hefði það kostað Cavs X mikla peninga bara að fá viðmælendur sína til að hlusta á tilboð, hvað þá að ræða félagaskipti af alvöru. 

Ef Cleveland hringir í Denver og Memphis í dag - eftir Varejao tíðindin - verður hlegið í símann. 

Denver og Memphis, eins og öll hin félögin í NBA, vita núna að Cleveland er algjörlega desperat að ná sér í miðherja og því hefur verðið á álitlegum miðherjum farið frá því að vera 3X upp í ekki minna en 7X. 

Einfalda útskýringin er að Cleveland er fögt af því það þarf að ofgreiða gróflega fyrir hvaða stóra mann sem er af því örvæntingarfýlan af félaginu finnst langar leiðir.

Staðan er svo sem ekki vonlaus hjá Cleveland, félagið ætti fjandakornið að geta reddað sér einhverju sjö feta hræi til að standa í miðjunni hjá sér, en það er ekki víst að það verði neinn gæðaleikmaður. Líkurnar á því að hann fylli skarð Varejao eru afar litlar og þá er ótalin sú vinna sem ætluð var miðherjanum sem félagið var að reyna að ná í áður en Varejao meiddist. 

Þetta er skaðræði.

Við erum búin að rífa kjaft í allt haust og lýsa því yfir að það sé ekki séns að Cleveland vinni meistaratitil í vor. Hellingur af bæði bolum og sérfræðingum hefur verið okkur algjörlega ósammála með það og tippa á að LeBron og félagar fari alla leið.

Spurning hvort þeir eru enn svona bjartsýnir. Ekki erum við það.