Saturday, July 5, 2014
Úrkoma í grennd hjá Kobe og Lakers
Kobe Bryant er launahæsti körfuboltamaður í heimi þó hann hafi ekki spilað nema sex leiki á síðustu leiktíð vegna meiðsla og þó enginn viti hvort hann eigi eftir að geta spilað eitthvað nálægt sínum eðlilega leik þegar hann snýr loksins til baka í haust.
Kobe Bryant er með meira en eina milljón króna á tímann alla daga ársins ef við gefum okkur að hann vinni 8-9 tíma vinnudag eins og venjulegt fólk - þó hann geri það auðvitað ekki. Kobe er ekkert venjulegt fólk. Hann er með þrjú þúsund fjögurhundruð fimmtíu og tvær milljónir króna í laun fyrir skatt á þessu ári.
Þegar hann hættir að spila, verður hann kominn vel yfir 300 milljónir dollara á ferlinum, sem þýðir einhverja 34 milljarða króna miðað við gengi dagsins í dag (sem er auðvitað ekki rétt mælt, en okkur er skítsama).
Þetta eru stjarnfræðilegar tölur og við erum eiginlega bara að deila þeim með ykkur af því þær eru svo ótrúlegar. Fólk náttúrulega flissar bara þegar það sér svona tölur á reiknivélinni.
Og svo veistu náttúrulega að sjálfar launatekjurnar hans eru bara hluti af kökunni. Menn eins og Kobe eru með átta til níu stafa tölu samning við skóframleiðendur og svo koma inn í þetta allskonar auglýsingar og spons, sem er líklega hærra en launin hans hjá Lakers.
Þetta er auðvitað algjört bull!
Ein manneskja hefur ekkert við alla þessa peninga að gera.
Hvað sem okkur finnst nú um þessar upphæðir, er ljóst að ef einhverjir körfuboltamenn eiga skilið að fá hærri laun en aðrir, er hann sannarlega í þeim flokki. Hann er einn besti leikmaður sinnar kynslóðar, æfir eins og skepna, fagmaður, gefur alltaf 100% í verkefnið, hann er hjá stærsta félaginu, selur vel, skorar mikið og vinnur einn og einn meistaratitil og reynir þá að brosa aðeins.
Okkur er samt alveg sama hvað þú ert merkilegur, þú hefur ekkert við það að gera að fá milljarða í laun. Það gildir bæði fyrir presta, leikskólakennara, lækna, sprengjuleitarmenn, áhættuleikara og Kobe Bryant.
Los Angeles Lakers er forríkt félag sem getur leyft sér nánast hvað sem er - til dæmis að reka 2-3 þjálfara á ári og borga þeim öllum nokkur ár af launum.
Svona geturðu leyft þér ef þú ert með sjónvarpssamninga upp á milljarða dollara. Eini gallinn við þetta er bara helvítis launaþakið. Það er nóg til af aurum til að spreða út í loftið, en það má ekki eyða þeim!
Ekki nema í Kobe.
Hann einn og sér er með hátt í helminginn af launakvótanum sem leyfður er í NBA áður en félögin þurfa að fara að borga lúxusskattinn. Um 1500 þúsund manns hafa skrifað um það hvað það var vissulega glórulaust þegar Lakers framlengdi samninginn við Bryant um fullt af árum og frilljarða þó hann væri meiddur og aðeins farið að slá í hann.
Stjórn Lakers og Kobe eru sammála um það að þessi samningur sé ekkert nema eðlilegur þó hann sé stjarnfræðilega hár og Bryant er ekki einu sinni farinn að spila upp í hann. Og vitið þið hvað, það er sannleikskorn í því. Prófaðu að taka Kobe út úr myndinni. Ímyndaðu þér að hann sé hættur.
Hver er stjarna Lakers? Hver á að trekkja fólk á leiki? Hver á að selja treyjur?
Það gerir enginn nema Kobe - og það meira að segja þó hann sé meiddur. Svona er þetta nú skrítið allt saman.
En eitt er víst: Bæði stjórn Lakers og Kobe sjálfur vissu og vita mætavel að þetta lið er ekki að fara að gera nokkurn skapaðan hlut meðan félagið er að borga Bryant svona klikkuð laun.
Þú þarft að vera með frábært lið til þess eins að komast í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni og því er ekkert framundan hjá Lakers annað en að tanka og tanka hressilega meðan Kobe er að klára að japla á þessum samningi sínum. Félagið er gjörsamlega í spennitreyju launaþakslega ef við miðum við það að til standi að setja saman alvöru körfuboltalið - sem vissulega er alltaf stefna Lakers.
Lakers er KR.
Félagið er reyndar ekki með nema 2-3 leikmenn undir samningi, en þeir Kobe og Nash, sem voru mest í jakkafötum á síðustu leiktíð, eru með þrettánfalda verga þjóðarframleiðslu Finnlands í árslaun og því er svigrúmið ekkert allt of mikið (til að byggja upp lið sem ætlar að vinna titla).
Lakers er aðeins að míga utan í menn með lausa samninga, menn eins og ´Melo, en það virðist ekki skipta miklu. Hugmyndin um að ganga í raðir Lakers í dag er eins og að fara samtímis í ristilspeglun og deyfingarlausa rótarfyllingu.
Það er alltaf jafn skrítið þegar Lakers er í ruglinu. Þetta félag hefur verið eins og jarðýta allar götur frá því það flutti til Englaborgarinnar frá Minneapolis árið 1960. Það hefur aldrei verið vandamál að byggja upp meistaralið, af því félagið hefur mikla sögu og mikið aðdráttarafl. Margir vilja spila í Los Angeles og stundum er eins og Lakers geti valið sér stórstjörnur eftir hentugleika.
En núna er komið smá babb í bátinn hjá þeim og hefur verið frá því að liðið vann titilinn árið 2010. Við höfum áður skrifað um þetta reiðarslag sem Lakers varð fyrir þegar Dwight Howard ákvað að fara þaðan. Það var í fyrsta skipti (svo við vitum) sem stórstjörnu þótti ekki boðlegt að spila fyrir Lakers og færi frá félaginu. Reyndar verðum við samt að setja þetta dæmi innan sviga, því Dwight Howard er vitleysingur.
Þetta var samt dálítið neyðarlegt dæmi. Munið þið eftir risastóru auglýsingunum sem þöktu heilu bygginarnar og sögðu "Ekki fara, Dwight!"
Hræðilegt. Glatað. Félag eins og Lakers leggst ekki svona lágt og á ekki að skríða fyrir nokkrum leikmanni - allra síst klósettköfurum eins og Dwight Howard. Allir eiga að vilja spila fyrir Lakers, eða svona næstum því allir.
Nú er hinsvegar ekkert svoleiðis í boði. Nú er bara að bíða. Horfa á meidd gamalmenni í bland við D-deildarmenn reyna að spila körfubolta næstu misseri. Það á eftir að reyna á taugarnar hjá hörðustu stuðningsmönnunum og enn meira á bolinn, sem nennir ekki á Lakers-leiki ef Robert Sacre er stærsta nafnið sem kemur inn á völlinn.
Hollusta er nánast útdauð í nútímaviðskiptum, en þó samningurinn hans Kobe Bryant sé algjört rugl, finnst okkur krúttlegt að forráðamenn Lakers hafi ákveðið að sturta peningum yfir hann áður en hann hættir.
Nóg er til af peningunum og Bryant er ein skærasta stjarna sem spilað hefur fyrir félagið - og það eru engir skussar sem hafa spilað fyrir Lakers eins og þið vitið.
Það er gaman að sjá að Texas-veldin Dallas og San Antonio hafa líka bæði ákveðið að gera vel við stórstjörnurnar sínar Dirk Nowitzki og Tim Duncan.
Þeir eru báðir á síðustu metrunum þó þeir séu vel brúklegir auðvitað, en þeir láta sér nægja að spila fyrir um það bil þrisvar sinnum minni pening en Kobe af því þeir vilja gefa félögum sínum eftir pláss til að semja við fleiri góða leikmenn.
Kobe vinur okkar virðist ekki hafa neinar stóráhyggjur af þessu, en það er svo sem algjörlega hans mál. Við vonum helst af öllu að hann nái góðri heilsu á ný svo hann geti lagt skó sína á hilluna án þess að vera á hækjum. Hann á að eiga eitthvað smá inni, a.m.k. sóknarlega og gæti til dæmis dundað sér við að reyna að slá einhver stigamet í öllum tapleikjunum sem framundan eru.
Stuðningsmenn Lakers hafa verið ofdekraðir nánast sleitulaust síðustu áratugi, en nú blasir við þeim annar og kaldari raunveruleiki. Nú þurfa þeir að þjást aðeins og tapa aðeins alveg eins og venjulegu liðin. Það hlýtur að vera hundfúlt fyrir stjórn Lakers að sitja svona á biðstofunni, en þetta er þeim sjálfum að kenna. Svona vilja menn hafa þetta.
Líklegt má teljast að eitthvað fari nú samt að rofa til hjá Lakers á næstunni, en sem stendur borgar sig eiginlega frekar fyrir félagið að halda áfram að tapa aðeins lengur og sjá svo til þegar Kobe losnar undan samningi og hákarlar eins og Kevin Durant verða með lausa samninga.
Ef Lakers heldur í hefðina, mun það finna leiðir til að lokka þá bestu til sín. En ef félagið heldur áfram að stama og stauta eins og það hefur gert undanfarin ár, förum við fyrst að hafa áhyggjur af Lakers.
Það að hafa áhyggjur af Lakers hefur hingað til verið eins og að hafa áhyggjur af því að Superman meiði sig ef hann hleypur á hurð en það verður forvitnilegt að sjá hvernig Buss-börnunum, eigendunum, gengur að tækla það að fylla skarð föður síns.
Það gerir sennilega enginn.
----------------------------------------
P.s. - Við gerum okkur grein fyrir því að þessi pistill er algjörlega óskipulagt þvaður í allar áttir. Vonandi takið þið það ekki inn á ykkur. Þetta er svona þankalaus þúfnalúra.
Efnisflokkar:
Allt er vænt sem vel er grænt
,
Blökkumaður fær borgað
,
Kobe Bryant
,
Lakers
,
Launamál
,
Leikmannamál
,
Meiðsli
,
Rólegur
,
Sýndu mér peningana
,
Úrvalsleikmenn