Thursday, June 19, 2014

NBA Ísland skoðar framtíðarhorfur Miami Heat


Eins gleðilegt og það er nú að krýna nýja NBA meistara á hverju ári, þarf einhver því miður einhver að tapa líka. Og þegar einhver tapar á stóra sviðinu, þarf að sjálfssögðu að finna blóraböggul. Það er inngróin og rík þörf hjá flestum okkar, þó hún sé sjaldnast sanngjörn.

Þið sem sáuð úrslitaeinvígi San Antonio og Miami þetta árið, vitið að það var sannarlega ekkert eitt sem réði því að San Antonio vann rimmuna. Það var frekar allt. Lið Spurs var einfaldlega miklu, miklu betra og því fór sem fór.

Það þýðir þó ekki að við getum ekki litið yfir farinn veg hjá Miami og reynt að kenna skella skuldinni á einhvern. Það er svo auðvelt, ódýrt, ósanngjarnt og skemmtilegt. Það er hægt að benda á margt og marga þegar kemur að Miami. 
Það væri hægt að benda á að leikstjórnendur liðsins gátu ekki hitt úr skoti til að bjarga lífi sínu í úrslitaeinvíginu (Chalmers 33% og Cole 31%) og svo væri náttúrulega klassík að benda á það hvað Chris Bosh var mikil kisa eins og venjulega með sín 14 stig, 5 fráköst og jafn mörg varin skot og Ray Allen (eitt).
En við ætlum að freta á augljósasta skotmarkið - Dwyane Wade.

Það er ekki gott að segja hvað á að gera við þann mann, hann er búinn að vera til nánast eintómra vandræða síðustu tvö ár eða meira og þeir eru ófáir dálksentimetrarnir á þessu vefsvæði sem skrifaðir hafa verið um frammistöðu hans.

Áður en lengra er haldið, þykir okkur nauðsynlegt að taka það fram að við elskum Dwyane Wade og höfum alltaf gert. 

Wade er að okkar mati einn af fimm bestu leikmönnum sem spilað hafa stöðu skotbakvarðar í NBA og það er ekki dónalegt af manni sem er ekki nema 194 sentimetrar á hæð og getur ekki hitt úr þriggja stiga skoti til að bjarga lífi sínu.

Wade var satt best að segja afleitur í einvíginu við San Antonio. Sóknartölurnar hans voru lélegar á hans mælikvarða, aðeins 15 stig í leik, 2,6 stoðsendingar, 44% skotnýting (þar af 7 af 25 í leikjum fjögur og fimm), 69% vítanýtingu og fjóra tapaða bolta að meðaltali. Og þá erum við enn ekki farin að tala um það versta hjá honum, en það var varnarleikurinn. Wade var svo slakur, áhugalaus og slappur í varnarleiknum að einhver sá fulla ástæðu til að gera sérstakt youtube-myndband um það.


Þeir sem hafa fylgst vel með í NBA síðasta áratuginn vita hvar vandræðagangurinn á Wade á upptök sín. Hann hefur reyndar alltaf verið hálfgerður meiðslakálfur, en það sem er að leggja feril hans í rúst í dag á rætur sínar að rekja aftur til þess þegar hann var að koma inn í deildina. 

Hann var þá að glíma við sömu hnémeiðsli og hrjáðu Russell Westbrook á sínum tíma, en í staðinn fyrir að taka skynsamlega á málinu strax þá, var tekin sú ákvörðun að fara auðveldari (fljótari) leiðina út úr málinu og fyrir vikið hefur hnéð á honum ekki verið til friðs síðustu ár. 

Eða það segir sagan.

Hvort svo sem þetta er mergurinn málsins eður ei, er ljóst að þetta hnévesen + allt hnjaskið sem Wade hefur orðið fyrir á árum sínum sem árekstrabrúða í teigum andstæðinganna, hefur gert það að verkum að Wade er nú einn elsti 32 ára gamli íþróttamaður heims ef tekið er mið af álagi og hnjaski sem þeir hafa orðið fyrir á löngum ferli (aðeins Greg Oden (84) og Brad Friedel (77) eru eldri).

Við hikum við að slá menn og málefni út af sakramentinu svona skömmu eftir að 54 ára gamalt San Antonio liðið er nýbúið að nota tíunda lífið sitt til að vinna meistaratitil. Það er ekki beint til að vekja einhverja bjartsýni að skoða hvernig Wade hefur ekki fúnkerað síðustu misseri.

Hann er til að mynda búinn að lækka í stigaskori fimm ár í röð og er alltaf að spila minna og minna. Í vetur spilaði hann ekki aðeins fæstar mínútur í leik á ferlinum (32,9), heldur spilaði hann aðeins 54 leiki. Megninu af þessum leikjum lét félagið hann sleppa til þess eins að spara á honum lappirnar og þurfti hann til dæmis aldrei að spila tvö kvöld í röð.

Þegar Wade spilaði svo sinn ökónómískasta bolta í úrslitakeppninni, þótti mönnum ljóst að þessi sparnaðaráætlun Miami með Wade hefði verið gargandi söxess. 

Það var áður en lokaúrslitin byrjuðu, en þá var sem allur vindur væri úr okkar manni.

Það getur komið fyrir alla leikmenn að detta í smá óstuð í sóknarleiknum, en það var reyndar ekkert slíkt sem kom fyrir Wade, nema kannski í tveimur síðustu leikjunum. 

Það sem plagaði Wade var eitthvað allt annað og ef þú spyrð okkur, var hann bara búinn á því. Hann var að láta verja frá sér hvert skotið á fætur öðru, bæði sniðskots- og troðtilraunir og þessi hefðbundnu sirkusskot hans í kring um körfuna sem hann hefur lifað á allan sinn feril. 

Hann var seinn, kraftlaus og spilaði eins og hann væri með sprungið á tveimur hjólum. Það var alltaf einhver með lúku eða lúkur í öllum boltum frá honum, sama hvort hann var að skjóta eða senda og svo var hann hvað eftir annað kastandi boltanum frá sér eitthvað upp í stúku.

Sóknarleikurinn hjá honum var áberandi vandræðalegur og hikandi, sjálfstraustið virtist horfið í síðustu leikjunum tveimur og svo var varnarleikurinn alveg kapítuli út af fyrir sig eins og þið sjáið kannski í myndbandinu hérna fyrir ofan. Þ

að var sumsé bæði eins og að líkaminn á honum neitaði að fúnkera og að hann hefði hvorki getu né nennu til að spila einvígið við Spurs eins og menn spila úrslitaeinvígi - á 100% keyrslu.

Þessa dagana er mikið skrifað um hvað komi til með að taka við hjá Miami og þó það nú væri, því nú er komin upp sú staða að stjörnurnar þrjár hjá liðinu geta farið að endurskoða samningamálin sín hjá félaginu. 

Það kemur væntanlega í ljós á næstu dögum hvort að menn eins og LeBron James og Dwyane Wade ákveða að sitja út samninga sína eða freista þess að losna undan þeim og kanna jafnvel aðra kosti. Vissulega vegur það langþyngst hvað verður með LeBron James, hann er jú besti körfuboltamaður í heimi og Miami getur gleymt því að ætla sér að keppa um titla ef hann ákveður að fara eitthvað annað þegar færi gefst.

En ef við gefum okkur nú að þetta fari allt saman eftir bókinni með James (og það er langlíklegasta niðurstaðan), hvað á félagið þá að gera í sambandi við Dwyane Wade? 

Hann er í sjálfu sér skærasta stjarnan í sögu félagsins, því hann hefur spilað þar allan ferilinn og hann var maðurinn á bak við fyrsta meistaratitil þess og raunar alla þrjá auðvitað. Menn eins og Wade sem hafa verið þungamiðjan í sögu félags í svona langan tíma vega eðlilega þungt þegar kemur að því að taka svona stórar ákvarðanir.

Því hefur verið velt upp í fjölmiðlum að þremenningarnir James, Wade og Bosh gætu átt eftir að tala sig saman eins og þeir gerðu þegar þeir ákváðu að leiða saman hesta sína í Miami á sínum tíma.

Þeir myndu þá ákveða að taka jafnvel allir á sig að skrifa undir öllu lægri samninga en ella til að hægt verði að búa til pláss fyrir t.d. eina stjörnu í viðbót eða kannski tvo góða leikmenn til að styrkja liðið.
Gallinn er að þessi rómantík lítur rosalega vel út í blaðagrein, en raunveruleikinn er allt annar. Við höfum jú séð lykilmenn San Antonio gera þetta, þeir hafa viljandi skrifað undir aðeins lægri samninga en þeir hefðu faktískt geta fengið til þess að forráðamenn Spurs geti styrkt liðið. 

Það var út af svona fórnfýsi sem liðið gat t.d. náð í menn eins og Boris Diaw, sem reyndust þyngdar sinnar virði í gulli. O.k., Boris Diaw er kannski ekki þyngdar sinnar virði í gulli, en þú fattar hvað við erum að fara með þessu.

Þessi hugmyndafræði er þó talsvert flóknari þegar kemur að Miami, til dæmis vegna þess að menn eins og LeBron James eru á hátindi ferilsins og vegna þess að menn eins og Wade gætu hér verið að skrifa undir síðasta "alvöru" samninginn sinn á ferlinum.

Þið munið hvernig samningurinn sem Kobe Bryant skrifaði undir hjá Lakers leit út - samningurinn sem hljóðaði upp á nítjánföld fjárlög Noregs en Kobe er ekki byrjaður að spila fyrir, að hluta til af því hann er að verða áttræður og af því hann er búinn að vera meiddur allar götur síðan.

Ef Miami ætlar í einhvern svona rausnarskap handa Dwyane Wade til að þakka honum fyrir vel unnin störf (og það er vissulega falleg hugsun og sjaldgæf í viðskiptalífinu), getur Miami hinsvegar gleymt því að vinna fleiri titla.

Við sáum það svart á hvítu í úrslitaeinvíginu að þó þú eigir séns á að vinna Austurdeildina með þokkalega góðri Bridge-sveit frá Blönduósi, eru liðin í vestrinu það sterk að Miami á líklega litla möguleika á að vinna titilinn á næsta ári nema styrkja sig verulega.  Þetta verður talsverður hausverkur, en við treystum Pat Riley til að takast á við hann. 

En eins og við sögðum áðan, höfum við mestar áhyggjur af Dwyane Wade og strangt til tekið, koma þær laununum hans ekkert við. 

Það er nefnilega þannig að sama hvort Wade verður að spilia fyrir 20+ milljónir dollara á næstu árum eins og núna eða fyrir algjört klink (ekki að fara að gerast), þá snýst málið alltaf um það á endanum hvort hann getur spilað körfubolta eða ekki. 

Og eins og staðan er í dag, sjáum við bara ekki fram á að Dwyane Wade sé að fara að spila nógu góðan körfubolta á næstu árum til að hægt sé að vinna með því meistaratitil.

Þið hafið öll heyrt orðróminn um Carmelo Anthony til Miami, en hann er álíka líklegur og að Hlynur Bæringsson sé á leiðinni í Hött. Það er alveg hægt, svona fræðilega, en fyrir utan þá miklu launalækkun sem lykilmenn Miami þyrftu að taka á sig - þyrfti ´Melo að taka á sig tugmilljón dollara lækkun og það er ekkert að fara að gerast. 

Og þá látum við það alveg liggja milli hluta hvort Miami er eitthvað líklegra til að vinna meistaratitla ef það fengi Anthony í sínar raðir.

Já, það eru aldeilis stórar ákvarðanir fram undan hjá Pat Riley og félögum. 

Við eigum eftir að sjá hvað stjörnurnar ákveða að gera í framtíðinni.

Við eigum eftir að sjá hvað menn eins og Ray Allen gera og Shane Battier er hættur. 

Og svo eru menn eins og Mario "hvað meinarðu með því að ég hafi spilað mig inn í Dómínósdeildina næsta vetur með spilamennsku minni í lokaúrslitunum" Chalmers með lausa samninga.

Fyrir utan stóru spurninguna með LeBron James, hangir framtíð Miami Heat hinsvegar öll á herra Heat - honum Dwyane Wade. Ef hann gæti til dæmis skellt sér til Þýskalands í eins og eina Kobe-meðferð, létt sig um 10 kíló, sloppið við fleiri meiðsli, tekið gott sumarfrí og reynt að finna aftur hjá sér áhugann á því að spila körfubolta, er aldrei að vita hvað gerist hjá Miami næstu 1-3 árin.

Ef þetta lið ætlar hinsvegar að keppa um titilinn með nánast óbreyttan mannskap og Wade í sama ástandi og hlutverki og nú í vor, geta Sólstrandargæjarnir alveg gleymt því að búa til pláss fyrir fleira bling-bling á puttunum á sér. 

Það er bara þannig.