Wednesday, June 18, 2014

Kawhi á forsíðu SI


Krúttið Kawhi Leonard hjá San Antonio fékk að prýða forsíðu Sports Illustrated eftir að hafa verið kjörinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitaeinvígisins milli San Antonio og Miami. Eins ánægður og Leonard er með titilinn sinn, hefur hann algjöra óbeit á allri athyglinni sem góður leikur hans í úrslitunum hafði í för með sér. Drengurinn er álíka athyglisjúkur og John Stockton, sem þýðir að hann hann er svipað spenntur fyrir sjónvarpsviðtölum og rótarfyllingum og ristilspeglunum.

Það er freistandi að spá því að Leonard eigi eftir að taka stórt stökk núna og verða einn fyrsti kostur San Antonio í sóknarleiknum. Við skulum samt ekki missa okkur alveg í þeim væntingum.

Margir spáðu því að Leonard tæki slíkt stökk eftir fínan leik í lokaúrslitunum í fyrra, en hann bauð ekki upp á neitt slíkt nema þá helst í lokaúrslitaeinvíginu. Þar skoraði hann 20+ stig í þremur leikjum í röð í fyrsta skipti á ferlinum og valdi sér óhemju heppilegan tíma til að gera það.

Við óskum þessum strák auðvitað alls hins besta í framtíðinni, en þó hann hafi verið einn besti maður lokaúrslitanna, er þó ekki víst að hann sé kominn til að vera stjörnuleikmaður.

Það er hinsvegar ljóst að í honum er San Antonio með ógnarsterkt vopn, sem með öllu ætti aðeins að verða sterkara eftir því sem Gregg Popovich nær að lemja hann áfram og fá hann til að fatta hvað hann getur gert sem sóknarleikmaður ef hann hefur trú á því sjálfur.

Það er kannski til marks um það hvað við erum neikvæð og leiðinleg að við skulum minnast á það, en það eru áratugir síðan að besti leikmaður lokaúrslitanna var með tölfræði sem féll eins mikið inn í fjöldann. Tölurnar hans Kawhi voru ekkert rosalegar, en þú mátt ekki gleyma því að drengurinn vann líka mjög gott starf á varnarenda vallarins.

Sú staðreynd að að Leonard hafi verið kjörinn leikmaður lokaúrslitanna segir samt mest um liðsheildina hjá San Antonio. Það hefði alveg verið hægt að gefa Duncan, Parker, Manu og meira að segja Boris Diaw atkvæði í þessu, en margir eru hreinlega þeirrar skoðunar að það hafi verið Gregg Popovich sem var maður úrslitanna. Og því erum við innilega sammála.

San Antonio er með hörkulið, en það sem Popovich er búinn að gera með þennan mannskap undanfarin tvö ár er sögulegt - ekkert minna en það.