Tuesday, July 31, 2012

Milljarðamæringurinn í Minnesota


Eins og flestir sem fylgjast með NBA deildinni vita, hefur Minnesota ákveðið að gera tveggja ára samning við rússneska framherjann Andrei Kirilenko.

Rússinn langi er aftur er kominn til Bandaríkjanna eftir að hafa skotist til Moskvu í eitt ár.

Úlfarnir ætla að bjóða honum níu milljónir dollara í árslaun, svo ljóst er að Kirilenko verður á allt of háum launum út ferilinn.

Kirilenko fór hamförum í Evrópu á síðustu leiktíð svo ætla má að hann hafi endurheimt megnið af svæginu sem gerði hann að einum fjölhæfasta leikmanni NBA deildarinnar á sínum tíma.

Eftir frábæran vetur árið 2004 ákvað stjórn Utah Jazz að Kirilenko, sem var alltaf að bæta sig, yrði maðurinn sem tæki við kyndlinum af Stockton og Malone og gaf honum allt of stóran samning sem hann stóð aldrei undir.

Kirilenko er stórkostlegur leikmaður þegar hann spilar fyrir Rússa og hefur meira að segja unnið einn stóran titil með liðinu. Vissulega átti hann sína spretti í NBA líka, þar sem hann gladdi tölfræðinörda m.a. með sínum frægu 5x5 leikjum og þrennum.

Kirilenko spilaði í tíu ár með Utah Jazz og hvern einasta leik sinn undir stjórn Jerry Sloan. Samskipti þeirra tveggja voru oft á tíðum ansi mislukkuð, sérstaklega á seinni árunum, og einu sinni gekk það svo langt að Kirilenko fór bókstaflega að grenja undan þjálfara sínum.

Utah spilaði alltaf mjög kerfisbundinn sóknarleik undir stjórn Jerry Sloan og þó Kirilenko hafi á suman hátt verið afar mikilvægur í þessu sýstemi, var hann líka á margan hátt ómögulegur í því.

Hann þarf að fá lausan tauminn til að geta notið sín og það var einfaldlega ekki í boði hjá Jazz á seinni árum, þar sem Deron Williams, Carlos Boozer og Mehmet Okur voru fyrstu kostir í sóknaraðgerðum.

Við höfum horft á fleiri leiki með Andrei Kirilenko en þú. Þess vegna roðnum við ekki við að skjóta fram eftirfarandi fullyrðingum.

Ef Kirilenko hefði spilan einhvers staðar annarsstaðar en í Utah, hefði hann orðið margfaldur stjörnuleikmaður í stað þess að spila þennan eina sem hann gerði árið 2004.

Ef Kirilenko hefði spilað undir stjórn t.d. Don Nelson, hefði sá gamli bara afhent Rússanum lyklana að Warriors-Volgunni og leyft honum að botna kvikindið.

Í kaosinu hjá Nelson, er óhætt að fullyrða að við hefðum séð meðaltöl upp á 18 stig, 9 fráköst, 6 stoðsendingar, tvo stolna og tvö varin skot. Og þetta er varlega áætlað. Það má vel vera að hann hefði verið með enn betri tölur. Þér er óhætt að fara með þetta í bankann.

Hann Andrei vinur okkar stendur aldrei undir því að vera með milljarð króna í árslaun og hann á eftir að missa úr sína hefðbundnu 15-20 leiki á ári vegna meiðsla.

Við höllumst samt að því að hann eigi eftir að hjálpa Minnesota töluvert - og þá ekki bara af því hann er með húðflúr sem minnir á innyfli úr dílaskarfi á sterum.

Rick Adelman mun vonandi gefa Kirilenko slakan taum þegar hann kemur inn af bekknum í vetur og hafi Minnesota verið Spútnik/League Pass lið ársins í fyrra - verður það enn skemmtilegra í vetur.

Þegar þú ert með leikmenn með jafn næmt auga fyrir spili og Ricky Rubio og Andrei Kirilenko, gæti útkoman orðið eitthvað alveg sérstakt.

AK-47 kemur svo auðvitað fyrst og fremst með varnarleik inn í lið Úlfanna og ekki er vanþörf á því. Hann er sérfræðingur í að verja skot þegar hann læðist inn af veiku hliðinni og hreinsar til við hringinn. Vænghaf hans er endalaust og hann hefur nef fyrir boltanum - bæði að stela og verja.

Það er freistandi að spá því að Kirilenko muni slá í gegn hjá Úlfunum í vetur og jafnvel blanda sér í baráttuna um nafnbótina varamaður ársins (ef Minny notar hann rétt). Hann mun berjast við ökkla og bakmeiðsli í allan vetur eins og venjulega, en það er það eina sem við komum auga á sem ætti að aftra honum frá því að eiga eðalvetur hjá Úlfunum.

Okkur þætti það að minnsta kosti ekki leiðinlegt.