Sunday, June 26, 2016

Af framtíðaráformum Kevin Durant og Oklahoma


Nú þegar nýliðavalið árlega er afstaðið, geta NBA-miðlar í Bandaríkjunum nú einbeitt sér að ekkifrétt sumarsins, sem snýst um Kevin Durant og framtíðaráform hans á atvinnumarkaði. Þið vitið hvað við erum rosalega spennt fyrir svona skrumi, eða hitt þó heldur.

En rétt eins og aðrir NBA-miðlar, erum við hér á NBA Ísland með lesendur sem eru sumir hverjir forvitnir um svona mál og því verðum við að reyna að koma til móts við þá. Okkur leiðast kannski ekkifréttir um félagaskipti eða ekki félagskipti NBA leikmanna, en við erum bæði með hugmyndaflug og skoðanir, þannig að kannski er upplagt að við leggjum okkar lóð á vogarskálarnar í þessu leiðindamáli. 

Við segjum leiðindamáli, af því þetta skrum í kring um Durant er og verður eitt stórt leiðindamál og ekkifréttir þangað til hann gerir upp hug sinn, en þá verður ákvörðun hans frétt í einn eða tvo daga áður en allir steingleyma henni þangað til hann verður með lausa samninga næst.

Eins og flest ykkar vita líklega, hafa forráðamenn Oklahoma City ekki setið auðum höndum síðan liðið þeirra var slegið út úr keppni á sársaukafullan hátt í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar um daginn. Segja má að þeir hafi stolið senunni kvöldið sem nýliðavalið fór fram, þegar þeir ákváðu að ráðast í stórviðskipti á leikmannamarkaðnum.



Þannig ákváðu Oklahoma-menn að skipta framherjanum Serge Ibaka til Orlando Magic í staðinn fyrir framherjann Ersan Ilyasova, bakvörðinn Victor Oladipo og framherjann unga Domantas Sabonis sem Orlando tók fyrir þá númer ellefu í nýliðavalinu síðar um kvöldið. Sabonis þessi er af ákaflega góðum körfuboltaættum eins og flest ykkar vita líklega, en hann er sonur miðherjans Arvydas Sabonis sem lék með Portland Trailblazers á árunum 1995-2003.

Menn og konur voru afar fljót að mynda sér sterkar skoðanir á þessum viðskiptum og við erum þar engin undantekning, þetta þykir okkur ansi djarfur og kappsamur leikur hjá Oklahoma-mönnum. 

Eitthvað hefur verið talað um að þarna sé um fyrirbyggjandi aðgerðir að ræða hjá Oklahoma, því Ibaka átti ekki langt eftir af samningi sínum við félagið og ljóst var að það yrðu engir smáaurar sem hann kæmi til með að fara fram á þegar að því kæmi. Bæði af því hann gegnir jú mikilvægu hlutverki hjá liðinu og af því að launaþakið í NBA deildinni er að hækka langt upp fyrir öll velsæmismörk, ekki ósvipað og húsnæðisverð í Reykjavík.

Það er ekkert leyndarmál að tölfræðin hans Serge Ibaka er búin að vera að dala með nokkuð áberandi hætti síðustu ár, en Oklahoma-pennar segja að það megi að hluta skrifa á þjálfarateymi liðsins, því Ibaka hafi verið beðinn um að gera hluti sem urðu ekki beint til að fóðra hjá honum tölfræðina. Til dæmis hafi minnkandi frákastatölur komið til út af því að Ibaka gerði meira af því að elta minni menn úti á velli í stað þess að vera undir körfunni. Það er sitt hvað til í þessu, meira að segja við vitum það.


Annað sem olli okkur áhyggjum - og eflaust forráðamönnum og stuðningsmönnum Oklahoma líka - var hvað 3ja stiga nýtingin hans var búin að hríðlækka undanfarið. Hlutverk Ibaka í sókninni var jú á margan hátt fólgið í því að standa fyrir utan línu og teygja á vörnum andstæðinganna - t.d. með því að toga stóru mennina með sér út úr teignum svo þeir væru ekki fyrir Russell Westbrook þegar hann keyrði á körfuna.

Stigaskor Serge Ibaka lækkaði úr 15,1 stigi fyrir þremur árum niður í 12,6 í ár og þriggja stiga nýtingin hans fór úr 38,3% fyrir þremur árum, sem er afbragð, niður í innan við 33% á liðnum vetri. Á sama hátt hrundi hann niður í blokkeringum, þar sem hann varði mest 3,7 skot 2012, en aðeins 1,9 í vetur.

Loks datt hann niður í fráköstunum, úr 8,8 fyrir þremur árum og niður í aðeins 6,8 í vetur, sem er heilu frákasti minna en leikstjórnandi liðsins tók (þó hann sé líklega öflugasti frákastari í sögu NBA miðað við hæð og stöðu á vellinum. Hér er að sjálfssögðu verið að tala um Russell Westbrook. Við misnotum ekki tækifæri til að tala um Russell Westbrook. Það væri asnalegt).

Þessi þróun í tölfræðinni er vissulega áhyggjuefni, en það sem gerði Ibaka að þeim algjöra lykilmanni sem hann var í liðinu, kemur hvergi fram á tölfræðiskýrslum. Þar erum við auðvitað að tala um varnarleikinn.

Varnarleikur Oklahoma var ekki eins góður í deildarkeppninni í vetur og undanfarin ár og þið munið eflaust eftir því að það var ein af ástæðunum fyrir því að við rökkuðum liðið niður í vor og sögðum að það ætti ekki möguleika á að gera neitt í úrslitakeppninni. 

Við erum alveg handviss um að Serge Ibaka átti þarna stóran hlut að máli, enda er hann búinn að vera mikilvægasti maður liðsins í vörninni í mörg ár.

En þegar kom inn í úrslitakeppnina um daginn, var allt í einu komið allt annað hljóð í Oklahoma-liðið og skyndilega var eins og hefði "tekið sig upp gamall varnarleikur" hjá þeim. Allt í einu voru leikmenn liðsins eins og byssukúlur út um allt gólf í vörninni, nóg til að slátra San Antonio og keyra meistara Golden State alveg út á bjargbrún, lamaða af ótta eins og Krókódílamanninn eftir viðskiptin við bjargvættinn Laufeyju í texta Magnúsar Þórs Jónssonar.



Oklahoma varð fyrsta liðið til að finna svör við ógnarsterkum sóknarleik Golden State Warriors og gerði það með liðsuppstillingu sem NBA-penninn Nate Duncan kallaði Megadeath uppstillinguna, sem er ákaflega vel að orði komist. Lykilmaður í þessari aðferðafræði var að sjálfssögðu Serge Ibaka og þessi leikaðferð hefði trúlega aldrei gengið eftir með einhverjum öðrum leikmanni, því menn sem eru með þennan pakka af lengd, snerpu og íþróttamennsku eru teljandi á fingrum annarar handar - ef það.

Það munaði sem sagt klofnu veiðihári að Oklahoma næði að slá meistarana úr leik eins og þið munið, Warriors-liðið átti engin svör við frábærri spilamennsku Oklahoma og lenti undir 3-1. Og þið getið hengt ykkur upp á það að Oklahoma hvorki slær Spurs út, né kemst 3-1 yfir gegn Warriors án Serge Ibaka. Það er bara þannig.

Og það er þess vegna sem við erum í hálfgerðu sjokki yfir þessari ákvörðun forráðamanna Oklahoma. Var Ibaka farinn að dala? Er aldurinn á honum haugalygi?* Hefði hann orðið allt of dýr þegar þeir hefðu þurft að framlengja við hann samninginn næsta sumar? 

Svörin við öllum þessum spurningum er hreint og beint já og við verðum að segja alveg eins og er - að við höfum bullandi áhyggjur af varnarleik Oklahoma eftir þessar hrókeringar og þetta háværa ánægjuandvarp sem þið heyrið alla leið frá Kaliforníu er frá Steve Kerr. Sá er feginn.

En er þá ekkert jákvætt við þessi viðskipti yfir höfuð? Er þetta bara eintómt bull? Nei, hreint ekki. Það eru jákvæðir punktar í þessu. Til að byrja með er alltaf jákvætt að vera með smá efnivið fyrir framtíðina og ef Domantas Sabonis kippir ekki nema örlítið í kynið, er Oklahoma komið með ljómandi fínan strák sem getur hjálpað þeim eftir nokkur ár. 

Lykilorðin hér eru samt "eftir nokkur ár." Nýliðar eru vitlausir og gera mistök og þess vegna er ekki hægt að leyfa þeim að spila ef þú ert lið eins og Oklahoma sem ætlar sér að vinna titil eða dauða. 

Það gefur augaleið að nýliði er ekki að fara að fá neinar mínútur í liði með svona áform, nema hann sé þá alveg eins og pabbi sinn, sem er ólíklegt.

Ersan Ilyasova er áhugaverður náungi og við erum forvitin að sjá hvort hann getur gefið Oklahoma eitthvað eða ekki. Margt bendir til þess að hann sé hættur að nenna þessu, en hann er ekki nema 29 ára gamall og er með haug af hæfileikum ef svo ólíklega vildi til að hann ætti eftir smá metnað. 

Hann var einu sinni 45% þriggja stiga skytta sem hirti níu fráköst á innan við 28 leikmínútum, sem er einfaldlega frábær tölfræði. Eini gallinn var að hann bauð upp á þessa tölfræði þegar hann var að vinna sér inn stóran samning árið 2012 og stóran samning fékk hann. En að spila upp í hann? Það var eitthvað minna. Góðu fréttirnar eru að hann er að verða búinn með áðurnefndan samning, svo hver veit?

En nóg af nýliðum og tyrkneskum letihaugum. Það er auðvitað Victor Oladipo sem er aðalmaðurinn í þessum díl og það kemur í hans hlut að láta þessi viðskipti líta vel út fyrir forráðamenn Oklahoma. Oladipo er reyndar með lausa samninga fljótlega alveg eins og Ibaka og því er alveg ljóst að Oklahoma-menn verða að hósta upp smá kassi handa honum hvað sem verður, en við eigum eftir að sjá hvernig spilamennska pilts kemur til með að hafa áhrif á þá tölfræði.

Oladipo er aðeins 24 ára gamall og getur spilað báðar bakvarðastöðurnar, þó hann sé vissulega meiri skotbakvörður en leikstjórnandi. Það getur hinsvegar bara hjálpað Oklahoma ef hann getur hlaupið í skarðið í báðum stöðum líkt og Dion Waiters var fengið að gera í úrslitakeppninni um daginn. Talandi um Dion Waiters - þessi viðskipti þýða það að Oklahoma er með öll spilin á hendi þegar kemur að því að semja við hann, ef það hefur þá áhuga á því. 

Waiters átti reyndar ágætis rispur í úrslitakeppninni um daginn, en ef við fengjum að ráða, myndi Oklahoma senda hann til Úganda á vegum Hjálparstofnunar Kirkjunnar.

Þó ekki væri nema til að sjá hvort er ekki hægt að nota hann til að koma upp salernisaðstöðu fyrir fólk sem þarf á því að halda þar niðrifrá. Það kannski lagar hugarfarið hjá honum, sem er bæði skakkt og rotið.

Oladipo hefur það orð á sér að vera mjög óstöðug skytta og þeir svartsýnustu og neikvæðustu segja að hann sé bara fjandakornið engin skytta. 

Hann er nú samt búinn að bæta sig hægt og rólega í þeim efnum og skilaði 35% þriggja stiga nýtingu á liðnum vetri sem gæti verið hræðilegra. Hann byrjaði í 33% á nýliðaárinu, hækkaði sig í 34% á öðru árinu og var svo með 35% nýtingu í vetur. 

Hver segir að hann hækki ekki eitthvað nær fjörutíu prósentunum næsta vetur þegar hann verður farinn að spila með ekki einum heldur tveimur leikmönnum sem gera það að verkum að hann verður takandi fimm GALopin skot í hverjum einasta leik - mjög svo öfugt við það sem tíðkaðist hjá Orlando.

Ær og kýr Victors Óladípó eru samt ekki langskot heldur gegnumbrot og dólgslegheit alveg eins og hjá nýjum félaga hans í bakvarðasveit Oklahoma, Russell Westbrook (sko, aftur minnumst við á Russ. #Russ). Og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað andstæðingar Oklahoma eiga eftir að stynja og dæsa þegar þeir mæta þeim Russ og Oladipo í vetur. 

Það er ekki eins og sé eitthvað gaman að dekka þessa gaura. Rétt eins og Westbrook, er Oladipo með ógurlegan mótor, hraða og sprengikraft og þetta þýðir væntanlega að Oklahoma sé með eldfimasta og dýnamískasta bakvarðapar deildarinnar í dag.

Við eigum eftir að sjá hvernig Oladipo fellur inn í áform Billy Donovan hjá Oklahoma, en sama hvernig á það er litið, ætti hann að virka miklu betur en Dion Waiters þó hann sé hvorki deddlí skytta né hár í loftinu. Hann bætir það upp með dólgslegheitum og dugnaði og svo segir sagan að forráðamenn Oklahoma hafi verið mjög hrifnir af Oladipo allar götur síðan hann kom inn í deildina - og hafi meira að segja lagt drög að því að reyna að fá hann til sín á sínum tíma.



En þá á bara eftir að tækla fílinn í herberginu og það er þetta risavaxna skarð sem Serge Ibaka skilur eftir sig í varnarleik Oklahoma. Við vitum að forráðamenn Oklahoma hafa ótakmarkaða trú á Steven Adams sem varnarmanni, enda sýndi hann okkur í úrslitakeppninni að hann er að verða einn áhrifamesti varnarmiðherji deildarinnar. Sama hvað hver segir, er Adams samt ekki að fara að fylla skarð Ibaka að fullu, það er bara ekki séns. Og þar liggja áhyggjur okkar.

Annað vanmetið atriði er hvaða áhrif það hefur á restina af mannskapnum hjá Oklahoma að Ibaka skuli hafa verið látinn fara svona einn, tveir og bingó, en sagt er að Kevin Durant og restin af leikmönnum liðsins séu "ókei" með það allt saman. Ibaka hafi sem sagt ekki skotið djúpum rótum innan liðsins hvað vinskap varðar, meðan menn eins og Durant og Westbrook eru víst orðnir ansi þéttir, sem mun vafalítið hafa áhrif þegar kemur að samningamálum þeirra beggja.

Það er ekkert í boði nema titill hjá Oklahoma næstu árin. Það er bara titill eða dauði - ekkert annað. En við bæði og þið vitum ósköp vel að það vinnur enginn titla nema vera með skothelda vörn. Oklahoma hefur alla burði til að vera með góða vörn - og Oladipo getur heldur betur hjálpað þar, við gleymdum að taka það fram - en verður þessi vörn nógu góð til að fara alla leið í fjarveru Ibaka? Það er þúsund dollara spurningin.

Þá er bara einni spurningu ósvarað. Hvað Kevin Durant á að gera í sumar. Og þið vitið alveg jafnvel og við að það er bara eitt fyrir hann að gera og það er að framlengja við Oklahoma. Það er ákveðin áhætta fólgin í því fyrir hann að semja til eins árs í viðbót af því það er jú ekki langt síðan að fólk hafði áhyggjur af því að drengurinn yrði samur á ný eftir þrálát fótameiðsli. 

En við erum samt nokkuð viss um að Durant eigi eftir að gera eins árs samning fyrst og fá svo últramegarisa díl árið eftir, þegar launaþakið verður komið upp í tuttuguhundruðþúsund og trilljón drilljarða dollara eftir tvö ár.

En svona fyrir utan peningana, þá er það eina sem Durant hefur látið hafa eftir sér með áform sín er að hann ætli sér að láta körfuboltann ráða því hvar hann spilar í framtíðinni. Það þýðir væntanlega að hann ætli ekki að eltast við skærari ljós einhverra af stórborgum Bandaríkjanna þar sem skemmtun fyrir fullorðna er opin allan sólarhringinn en ekki bara til tíu að kveldi eins og á miðvikudagsbingóinu eða á dráttarvéla- og hrútasýningunum í Oklahoma. 

Og ef taka á "körfuboltaákvörðun" um framhaldið, er valið ekki andskoti flókið, því það eru ekki mörg lið í deildinni sem annars vegar geta búið til pláss fyrir Durant launalega og hinsvegar eru með jafn góðan eða betri mannskap en Oklahoma. 

Samkvæmt nýjustu "fréttum" eru sumsé aðeins þrír kúbbar sem kæmu til greina fyrir Durant. Oklahoma, San Antonio og Golden State. Fyrir utan augljósa kosti þess að vera um kyrrt (meira monní, lengri samningur), er tilhugsunin um að sjá Durant annað hvort hjá Spurs eða Warriors alveg hrikaleg fyrir restina af deildinni.

Bæði lið þyrftu að fara í miklar hrókeringar til að búa til pláss fyrir Durant á bókunum hjá sér og því gefur augaleið að þau myndu veikjast eitthvað við það. Það breytir því ekki að bæði lið yrðu hrottaleg með Durant innanborðs.

En er Durant að fara að semja annað hvort við klúbbinn sem hann sló út úr úrslitakeppninni í ár - eða, það sem verra er - klúbbinn sem hann tapaði fyrir í úrslitakeppninni í ár? 

Það hljómar mjög undarlega og þið getið ímyndað ykkur glósurnar sem hann fengi ef hann myndi ganga til liðs við "óvininn" í annað hvort Spurs eða Warriors. 

Hann fengi ekki alveg sama skítinn og LeBron James þegar hann fór til Miami, en ekki mikið minna.

Nei, eins rosalegt og það yrði nú, borgar það sig ekki fyrir Durant að fara eitt eða neitt, svona ef hann ætlaði að hafa okkur með í ráðum. 

Þeir Durant og Westbrook eru búnir að vera að byggja þetta lið upp allar götur síðan árið 2008 og þeir eru komnir svo ískyggilega nálægt takmarkinu að það tekur því ekki að hætta núna. 

Oklahoma er eitt líklegasta liðið á pappírunum og í veðbönkum til að vinna titilinn á næstu leiktíð, en það gefur augaleið að það verður ekkert úr þeim plönum ef hann stingur af. Það er langmest töff að gera liðið sem draftar mann að meistara, það er eitthvað svo clean og skemmtilegt.

Við erum kannski íhaldssöm og boring, en við vonum innilega að Kevin Durant verði áfram í Oklahoma og haldi áfram að reyna við titilinn þar, þó við séum stundum ekki alveg viss um að skrifstofan hjá félaginu sé nógu hörð til að tjalda öllu til að vinna titil. 

Eitt er víst að við getum ekki beðið eftir því þegar Durant ákveður sig og fjölmiðlar í Bandaríkjunum finna sér einhverjar aðrar ekkifréttir til að velta sér upp úr tuttuguogfjórirsjö.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Einhver hefði haldið að bull eins og að ljúga til um aldur leikmanna heyrði sögunni til, en svo er víst ekki. Samkvæmt ESPN-pennanum ágæta Royce Young, eru forráðamenn Oklahoma víst alls ekki vissir um að pilturinn sé fæddur árið 1989 og þar af leiðandi 26 ára gamall. 

Hvort þetta er satt eða logið verður ekki ákveðið hér, en það er dálítið átakanlegt ef klúbbar í NBA deildinni þurfa raunverulega að hafa áhyggjur af því að verða fyrir barðinu á Nígeríusvindlurum. Það er eiginlega svo fyndið að það er ekkert fyndið við það.