Wednesday, June 29, 2016

Ef LeBron James hefði kastað míkrófón í vatn


Við elskum fótbolta. Við spiluðum einu sinni fótbolta og þó við elskum fótbolta ekki eins mikið og körfubolta, fylgjumst við ekki síður með knattspyrnu en Leiknum okkar.

Okkur þykir nauðsynlegt að slá þennan varnagla áður en við byrjum á næstu hugleiðingu, svo fótboltamenn og konur fari ekki að kalla þetta körfuboltaáróður gegn fótbolta eða eitthvað slíkt. Þetta er ekki ætlað sem áróður, þetta er bara atriði sem vakti athygli okkar.

Þannig var að við rákumst á stutt brot úr kjaftaþættinum Mike & Mike á ESPN fyrir skömmu, þar sem Mike Greenberg benti á þennan skemmtilega punkt.

Greenberg var að tala um muninn á fótboltamönnum og körfuboltamönnum og þá sérstaklega muninn á hegðun þeirra frægustu í greinunum hvað fjölmiðla snertir.

Hann benti á tvö nýleg dæmi um eftirtektarverða hegðun knattspyrnumanna. Annars vegar atriðið þegar Cristiano Ronaldo henti míkrófón fjölmiðlamanns sem reyndi að ná tali af honum út í vatn og hinsvegar ákvörðun Lionel Messi að hætta að spila með landsliði Argentínu eftir tapið í úrslitaleik Ameríkukeppninnar á dögunum.

Þessi tvö atriði nefndi hann sem dæmi og velti svo upp spurningunni hvernig bandaríska þjóðin myndi bregðast við ef LeBron James myndi sýna svona hegðun.

Svarið við spurningunni er augljóst - James yrði tekinn af lífi í fjölmiðlum og víðar ef hann myndi gera eitthvað þessu líkt.

Eins og þið vitið flest, hefur hann margoft valdið fjaðrafoki í fjölmiðlum fyrir eitthvað sem mælist ekki við hliðina á íþróttum eins og míkrófónakasti án atrennu (í vötn). Eins og til dæmis að mæta með vitlausa húfu á íþróttakappleik og fá hraðasekt, svo við tölum nú ekki um "ákvörðunina" hans frægu.

Hvað hefðu fjölmiðlar t.d. sagt ef LeBron James hefði látið hafa annað eins eftir sér og Ronaldo gerði þegar hann gerði lítið úr íslenska landsliðinu eftir viðureign þess við Portúgal á dögunum?

Bandaríska pressan væri enn að hrauna yfir hann.

Það má segja ýmislegt misjafnt um Bandaríkjamenn, en íþróttastjörnurnar þeirra eru í flestum tilvikum kurteisar og almennilegar þegar kemur að samskiptum við fjölmiðla. Okkur er líka til efs að við eigum eftir að heyra "Strákana Okkar" vera með einhvern dónaskap við eða í fjölmiðlum og gildir þá einu hvort um er að ræða fót-, hand- eða körfuboltastrákana okkar.

Tilgangurinn með þessari hugleiðingu er ekki að draga upp dökka mynd af knattspyrnustjörnum eða upphefja íslenska eða ameríska íþróttamenn óþarflega mikið, það eru sannarlega hægðaheilar í körfuboltanum eins og annars staðar og menn eins og Ronaldo og Messi láta báðir gott af sér leiða með reglubundnum hætti.

Okkur langaði aðeins að benda á það hvað virðist vera misjafnt gildismat í gangi hjá íþróttastjörnum heimsins í dag og nokkuð misjafn tolerans þegar kemur að viðskiptum þeirra við fjölmiðla.