Lúxusskatturinn svokallaði byrjar að telja í 8,8 milljörðum og frá og með síðustu kjarasamningum sem gerðir voru í verkbanninu hræðilega, eru nú sektir fyrir að fara yfir launaþakið orðnar stjarnfræðilegar. Félögin þurfa þannig að borga 1,5 dollara á móti hverjum dollara ef þau fara 0-5 milljónum yfir markið og glæpsamlega 2,5 dollara á móti hverjum dollara ef farið er 10-15 milljónum yfir þakið.
Þannig gengur þetta koll af kolli, talan hækkar um 0,5 við hverjar 5 milljónir dollara sem farið er yfir markið. Það eru því varla takmörk fyrir því hvað hægt er að skattpína stórhuga félög á borð við Nets. Samkvæmt kjarasamningum, skiptast upphæðirnar sem Mikhail Prokhorov eigandi borgar í lúxusskatt á hin félögin í deildinni. Þessu kerfi er ætlað að koma á fjármálajöfnuði í deildinni, hvernig svo sem það gengur.
Brooklyn er að borga 12,4 milljarða króna í laun ef skatturinn er ekki talinn með og það er svo magnað að þú þarft ekki að taka saman nema laun byrjunarliðsins til að sprengja launaþakið í tætlur. Deron Williams, Joe Johnson, Paul Pierce, Kevin Garnett og Brook Lopez eru samanlagt með 10 milljarða í laun í vetur.
Brooklyn er að borga tæpa 10 milljarða bara í lúxusskatt í ár, sem er það langhæsta sem félag hefur þurft að reiða fram í sögu NBA.
Gamla metið átti Portland, sem pungaði út rúmum sex milljörðum í lúxusskattinn árið 2003 eftir að hafa gert nokkuð heiðarlega tilraun til að byggja upp meistaralið.
Þessir 10 milljarðar sem fara sérstaklega í skattinn hjá Nets eru hærri upphæð en 26 af liðunum 30 í NBA deildinni greiða í heildarlaun, sem er auðvitað alveg þræleðlilegt...
Prokhorov er í heildina að borga yfir 22 milljarða króna í laun í vetur, en hann hefur svo sem efni á því. Forbes metur eignir auðmannsins rússneska á yfir 1600 milljarða króna.
Hann fer því létt með að borga þessi svimandi háu laun - og á meira að segja afgang til að kaupa sér Stiga-sleða og Snickers ef sá gállinn er á honum.