Friday, November 14, 2014

Lakers missir ekki mjög oft af úrslitakeppninni


Hvað eiga ártölin 1958, 1975, 1976, 1994, 2005 og 2014 sameiginlegt?

Ekki hafa áhyggjur þó þú vitir það ekki, en þetta eru einu árin í sögu Minneapolis/Los Angeles Lakers sem liðið hefur ekki komist í úrslitakeppnina. 

Velgengni þessa félags er með algjörum ólíkindum, en nú er nokkuð ljóst að Lakers missir af úrslitakeppninni annað árið í röð í aðeins annað skiptið í rúmlega 60 ára sögu félagsins.

Öll þessi velgengni kemur reyndar ekki bara til vegna þess að framkvæmdastjórn félagsins hafi alltaf verið svona svakalega klár. 

Los Angeles er vinsæll áningarstaður hjá NBA leikmönnum og svo hefur glamúrinn í kring um liðið síðustu áratugi verið með því besta sem gerist. 

Menn vilja spila í Los Angeles, stjórnin hefur verið góð, markaðurinn er stór, stjörnurnar eru margar, glamúrinn glansandi og svo auðvitað endalaus peningur í bauknum.

Ástandið hjá Lakers í dag er grábölvað og hefur ekki verið jafn slæmt í fjörutíu ár. Jafnvel þó Lakers tækist á einhvern ótrúlegan hátt að fara að vinna leiki, kæmi það aðeins niður á liðinu, því það missir valréttinn sinn í nýliðavalinu næsta sumar til Phoenix ef það nær ekki valrétti eitt til fimm.

Á meðan liðið hangir á biðstofunni og bíður eftir að fá tækifæri til að verða gott í körfubolta aftur. 

Það er nákvæmlega ekkert sem stuðningsmenn Lakers geta huggað sig við í vetur nema kannski að skemmta sér við að horfa á Kobe Bryant skjóta og skjóta og skjóta og reyna að slá einhver met. 

Ekki eins og þeir geti drepið tímann með að fylgjast með nýliðanum sínum vaxa, enda er hann bara á hækjum í einhverju rugli. 

Mikið erum við öll fegin að halda ekki með Lakers þessi misserin, það er ekki gaman. En þið getið gleymt því ef þið haldið að nokkur maður eða kona í heiminum fari að vorkenna Lakers. 

Það vorkennir enginn liði sem er nýbúið að vinna tvo meistaratitla og sextán í það heila. Kommon.