Sunday, November 9, 2014

Eiga Flóamenn erindi í titilbaráttu?


Frábær leiktíð er hafin í NBA deildinni. Augu margra beinast að vandræðagangi Cleveland en það er miklu skemmtilegra að skoða liðin sem gengur vel. Og engu liði gengur betur í dag en Golden State Warriors.

Eins og komið var inn á í 32. þætti hlaðvarpsins á dögunum, er þetta Warriors lið skyndilega orðið svo sterkt að það er hreinlega til alls líklegt. Við verðum að viðurkenna að þetta kemur dálítið aftan að okkur. Við áttum bara ekki von á þessu.

Fyrir mánuði síðan, voru á að giska fimm körfuboltalið sem áttu raunhæfa möguleika á meistaratitli að okkar mati. Svona ef tekið var mið af þeim mannskap sem þau höfðu yfir að ráða. 

Þetta eru Cleveland og Chicago í austri og San Antonio, Oklahoma og ef til vill Los Angeles Clippers í vestri.

Öflug lið Dallas, Houston, Memphis og Golden State voru þar rétt fyrir utan. Lið sem eru að banka mismikið á dyrnar, en eru skrefi á eftir þeim áðurnefndu þó þau gætu alveg gert einhverja skandala ef þau hefðu heppnina með sér.
En nú er svo komið, krakkar, að Golden State er bara orðið bullandi kandídat í titil.

Við náum ekki alveg utan um það af hverju þetta lið læddist svona aftan að okkur og ákvað að gerast contender. Ekki var það að bæta við sig miklum mannskap eða neitt þannig. 

En ef þú rýnir í spilamennsku liðsins í haust og breiddina sem það hefur yfir að ráða, er ljóst að það er kominn tími til að fara upp á næstu hæð hjá Warriors - raunar að minnsta kosti tvær hæðir í tilviki Golden State.

Alltaf skulum við hafa þann fyrirvara á hlutunum að Dubs eru bara búnir að spila fimm leiki í deildakeppninni og þetta er bara rétt að byrja, en það er engin lognmolla á toppnum í Vesturdeildinni eins og þið hafið séð. 

Stóru tíðindin eru auðvitað að einhver henti handsprengju inn í búningsklefann hjá Oklahoma og allt nema eyðilagði (enn eina) leiktíðina fyrir Kevin Durant og félögum. Það verður engin lautarferð fyrir OKC að komast í úrslitakeppnina í vor ef það endurheimtir stjörnurnar sínar ekki fyrr en undir eða eftir áramótin, en við skulum kannski hafa áhyggjur af því þá.

San Antonio er San Antonio og það er líka lið sem við þurfum ekkert að pæla í fyrr en í vor. En svo koma Clippers og Golden State.

Skemmst er frá því að segja að Clippers-liðið er að spila eins og drasl undanfarið og hefur alls ekki verið sannfærandi. 

Það þýðir ekki að Clippers sé ekki gott lið, en það er stórfurðulegt hvað það hefur verið að spila illa. 

Leikmenn liðsins ættu fjandakornið að vera farnir að þekkja hver annan nokkuð vel, en stundum spila þeir eins og menn sem eru að hittast í fyrsta sinn. 

Doc Rivers á eftir að laga þetta, en það er ekki honum að kenna að liðið hans sé að drulla á sig. Það er okkur að kenna, af því við spáðum því að liðið ætti eftir að gæla við 60 sigrana í vetur. Sorry, Clippers-menn.

En, já. Þessi pistill er um Golden State, ekki Clippers.

Það var reyndar fyrri hálfleikurinn í leik Warriors og Clippers sem byggði þessa ofurtrú okkar á Golden State liðinu. Allt í einu hugsuðum við í miðri gæsahúðinni yfir varnar- og sóknarleik Warriors: "Andskotinn hafi það! Þetta lið er contender!"

Sjáðu breiddina í þessu!Golden State varð allt í einu gott varnarlið í fyrra og enginn veit af hverju. Þvert á það sem verið hafði í gangi árin og áratugina á undan, var liðið að spila fínan varnarleik, en sóknarleikurinn var drasl þó mannskapurinn væri hæfur til annars.

Nú vilja menn meina að Steve Kerr sé byrjaður að laga þetta. 

Það á eftir að koma í ljós hvort hann kann eitthvað að þjálfa en hann byrjar vel og er með frussandi reynslu - meistaratitlareynslu. 

Flest bendir til þess að Kerr verði betri kostur en Mark Jackson, enda hatar hann ekki samkynhneigða og er búinn að þjálfa liðið marga daga í röð án þess að reka einhvern.

En aðalatriðið í þessu er náttúrulega alltaf mannskapurinn og það vantar ekkert svoleiðis hjá Warriors. Kerr er búin að hrista aðeins upp í byrjunarliðinu vegna áherslubreytinga og meiðsla David Lee og það hefur umsvifalaust skilað árangri. Þannig kemur Draymond Green inn í fjarkann í stað David Lee og svo samþykkti Andre Iguodala að gefa byrjunarliðssætið sitt eftir til handa Harrison Barnes.

Þetta þýðir að bekkurinn hjá Dubs er orðinn alveg hrikalegur. David Lee hefur aldrei verið í vandræðum með að skora stig, en þið getið rétt ímyndað ykkur hvað hann á eftir að ganga berserksgang þegar hann fer að tæta varamenn andstæðinganna í sig.

Shaun Livingston er fjölhæfur leikmaður sem gefur Warriors nýja vídd og svo virðist Kerr meira að segja hafa beitt munn-við-munn aðferðinni á Leandro Barbosa félaga sinn frá Phoenix-árunum með ótrúlegum árangri.

Það er sumparrt vegna meiðsla, en Barbosa er bara búinn að vera á haugunum í tvö ár. Svo dúkkar hann allt í einu upp hjá Kerr og fer bara að skora eins og hlaupagaukur líkt og hann gerði þegar hann var að bakka Steve Nash upp og skjóta á sjö sekúndum eða minna.

Þá má ekki gleyma Festus Ezeli frænda þínum. Það er annar maður sem fólk var næstum búið að gleyma vegna langvarandi meiðsla, en sá ungi maður var farinn að sýna drullu skemmtilega hluti áður en hann meiddi sig.

Draymond Green er glettilega skemmtilegur leikmaður. Fínn varnarmaður, stuðkall og uppáhald áhorfenda, baráttuhundur og virðist alltaf vera að bæta sig sem sóknarmaður. Hann er þriðji stigahæsti maður liðsins og er ekkert hræddur við að skjóta boltanum. Hvað þá að ulla á Blake Griffin.

Þá eru náttúrulega ótaldar stjörnurnar, Sviss-lendingarnir og busl-bræðurnir Curry og nýríkur Thompson í bakvarðastöðunum og svo John Terry-inn í liðinu, Andrew Bogut, með sinn frábæra varnarleik, fráköst og eitursvalar sendingarnar. Þetta er bara bjútífúl, sko.

Ef við skoðum tossalistann með atriðunum sem lið þurfa að hafa í lagi til að geta keppt um titla, er ekki að sjá annað en að Dubs uppfylli þau flest. Bara svona allt í einu!

Þetta lýsir sér þannig að Golden State er með einhverja mestu breidd í NBA deildinni, liðið er með stjörnur sem geta tekið af skarið og búið til stig upp úr engu, það er mjög ofarlega í deildinni BÆÐI í vörn og sókn, það er með æpandi geðveika stuðningsmenn, það er komið með nokkuð góða reynslu og lykilmenn þekkjast orðið mjög vel, liðið getur mætt öllum leikaðferðum sem andstæðingarnir bjóða því upp á - það getur teflt fram lágvöxnu liði, hávöxnu liði, frábæru varnarliði og sjúklegu sóknarliði.

Bættu svo við þetta að ALLIR leikmenn liðsins eru gríðarlega hungraðir í að vinna titil og við erum komin með skaðræðis kokteil. 

Ef við gefum okkur það svo að Kerr kunni eitthvað að þjálfa og að lykilmenn haldi heilsu (mikilvægasta, en um leið ólíklegasta atriðið í upptalningunni), erum við komin með uppskrift að meistaraliði. Það er ekkert flóknara.

Og svo er þetta líklega skemmtilegasta liðið í NBA til að horfa á spila körfubolta.

Velkomin á Warriors-vagninn. Hoppið um borð áður en það verður of seint.