Saturday, November 1, 2014

Oklahoma er úr leik í toppbaráttunni í vestrinu


Já frussandi.  Frussandi gremja!

Þetta er ekki bara ódýr orðaleikur. Farðu bara í efnisorðalistann hérna til hægri og sjáðu hvort er ekki til hasstagg sem heitir Frussandi Gremja.  Sátt(ur)? Ókei, þá getum við snúið okkur að því sem skiptir máli, nefnilega þróun mála í Vesturdeildinni.

Magnað að skuli vera búið að draga til stórtíðinda í vestrinu eftir að eins tvo leiki, en þannig er það nú samt. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinu ykkar sem á annað borð fylgist með NBA að Oklahoma City nær varla í lið lengur vegna meiðsla.

Nú síðast datt hann Russ okkar úr leik vegna handarbrots og verður frá í að minnsta kosti fjórar vikur. Okkur skilst að hann hafi meiðst eftir að hafa rekist utan í Kendrick Perkins liðsfélaga sinn. Ef einhvern tímann var ástæða til að senda þann mann í langt frí...

Oklahoma án Kevin Durant OG Russ?  Gleymdu því, enda byrjar liðið 0-2 og á erfiða daga og vikur í vændum án tveggja af bestu körfuboltamanna í heimi. Fyrir utan það að missa þessa sterku leikmenn, þá kann Oklahoma ekkert að spila án þeirra af því það hefur aldrei þurft að gera það.

Nú ætlum við ekki að detta í einhverja dramatík og halda því fram að Oklahoma komist ekki í úrslitakeppnina eða eitthvað svoleiðis rugl (gúlp!). 

En það er samt morgunljóst að fjarvera Russ og KD þýðir að Oklahoma á nú mjög litla möguleika á toppsætunum í vestrinu og þar með séns á að tryggja sér heimavallarrétt í seinni umferðum úrslitakeppninnar.

Fyrir mörg önnur lið væri þetta grábölvað, en við ætlum að nota þetta tækifæri og segja stuðningsmönnum Oklahoma að hafa engar áhyggjur af þessu. 

Oklahoma er nefnilega orðið það rútínerað og reynslumikið lið þrátt fyrir ungan aldur lykilmanna, að það getur alveg unnið stóra leiki á útivöllum. Það sýndi það t.d. á móti LA Clippers í vor sem leið.

En hvað þýða þessi meiðsli þeirra félaga fyrir Vesturdeildarkapphlaupið?
Það bara getur ekki verið að Oklahoma eigi séns á efstu 1-3 sætunum í vestrinu í öllum þessum meiðslum.

Og þá eru eftir San Antonio, LA Clippers, Houston, Golden State, Portland, Memphis, Dallas, Phoenix.... 

Hver þessara liða eiga raunhæfa möguleika á toppsætunum í vestrinu? Kíkjum á það.

Eins og vitleysingarnir sem við erum, ætlum við að dæma um það út frá því sem við höfum séð í fyrstu tveimur umferðunum af deildakepninni.

Meistarar San Antonio voru líklegir til að taka Vesturdeildina í enn eitt helvítis skiptið í vetur, og það löngu áður en Durant og Westbrook meiddust. 

San Antonio var langbesta liðið í NBA deildinni fyrir nokkrum mánuðum síðan og því er engin ástæða til að ætla að það hafi breyst eitthvað.

Við eigum von á því að Gregg Popovich þjálfari Spurs eigi eftir að halda áfram að nota stjörnurnar sínar sparlega eins og virkaði svo vel fyrir liðið á síðustu leiktíð. 

En þrátt fyrir það, er engin ástæða til að ætla að liðið missi dampinn við það frekar en í fyrra. Þú hefðir getað hent Guðna Ágústssyni og Bryndísi Schram inn í þetta lið í fyrra - það hefði samt unnið.

Margir reiknuðu með að Clippers ætti eftir að verða enn betra í vetur en það var á síðustu leiktíð og við hoppuðum skammlaust upp á þann vagn. 

Sáum fyrir okkur að nú væri liðið að ná fullum tökum á sýsteminu hans Doc Rivers, Blake og Jordan að verða betri og betri, og þá væri félagið laust við helvítið hann Sterling.

Það getur vel verið að þetta eigi allt eftir að ganga eftir, en vitið þið hvað? Clippers er búið að spila drullu illa á undirbúningstímabilinu og í fyrst tveimur leikjunum í deildinni. Smá turn-off fyrir okkur öll sem höngum á Clippers-vagninum, en þetta lið er allt of vel mannað til að drulla á sig og það getur bara farið til andskotans ef það verður neðar en í 2. sæti í vestrinu. Hvað segirðu um það?

Houston og Portland voru jöfn í 4-5. sæti í vestrinu á síðustu leiktíð, enda mættust þau í fyrstu umferð úrslitakeppninnar þar sem Portland hafði betur í epískri seríu.

Margir spá því að Portland geti ekki farið nema niður á við af því breiddin er enn ekki góð hjá liðinu og vegna þess hve ótrúlega heppið það var með meiðsli í fyrra. Það er ekki ólíklegt að þetta lið verði á svipuðum slóðum og þá, slefar líklega í um eða yfir 50 sigra.

Við höfum dálitlar áhyggjur af Houston. Dwight Howard lítur reyndar betur út en hann hefur gert lengi - sennilega síðan áður en hann fór til Lakers. 

Houston missti hinsvegar einu varamennina sem gátu eitthvað í sumar. Trevor Ariza virðist ætla að dekka skarð Chandler Parsons (Ariza er talsvert betri leikmaður en Parsons ef hann nennir því) en liðið fékk lítið sem ekkert í staðinn fyrir Jeremy Lin (Lakers) og Omer Asik (Dílaskarfarnir).

Við erum að tala um það að bekkurinn hjá Houston er sennilega orðinn lélegri en bekkurinn hjá Portland. Jason Terry kemur í stað Jeremy Lin, en Terry hefur ekki spilað mínútur sem skiptu máli í þrjú ár og svo kemur það í hlut einhverra krakkaasna að leysa Howard af hólmi.

Houston fór all-in í sumar þegar það reyndi við menn eins og Chris Bosh, en endaði tómhent. Þetta er eiginlega dálítið klúður hjá þeim og þú getur gleymt því að þetta lið komist lengra en í aðra umferð úrslitakeppninnar. 

Vita þeir að Dwight Howard er ekki 24 ára?

Golden State er vinsælt val hjá þeim sem tippa á Öskubuskugang í vetur. Kannski ekki Öskubuskugang - þetta er jú frábært körfuboltalið - en menn tippa á það án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því að lið Warriors eigi eftir að slást um sigur í Vesturdeildinni í vetur.

Það er af því þeir trúa í blindni á Steve Kerr sem þjálfara. Það getur vel verið að Kerr taki Mark Jackson eða jafnvel Jeff Hornacek á þetta og vinni alveg haug af leikjum með Warriors í vetur. 

En eins og þið munið kannski úr spánni okkar um daginn, er eitthvað sem segir okkur að þetta verði meiðslavetur hjá Golden State.

Þetta er gott lið - mjög gott lið. En við sjáum það ekki ógna toppliðunum í vestrinu. Hvorki í deildakeppninni né úrslitakeppninni. Það vantar bara alltaf eitthvað upp á hjá þeim og það er oftar en ekki tengt heilsutjóni lykilmanna eins og Andrew Bogut á síðustu leiktíð og David Lee árið þar áður. 

Spurning hvort ökklarnir á Steph Curry halda út veturinn núna...
Phoenix heldur örugglega áfram að Spútnika yfir sig og það kæmi okkur ekkert á óvart ef það kæmist í úrslitakeppnina. 

En það kæmi okkur heldur ekkert á óvart þó Memphis og Dallas yrðu í baráttunni um heimavallarréttinn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. 

Memphis er ennþá ógnarsterkt lið og er aðeins búið að bæta við sig (nauðsynlegri stigaframleiðslu af bekknum í formi Vince Carter).

Dallas rekur svo lestina hjá okkur. Þar á bæ ríkir bæði botnlaus bjartsýni og gleði yfir því að félagið skuli vera búið að endurheimta þá Tyson Chandler og nú síðast JJ Barea sem urðu meistarar með því árið 2011. 

Svo er Chandler Parsons líka að slá í gegn þó hann sé feitur að mati þjálfara síns og ekki alveg búinn að stilla miðið í skotunum. Parsons fer samt alltaf langt á því hvað hann er fallegur. Andskotinn hvað drengurinn er fallegur. 

Nennirðu að hætta að vera svona fallegur, drengur!?!

En já...

Það kann enginn að spila vörn í þessu Dallas-liði nema Tyson Chandler og hann er á aldri við Hegningarhúsið. 

Rick Carlisle er hinsvegar svo ógeðslega góður þjálfari að hann nær að berja þetta saman. Sóknarleikurinn verður svo bara eitthvað nammi náttúrulega. Líklega nógu góður til að vinna yfir 50 leiki í vetur.

Látum okkur sjá... Var ekki planið með þessum pistli að athuga hvaða lið yrðu efst í Vesturdeildinni í ljósi þess að Oklahoma virðist úr leik í þeim efnum?

Jú, mikið rétt. 

Þá eru það bara San Antonio og Clippers sem koma til greina. Segjum það bara. Það er fullt af liðum í Vesturdeildinni sem hafa fulla getu til að spila aðeins upp fyrir sig og bæta sig frá í fyrra, en við sjáum þau ekki brjótast inn í toppliðaklúbbinn.

San Antonio, Oklahoma og LA Clippers eru bestu liðin í Vesturdeildinni og í ljósi vandræða Oklahoma með meiðsli, er ljóst að baráttan verður á milli Spurs og Clippers. Þar með er augljóst að það verður San Antonio sem tekur þetta enn eina ferðina, því ekki tippar fólk á móti San Antonio. Það er enginn svo vitlaus.