Saturday, November 1, 2014

Cleveland tók fyrstu lotu (+ myndir)


Það var Cleveland sem hafði betur í Austurdeildaruppgjörinu okkar í nótt.

Chicago var fimm stigum yfir þegar 47 sekúndur voru eftir af leiknum, en náði að missa hann í framlengingu þar sem Cleveland hafði að lokum góðan sigur 114-108.

LeBron James ferðaðist aftur í tímann og bar liðið á herðum sér í framlengingunni. Hann skoraði 36 stig og hirti 8 fráköst í leiknum og Tristan Thompson átti líka stóran þátt í sigri Cavs með því að hirða 12 sóknarfráköst.

Eftir að hafa verið of spenntir og ef til vill of fastir við leikplanið í gærkvöldi, leyfðu leikmenn Cleveland sér að vera frjálsari í sóknarleiknum gegn Bulls. Sá sóknarleikur gekk út á það að Kyrie Irving og LeBron James skiptust á að skora sjálfir.

Það er ekki fallegt til lengdar, en auðvitað er freistandi að grípa til þess háttar sóknaraðgerða ef þú ert með mannskap sem getur nánast skorað að vild.

Það var langt í frá sami glansinn á Chicago í kvöld og var í New York tveimur dögum áður, en við verðum líka að taka það með í reikninginn að þó svo að Derrick Rose sé kominn aftur, eru meiðsli samt enn að halda aftur af þessu liði.

Bæði Derrick Rose og Taj Gibson náðu að meiða sig í nótt, þó það eigi tæplega eftir að kosta þá leiki, en svo er Joakim Noah (og Rose) enn að spila takmarkaðar mínútur og Jimmy Butler er ekki með. Vonandi verða svona afsakanir ekki viðloðandi Bulls í allan vetur. Þetta lið getur bara gleymt því að vera með í dansinum ef það nær ALDREI að hanga heilt.

Það verður alveg óstjórnlega gaman að fylgjast með báðum þessum liðum stilla saman strengi í vetur. Sérstaklega getum við ekki beðið eftir að sjá hvernig þeir Noah og Gasol eiga eftir að ná saman í sóknarleiknum. Gasol sýndi reyndar lipra takta á hinum enda vallarins í nótt og varði álíka mörg skot í leiknum og forveri hans Carlos Boozer varði á ferlinum með Bulls.

Það er hreint út sagt viðbjóður að ætla að gera eitthvað í kring um körfu Chicago  með þessa tvo turna í Noah og Gasol með handleggina úti um allt. Svona lengd er ákaflega mikilvægur þáttur í góðum varnarleik.

Hérna eru myndir úr veislunni handa ykkur: